Holland
Holland, af sumum þjóðum kallað Niðurlönd, er fallegur og skemmtilegur áningastaður í norðanverðri Evrópu. Það er helst þekkt fyrir fallegt landslag, túlípanana sína og sólblómin, en einnig á landið sér langa og mikla sögu, sem fornar byggingar bera glöggt vitni um. Í dag er Holland frjálslynt fjölmenningarlegt þjóðfélag, og heimsókn þangað er bæði áhugaverð og skemmtileg upplifun.
Almennar upplýsingar:
- Fjöldi fólks: 17,635,641
- Stærð að flatamáli: 41.850 km²
- Opinbert tungumál: Hollenska
- Gjaldmiðill: Evra
- Hitastig: Sumar 15°- 22° / Vetur 0°– 6°
- Tímabelti: 1 tíma á undan
Holland er að stórum hluta sléttlendi, og verulegur hluti þess liggur undir sjávarmáli. Vindmyllur eru eitthvað sem margir tengja við landið, enda má sjá þær all víða og flestar eru þær notaðar til að dæla vatni úr því mikla votlendi sem Holland er. Önnur vel þekkt hollensk táknmynd eru túlípanarnir, en landsmenn hafa í aldaraðir haft mikla ást á þeim fallegu blómum. Í dag eru Keukenhof garðarnir (stundum nefndir Gardens of Europe) einn helsti vitnisburður um áhuga Hollendinga á túlípönum og annarri blómarækt. Garðarnir eru staðsettir nærri bænum Lisse, í um 35 km fjarlægð frá Amsterdam, og þykja með fallegustu skrúðgörðum Evrópu.
Holland hefur vakið eftirtekt umheimsins fyrir umburðarlyndi sitt og frjálslynda stefnu í ýmsum málum. Þannig var það fyrsta landið í heiminum til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra árið 2001, og aðferðir yfirvalda í afglæpavæðingu eiturlyfja, vændis og líknardrápa hefur vakið alþjóðlega athygli. Höfuðborgin Amsterdam er oft í fararbroddi hinnar framsæknu stefnu, sem hefur gert hana að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn sem leita að einstakri og öðruvísi upplifun.
Hjólreiðar eru órjúfanlegur hluti af hollenskri menningu og þær eru vinsæll ferðamáti bæði hjá heimafólki og gestum. Borgir og bæir og innviðir allir eru mjög hjólavænir, og landið státar af víðfeðmu neti hjólastíga. Það má því alveg mæla með hjólaflakki um landið, sem veitir öðruvísi upplifun og einstaka sýn á fegurð Hollands og sjarma.