Andorra - Tripical

Andorra

Sjá myndir

Andorra

Andorra er heillandi smáríki staðsett í Pýreneafjöllum, milli Frakklands og Spánar. Að flatarmáli er það um 480 ferkílómetrar og þar búa um 78 þúsund manns. Ef við setjum það í kunnuglegt samhengi þá er stærð landsins á við Reykjavík, Kópavog og Garðabæ til samans, og hægt er að ganga hringinn í kringum það  á 5 dögum.

Þótt íbúatala Andorra sé ekki há er alltaf mikið um að vera í þessu sjarmerandi fjallalandi. Þangað koma árlega um þrjár og hálf milljón ferðamanna og dvelja til lengri eða skemmri tíma, fyrir utan fjölda gesta frá nágrannaríkjunum Frakklandi og Spáni, en þaðan koma á hverju ári um 5 milljónir manns í styttri dagsferðir. Ferðaiðnaðurinn er allra stærsta tekjulind þjóðarinnar og hann einkennist í öllu af mikilli fagmennsku og gæðum. Andorra býður upp á stórkostlega aðstöðu til fjölbreyttrar skíðaiðkunar yfir vetrartímann, og á sumrin flykkist fólk þangað í hvers kyns gönguferðir og náttúruskoðun, enda umhverfið og útsýnið æði tilkomumikið og magnað.

 

Grandvalira skíðasvæðið

Frá Spáni er fyrst komið til höfuðborgarinnar, Andorra de Vella, í rétt rúmlega 1.000 metra hæð og brunað áfram inn dal sem teygir sig alla leið að landamærum Frakklands. Við tekur nokkur hækkun á 8 km leið, yfir til Encamp sem liggur í 1.250 metra hæð. Þaðan liggur Funicamp kláflyftan upp á skíðasvæðið. Ekki er hægt að renna sér alla leið til baka og er þá kláfurinn tekinn niður í bæ.

skiðaferð

Frá Encamp liggur svo leiðin til Canillo sem er rúma fimm kílómetra í burtu og þangað er umtalsverð hækkun, eða upp í 1.525 metra. Kláflyfta gengur úr þorpinu og upp á skíðasvæðið. Hægt er að renna sér niður í bæinn. 10 kílómetrum frá Canillo er smáþorpið El Tarter í 1.750 metra hæð. Þar eru bæði afkastamikil kláfferja og stólalyfta, að ógleymdum aðal Aprés Ski barnum Aberset, en þar er dansað á útipalli langt fram á kvöld, boðið upp á flöskuborð, útibari, og mat.

Þremur kílómetrum ofar í dalnum er svo heimavöllur Tripical, Soldeu, sem stendur í 1.800 metra hæð. Hér er fjöldi hótela, skemmtilegir barir, og veitingastaðir af öllum stærðum og gerðum. Auk þess er boðið upp á kláflyftu sem ferjar fólk upp á skíðasvæðið. Þetta er fallegt þorp, sem fékk umtalsverða andlitslyftingu sumarið 2019, en heil umferð heimsbikarmótsins í skíðaíþróttum fór fram í Soldeu þá um veturinn. Nýlega var svo tilkynnt að lokaumferðin, sjálf úrslit heimsbikarmótsins, fari þar fram 2023. Þetta sýnir og sannar hversu góðan stað við bjóðum hér upp á!

Eins og áður segir, er úrvalið hér af veitingastöðum mikið – þú finnur stað með hinni þekktu gæðastjörnu Michelin, auk yndislegra pizzastaða, skemmtileg kaffihús og bari, en mörg hótelana eru opin fyrir almenna gesti á veitingastaðina sína.

Efst í dalnum, sex kílómetrum ofar, í 2.120 metrum er svo Rauða hlíð eða Grau Roig. Þar er bara eitt hótel og nokkrir veitingastaðir, en margar lyftur eru í dalnum, sem þjóna tengihlutverki fram og til baka yfir í síðasta bæinn sem myndar Grandvalira svæðið. Hér eiga til að myndast 5 mínútna raðir í tvær lyftur yfir háannatímann, þegar fólk er að færa sig milli svæða.

Alveg við landamæri Frakklands er svo Pas De La Casa, eða Skrefið heim. Þetta er nokkuð stór bær í 2.100 metra hæð,  með mikið gistirými, fjölda lyfta og gott úrval af verslunum. Hér er að finna ódýrustu gistinguna og ekki óalgengt að þarna séu stórir hópar af ungu fólki sem leigja íbúðir, drekka mest heima og skemmta sér langt inn í nóttina. Þarna er því næturlífið oft líflegt og mikið fjör fram undir morgun. Pas De La Casa liggur alveg á landamærunum og mikill ys og þys sem fylgir umferðinni í útjaðri bæjarins.

Andorra

Hópferð á skíði til Andorra

Smáríkið Andorra er staðsett í austurhluta Pýreneafjalla, á milli Frakklands og Spánar. Landið hefur upp á margt að bjóða fyrir gesti sína, þar eru frábærar gönguleiðir um fjöll og skóga, dásamlegar skíðabrekkur ásamt fullkomnum aðstæðum fyrir hvers kyns skíðasport, flottar...
Andorra

Fræðsluferð til Andorra

Smáríkið Andorra er staðsett í austurhluta Pýreneafjalla, á milli Frakklands og Spánar. Landið hefur upp á margt að bjóða fyrir gesti sína, þar eru frábærar gönguleiðir um fjöll og skóga, dásamlegar skíðabrekkur ásamt fullkomnum aðstæðum fyrir hvers kyns skíðasport, flottar...