Færeyjar - Tripical

Færeyjar

Sjá myndir

Færeyjar

Færeyjar eru 18 talsins og liggja á norðanverðu Atlantshafi, miðja vegu milli Íslands og Skandinavíu, sem og Íslands og Skotlands. Talið er að eyjarnar hafi fyrst verið byggðar írskum munkum á 6. öld og fundist hafa menjar þessu til stuðnings. Á 9. öld settust hins vegar fyrstu landnemar frá Noregi þar að. Fyrir þeim hópi fór höfðinginn Grímur Kamban, og samkvæmt hinni fornu Færeyingasögu var hann fyrsti landnemi eyjanna. Eyjarnar hafa verið undir danskri stjórn frá því á 14. öld, en halda þó í menningarlega sérstöðu sína og tungumál, og hafa sitt eigið sjálfstjórnarþing.

Almennar upplýsingar:

  • Fjöldi fólks: 53,270
  • Stærð að flatamáli: 1.399 km²
  • Opinbert tungumál: Færeyska
  • Gjaldmiðill: Dönsk króna og færeysk króna
  • Hitastig: Sumar 10°- 15° / Vetur 0°– 3°
  • Tímabelti: Sama og á Íslandi

Landslag eyjanna einkennist af bröttum klettabeltum, djúpum fjörðum og víkum, og fagurgrænum engjum og hlíðum. Hæsta fjallið er Slættaratindur á Austurey (880 m.) Hér hefur náttúran fengið að haldast að mestu ósnortin og tær, sem er óneitanlega ein af stærri ástæðum fyrir sjarma og prýði eyjanna.

Margt er líkt með sögu Íslands og Færeyja. Landnemar þeirra komu af svipuðum slóðum, kristindómur barst til eyjanna beggja á svipuðum tíma, og í seinni heimsstyrjöldinni settust Bretar líka að í Færeyjum til að gæta öryggis á Atlantshafi.  Samband þjóðanna tveggja hefur alltaf verið gott, til dæmis voru Færeyingar einna fyrstir til að bjóða fram fjárhagsaðstoð sína þegar bankahrunið skall á okkur haustið 2008. Ekki er annað hægt en að hvetja til heimsóknar til Færeyja. Þær bjóða upp á einstaka náttúrutöfra, skemmtilega menningu, og síðast en ekki síst sterk vináttubönd til sinnar íslensku frændþjóðar.

Færeyjar

Hópferð til Þórshafnar

Mystísk náttúruperla í næsta nágrenni Um 400 km. suð-austan við Ísland liggur lítill eyjaklasi, 18 stærri og minni samliggjandi eyjar, sem á korti líta út eins og kubbar sem eftir á að púsla saman í heilstæða mynd. Færeyjar. Í gegnum...