Ítalía - Tripical

Ítalía

Sjá myndir

Ítalía

Töff og gordjöss

Það er svipað með menn og staði, þar er misskipt í gæðum og glæsileik. Þegar kemur að Ítalíu, er eins og máttarvöld hafi verið í óvenju góðu skapi, og splæst í helling af hvoru tveggja. Ítalía er drottningin á ballinu, og það vilja allir á það ball til að dást að gestgjafanum.

Þetta er stórt land að flatarmáli, næstum þrisvar sinnum stærra en Ísland, og þar búa um 61 milljónir manna. Ítalía er í laginu eins og stígvél, suðurhlutinn dýfir sér ofan í Miðjarðarhafið, umvafinn sólríkum dögum og þeirri miklu  gróðursæld sem Miðjarðarloftslagið býður upp á. Þaðan rís þessi stærsti skór í heimi og endar við hina tignalegu fjallgarða Alpana, með einhver þau flottustu skíðasvæði sem hægt er að hugsa sér.

Um landið þvert og endilangt standa svo stórborgir, hver og ein með sín sérkenni, skraut og töfra. Og Ítalarnir sjálfir svo dásamlega afslappaðir og töff og eldandi þennan ómótstæðilega gómsæta mat… hér er bara einhvern veginn allt svo fullkomið! 

Ítalía er nefnd með Grikklandi sem vagga vestrænnar menningar og því til staðfestingar má nefna að flesta staði í Heimsminjaskrá UNESCO er að finna í landinu. Hér eru aldargamlar byggingar og menningarverðmæti hvert sem litið er. Allt blandast þetta svo á skemmtilegan hátt við nútímann, því eins og flestir vita hafa Ítalir tekið sér forystuhlutverk í flestu því sem skilgreinir tísku og töffheit, og er þá sama hvort talað sé um fatnað, tæki eða matseld.

Borgir 

Hér erum við með hvorki meira né minna en Róm, Mílanó, Napólí og Flórens, og þessar stórbrotnu borgir eru bara brot af því besta, því þarna er svo mikið af fjölbreyttum stöðum, stórum og smáum, út um allt. 

Ekki er hjá því komist að nefna ,,ríkið“ í ríkinu, sjálft Vatíkanið, sem formlega var stofnað árið 1929, er staðsett í Róm, en starfar eftir eigin lögum og reglum páfagarðs.  

Amalfi strönd

Amalfi-ströndin (Costiera Amalfitana) liggur við Miðjarðarhafið, í Campania héraðinu, suðaustur af Napólí á Ítalíu. Meðfram henni standa einstakir og vel varðveittir miðaldabæir og ströndin er einmitt nefnd eftir einum þeirra, sjávarþorpinu Amalfi. Vegna sögulegra minja svæðisins, á það sitt pláss á heimsminjaskrá UNESCO.  Við ströndina ríkir milt Miðjarðarhafsloftslag, sumrin eru hlý og vetur mildir.

Hér upplifirðu töfrandi fegurð og stórbrotið útsýni yfir tært og blátt Miðjarðarhafið. Í raun er umhverfið hér allt svo hrífandi að það minnir helst á skáldskap, enda hafa margir rithöfundar og ekki síður kvikmyndaframleiðendur nýtt sér stemmingu og heillandi staðhætti Amalfi-strandarinnar í verkum sínum. 

Amalfi-ströndin er þekkt fyrir framleiðslu sína á sítrónulíkjör (sfusato amalfitano), en hráefnið ræktað í stórum og smáum raðhúsagörðum meðfram allri strandlengjunni á milli febrúar og október. Þá er á svæðinu lögð stund á forna tækni í pappírsframleiðslu og útkoman er þykkur pappír, svokallaður bambagina, sem notaður er bæði fyrir ritaða lagasamninga og frímerki. Aðrar þekktar staðbundnar vörur eru sérstök tegund af ansjósum frá bænum Cetara, og litríkt handgert keramik frá Vietri.

Bæirnir við ströndina eru eftirfarandi, og hver öðrum glæsilegri:  Amalfi, Atrandi, Cetara, Conca dei Marini, Furore, Maiori, Minori, Positano, Praiano, Ravello, og Vietri sul Mare. Í fjöllum fyrir ofan ströndina er að finna bæina Scala og Tramonti. Svo er bara að ,,ugla sat á kvisti“. Eða bara heimsækja þá alla.

Sikiley

Sikiley er stærsta eyja Miðjarðarhafsins og liggur við tærnar á Ítalíufætinum. Saga hennar einkennist af mörgum valdhöfum í gegnum tíðina, þar áttu sitt skeið bæði Grikkir og Rómverjar, en einnig Arabar og Normandíbúar. Allir skildu þessir eftir sig áhrif sem finna má víða í fjölbreyttu og skemmtilegu menningarlífi eyjunnar.

Þrátt fyrir stærð hennar, eru borgir og bæir þar litlir, og hver þeirra með sinn sérstaka svip, sína eigin menningu. Á eyjunni er líka að finna eitt af hæstu eldfjöllum Evrópu, Mount Etna, sem reglulega minnir á sig með gosum, nú síðast í mars 2017.

Sikileyjaskeggjar þykja afar stoltir og halda fast í sínar hefðir og sérkenni. Þótt ítalska sé nú þjóðartungumálið, eiga þeir  þeir sitt eigið tungumál, sikileysku, sem haldið er í heiðri og margir sem nota það frekar. Sikileyskan er nokkuð frábrugðin ítölsku, og skyld bæði rómönskum og arabískum málum.

Íbúar eyjunnar þykja nokkuð íhaldssamir og vanafastir, en um leið afar gestrisnir og þar er tekið hlýlega og vel á móti gestum sem leið eiga um.

Sardinía

Sardinía er vinsæll staður fyrir siglingar og sörf, gönguferðir og fjallabrölt, auk þess sem strendur hennar þykja afar fallegar og sólbaðsvænar. Eyjan er mikil náttúruparadís, og hafa fjölmargir þekktir listamenn leitað þangað að innblæstri. Hún á þó einnig sínar fjörugu djammhliðar, og er svæðið í kringum Costa Smeralda gott dæmi um það.

Sardiníubúar þykja nokkuð ólíkir öðrum Miðjarðarhafsþjóðum, þeir eru frekar feimnir og fámálir og halda sig nokkuð til hlés, ekki síst þegar innar á eyjuna er komið. Um leið eru þeir gríðarlega stoltir af sinni heimaey og tengdir náttúru hennar og menningararfleifð mjög sterkum böndum.

Á eyjunni lifði u.þ.b. árþúsundi fyrir Krist hinn svokallaði Nuragic þjóðflokkur, en venjur þeirra og siðir eru hulin nokkuð mystískum blæ. Hinar sérstöku byggingar þeirra og turnar eru dreifðar um eyjuna, auk þess sem einstaka þorp er þar enn að finna.

Sardinía var áður mjög rík af járngrýti ýmis konar, þar var unnið úr námum bæði blý og sink, en mest er hún þó þekkt af silfrinu sem þar fannst í miklum mæli, og var barist um umráð yfir eyjunni lengi fram eftir öldum af þeim sökum. Í dag felast verðmæti Sardiníu þó í hreinum ströndum, tærum sjó, og dásamlegri náttúrufegurð.

Við hjá Tripical dýrkum Ítalíu, og þá meinum við ALLA Ítalíu, og erum tilbúin að skipuleggja hina fullkomnu ferð hvert þangað sem hugurinn leitar. Það verður enginn svikinn af þeirri heimsókn. 

Ítalía

Hópferð til Mílanó á Ítalíu

Rétt eins og Róm er glæstur minnisvarði hinnar gömlu Ítalíu, þá er Mílanó boðberi nýju Ítalíu. Vissulega er hún ein af elstu borgum Evrópu, og hellingur af stórfenglegum fornum byggingum þar að finna, en þessi flotta fjármála- og tískuborg er...