Ísrael - Tripical

Ísrael

Sjá myndir

Ísrael

Ævintýrin bíða þín í Mið-Austurlöndum!

Fyrir okkur Íslendinga hljómar Ísrael sem framandi og fjarlægur staður, bæði landfræðilega og menningarlega. Landið hefur ekki sést ofarlega á listum yfir spennandi áfangastaði, og því langar okkur hjá Tripical til að breyta. Í Ísrael er sannarlega margt að sjá og upplifa, stórkostleg fegurð fjalla og dala, kyrrð og ró Dauðahafsins, marglitað Makhtesh Ramon gljúfrið og hinar fornu borgir Nazareth og Jerúsalem, svo fátt eitt sé nefnt.

Hér geturðu hlustað á ísraelska tónlist meðan þú lest áfram. Shalom!


Almennar upplýsingar

  • Fjöldi íbúa: 8.760.920
  • Stærð að flatarmáli: 20,770–22,072 km2
  • Opinbert tungumál: Hebreska og arabíska
  • Gjaldmiðill: Nýi ísraelski sjegelinn / 1 ₪ =30kr
  • Hitastig: Yfir sumartímann um 25°- 32°
  • Tímabelti: 2-3 tímum á undan Íslandi

Landsvæði með 1,5 milljón ára gamla sögu

Ísraelsríki var stofnað árið 1948, í kjölfar helfarar heimstyrjaldarinnar seinni, en fram að því hafði landið byggst um árþúsundir, og þar má finna elstu fornleifar frummanna í Evrópu.

Ísrael tilheyrir Mið-Austurlöndum og liggur við botn Miðjarðarhafsins, með landamæri að Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og Egyptalandi. Einstaklega fallegt landsvæði sem hefur því miður orðið fyrir miklum áföllum gegnum tíðina, sökum ýmissa átaka og stríðsreksturs. Að fara til Ísrael er þó góð leið til að skoða menningu og landslag heimshlutans, á sem öruggastan hátt.

Ísrael er eina frjálslynda lýðræðisríki Mið-Austurlanda, en þrátt fyrir það er þar mikið um boð og bönn og ekki hjá því komist að finna fyrir flóknu stjórnmálmynstri landsins. Slíkt má þó flokka sem ákveðna menningarupplifun, og heimsókn þangað býður jafnframt upp á ótalleiðir til að njóta og  gleðjast. Til dæmis eru strendur og barir við Tel Aviv og Haifa algjör draumur í dós.  Áhugafólk um vínrækt geta kynnt sér fjölbreytta vínflóru Galíleu. Hvergi í heiminum – miðað við höfðatölu – eru jafn mörg söfn í heiminum, enda gríðarmikla og merkilega sögu af svæðinu að segja. Þrátt fyrir það, og hin sterku tengsl og umhverfi sem minnir á forna tíma er hvergi annars staðar í heiminum, nema í Kísildalnum (e.Silicon Valley), að finna fleiri tæknifyrirtæki (um 3000 talsins). Ísrael mun án nokkurs vafa vekja  forvitni þína og koma þér á óvart með áskorunum af ýmsu tagi. Ferð þangað skilur eftir minningar sem lifa með þér lengi.

Tel Aviv-Yafo

Líklega ein dýrasta borg heims en jafnframt ein sú flottasta, enda ósjaldan kölluð Manhattan Miðjarðarsvæðisins. Tel Aviv er eins frábrugðin sínum forna nágranna, Jerúsalem, og hægt er. Þetta er nútímaleg og lifandi heimsborg, þar sem mikið er lagt upp úr gæðum og ánægjulegri upplifun. Nafn borgarinnar merkir ,,Hlíð Vorsins“, þar er loftið tært og hreint og alls staðar um borgina blómstra fjölskrúðug blóm og annar fallegur gróður.

Á svæðinu má finna flottar strendur og fjölda veitingastaða,  sem bæði heimamenn og ferðamenn nýta sér til hins ýtrasta. Ekki láta þér bregða við að sjá reglulega hópa af fólki dansa á bryggjum, hér ríkir gleði og ánægja. Þá eru víða í borginni hin ýmsu söfn þar sem allir geta fundið eitthvað áhugavert.  Nokkrir dagar í Tel Aviv geta gert ferðina frábæra, vika í Tel Aviv og þú gætir orðið fyrir opinberun!

Jerúsalem

Jerúsalem er andlegur og heilagur griðastaður, óháð trú og lífsgildum. Hér sameinast gyðingar, múslimar og kristnir, öll þessi trúarbrögð eiga hér sinn tilbeiðslureit. Þú heyrir kirkjubjöllur, bænakall og sálmatóna gyðinga, og ilmur af reykelsi, kaffi og kertum fylla loft og götur. Ef þú nærð ekki jarðtengingu í Jerúsalem þykir okkur leitt að tilkynna þér að það mun líklegast aldrei gerast.

Dauðahafið
Ef leiðin liggur til Jerúsalem, mælum við hiklaust með því að þú fikrir þig aðeins lengra inn landið og takir þér stöðu á ströndum Dauðahafsins. Hér er lægsti punktur jarðar. Óútskýranlega fallegt svæði hlaðið mikilli sögu. Nafn hafsins kemur til vegna hins mikla saltmagns í sjónum, en þar er einnig mikið að olíum og steinefnum. Hafið er umkringt stórbrotnum dölum og gljúfrum. Þar er að finna máttug mannvirki frá fyrri öldum, eins og Masada virkið og náttúruundur eins og Qumrun hellana.  Á síðari árum hafa risið við strendur Dauðahafsins sífellt fleiri og flottari lúxus hótel, þú finnur margs konar göngu- og hjólaleiðir, glæsilega grasagarða og heilsulindir sem nýta sér steinefnaríkan jarðveg svæðisins.