Spánn
Y Viva España!
Spánn hefur um árabil verið eitt vinsælasta land Evrópu meðal ferðafólks og þangað drífur að mikill fjöldi gesta alls staðar úr heiminum allan ársins hring. Ástæðan er langt frá því að vera ,,af því bara“ – á Spáni er svo margt að sjá og upplifa, fjölbreytileiki landsins er gríðarlegur, auk þess sem þar er auðvitað nóg til af því sem allir elska og þrá, nefnilega sól og blíðu!
Konungsríkið Spánn telur um 46 milljónir íbúa. Það er um það bil 5 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og staðsett á Íberíuskaga (stundum nefndur Pýreneaskagi) syðst í Evrópu, með landamæri að Portúgal til vesturs og Frakklands og smáríkisins Andorra til norðurs. Löng austurströnd landsins snýr að Miðjarjarðahafi, og syðsti oddi Spánar er um leið syðsti oddi meginlands Evrópu.
Æðislegar strendur, eldhresst næturlíf, sprúðlandi fjölmenning og borgir með afar áhugaverðan bakgrunn og sögu, og stórbrotnar byggingar því til sönnunar – allt þetta hefurðu á Spáni. En landið býr einnig yfir miklum fjölbreytileika í landfræðilegum skilningi, enda æði stórt og mikið. Þar hefurðu fjöll og snjó í norðri, risavaxin mýrlendi og sandflæmi í suðri. Sumrin eru vissulega háannatími í ferðaiðnaði landsins, en þeir sem heldur kjósa minna fjölmenni eða vetrarferðir hafa sannarlega úr mörgu að moða.
Á Spáni eru margar fallegar og spennandi borgir. Fyrst má nefna þær þekktustu, höfuðborgina Madrid með sínum heillandi arkitektúr, fjölbreyttu söfnum og sýningum, og hina mögnuðu Barcelona með sín fjölmörgu ólíku hverfi, stórbrotnu byggingar, blómstrandi menningarlíf, iðandi næturlíf og fyrirtaks sólbaðsstrendur. En þá er langt í frá allt upptalið, því hér höfum við líka borgir eins og Sevilla, Valencia, Granada og Bilbao og fleiri, allt staðir með sína einstöku sérstöðu sem fyllilega má mæla með. Þess utan eru svo minni bæir og þorp, við ströndina eða uppi á landi, sem með sjarma sínum og fegurð draga til sín sólþyrsta gesti í leit að afslöppun og ánægju.