Í Bilbao blandast nútíð og fortíð svo skemmtilega saman að borgin hefur oftar en einu sinni hlotið verðlaun fyrir hönnun sína og skipulag. Þetta er sannarlega ein af áhugaverðustu borgum Spánar, oft nefnd ,,avant garde“ borg landsins fyrir sinn framúrstefnu byggingarstíl, en er einnig full af iðagrænum náttúrutöfrum.
Bilbao er staðsett á norðurhluta Spánar, 16 km frá hafi, báðum megin Nervíon árinnar sem rennur um borgina miðja. Íbúar eru um 350.000. Innfæddir nefna borgina sína oft holuna (botxo), sem stafar af staðsetningu hennar í miðju tígurlegs fjallagarðs sem umvefur hana með sínum gróðursælu hlíðum. Þótt þar finnist menjar allt frá 11. öld er aldur hennar rakinn til 14. aldar og þá hófst hennar blómaskeið.
Gamli bærinn (Las Siete Calles) er dásamlegur minnisvarði fyrri tíma, þar slær hjarta borgarinnar og býður upp á ánægjulega göngu um hinar svokölluðu ,,Sjö götur“ (Las 7 Calles) þar sem finna má fornar helgimyndir og byggingar á borð við Santiago dómkirkjuna (Catedral de Santiago de Bilbao) og kirkju San Antón (Iglesia San Antón). Ekki sakar að gamla hverfið er auk þess hlaðið gæða veitingastöðum þar sem upplifa má sannar baskneskar veitingar.
Reyndar er borgin öll lifandi sönnun þess að matargerð er listgrein. Úrvalið af veitingastöðum, allt frá litlum götustöðum til fínni veitingahúsa er endalaust, og rétt að benda á að fjöldi Michelin stjörnustaða er hér með því mesta í heimi. Og allt um kring eru hljóðfæraleikarar sem spila dillandi og líflega tónlist til að skapa réttu stemminguna. Hér er matur, hér er gleði, hér er músík!
Ein af stærri rósum borgarinnar er Guggenheim safnið sem opnað var 1997. Þetta er hreint út sagt stórbrotin bygging sem enginn ætti að láta framhjá sér fara, risavaxinn varði um nútíma- og framúrstefnu arkitektúr. Innan dyra er boðið upp á einstakar listasýningar, m.a. á frumgerðum af stórvirkjum myndlistarsögunnar.
Í kjölfarið á byggingu safnsins, hófu borgaryfirvöld metnaðarfullt átak í að reisa háhýsi með byltingarkenndum og sérstökum byggingarstíl, hönnuð af þekktustu arkitektum heimsins, og þau setja einstakan svip á borgina.
Í kjarna gamla bæjarins og meðfram ánni stendur hinn fornfrægi La Ribera markaður (Erribera merkatua), sem starfræktur hefur verið allt frá miðöldum – lengi vel utandyra, en frá árinu 1929 yfirbyggður og hefur verið skráður í Heimsmetabók Guinness sem stærsti innandyra markaður heims. Hér er í boði sannkölluð veisla fyrir alla alvöru sælkera, úrval af hvers kyns kjöt- og fiskmeti, grænmeti, ávextir og sitthvað fleira. Þá hafa veitingastaðir á svæðinu boðið upp á að elda hráefnið sem fólk hefur valið af markaðinum. Heimsókn til La Ribera getur því bæði verið skemmtileg og ljúffeng upplifun.
Bilbao er síðast en alls ekki síst afar ,,græn“ borg, með mikið af yndislegum útisvæðum, eins og garðinn Doña Casilda de Iturrizar sem er tilvalinn til að slaka á og njóta náttúru og afslappandi umhverfis. Bilbao er þannig einstök blanda af gömlu og nýju, rólegheitum og líflegri borgarstemmingu.
Hópar sem telja 75 og fleiri og eru með skipulagt árshátíðarkvöld á vegum Tripical geta valið sér skemmtikraft hér af síðunni frítt og hann fylgir með í árshátíðarferðina. Einnig er hægt að velja ljósmyndara í stað skemmtikrafts sem tekur myndir og myndbönd alla ferðina og skilar af sér fyrir hópinn að ferð lokinni.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Spánn hefur um árabil verið eitt vinsælasta land Evrópu meðal ferðafólks og þangað drífur að mikill fjöldi gesta alls staðar úr heiminum allan ársins hring. Ástæðan er langt frá því að vera ,,af því bara“ – á Spáni er svo margt að sjá og upplifa, fjölbreytileiki landsins er gríðarlegur, auk þess sem þar er auðvitað nóg til af því sem allir elska og þrá, nefnilega sól og blíðu!
Konungsríkið Spánn telur um 46 milljónir íbúa. Það er um það bil 5 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og staðsett á Íberíuskaga (stundum nefndur Pýreneaskagi) syðst í Evrópu, með landamæri að Portúgal til vesturs og Frakklands og smáríkisins Andorra til norðurs. Löng austurströnd landsins snýr að Miðjarjarðahafi, og syðsti oddi Spánar er um leið syðsti oddi meginlands Evrópu.
Æðislegar strendur, eldhresst næturlíf, sprúðlandi fjölmenning og borgir með afar áhugaverðan bakgrunn og sögu, og stórbrotnar byggingar því til sönnunar – allt þetta hefurðu á Spáni. En landið býr einnig yfir miklum fjölbreytileika í landfræðilegum skilningi, enda æði stórt og mikið. Þar hefurðu fjöll og snjó í norðri, risavaxin mýrlendi og sandflæmi í suðri. Sumrin eru vissulega háannatími í ferðaiðnaði landsins, en þeir sem heldur kjósa minna fjölmenni eða vetrarferðir hafa sannarlega úr mörgu að moða.
Á Spáni eru margar fallegar og spennandi borgir. Fyrst má nefna þær þekktustu, höfuðborgina Madrid með sínum heillandi arkitektúr, fjölbreyttu söfnum og sýningum, og hina mögnuðu Barcelona með sín fjölmörgu ólíku hverfi, stórbrotnu byggingar, blómstrandi menningarlíf, iðandi næturlíf og fyrirtaks sólbaðsstrendur. En þá er langt í frá allt upptalið, því hér höfum við líka borgir eins og Sevilla, Valencia, Granada og Bilbao og fleiri, allt staðir með sína einstöku sérstöðu sem fyllilega má mæla með. Þess utan eru svo minni bæir og þorp, við ströndina eða uppi á landi, sem með sjarma sínum og fegurð draga til sín sólþyrsta gesti í leit að afslöppun og ánægju.