Króatía - Tripical

Króatía

Sjá myndir

Króatía

Króatía býr yfir voldugri sögu, gríðarlegri náttúrufegurð og býður upp á fjölbreytta staði fyrir forvitna heimshornaflakkara. Í landinu miðju höfum við Plitvice þjóðgarðinn, sem helst minnir á landslag Pandoru úr kvikmyndinni Avatar. Á strandlengju Dalmatiu héraðs finnurðu bæði stórbrotin klettabjörg og seiðandi gylltar sólarstrendur, ásamt hinum ævarforna og tignarlega borgargimstein Dubrovnik.

Á hinum endanum, með landamæri að Slóveníu og í nálægð við Ítalíu, er svo hinn heillandi Istria skagi, svæði sem tilheyrði reyndar Ítalíu um nokkurra áratuga skeið, frá lokum fyrri heimsstyrjaldar til loka þeirrar seinni (1918-1945) og þau tengsl nokkuð greinileg bæði í byggingarstíl og stemmingu. Þá er Adríahafið meðfram Króatíu talið tærasta haf Evrópu, enda mjög vinsælt til köfunar. Þar er að finna yfir þúsund misstórar eyjar sem draga að sér fjölda ferðamanna á hverju ári.

Hér er fátt eitt nefnt úr þeirri miklu flóru spennandi áfangastaða sem þetta fagra land býður uppá. Við hjá Tripical einfaldlega elskum Króatíu og erum viss um að þú munt gera það líka.

Almennar upplýsingar

  • Fjöldi íbúa: 4.154.200
  • Stærð að flatarmáli: 56.534 km²
  • Opinbert tungumál: Króatíska
  • Gjaldmiðill: Evra
  • Hitastig: 9°-25°
  • Tímabelti: 1-2 tímum á undan Íslandi

Hvar og Split

Eyjan Hvar er einn vinsælasti áfangastaður landsins og ekki að undra, hún er ofboðslega skemmtileg og státar af því að vera sólríkasti staður Króatíu. Á Hvar finnurðu alls konar mannlíf og gesti á öllum aldri, fjölskyldur stórar og smáar, ungt fólk í leit að skemmtilegu næturlífi og stundum líka súperstjörnur úr Hollywood. Eyjan er þekkt fyrir mikla veðursæld, gómsæta matargerð og einstaka náttúrufegurð. Sjávargolan sem blæs yfir bæinn þykir mjög endurnærandi og orkumikil, svo mikið að fyrr á árum voru starfræktar á eyjunni heilsulindir fyrir einstaklinga með öndunarerfiðleika, þar sem hægt var að fara í sérstaka „öndunarhreinsun“.

Nálægt eyjunni er svo að finna næststærstu borg Króatíu, Split. Þetta er afar  ferðamannavæn borg, ofboðslega fallegur staður sem býður upp á mjög líflegt og spennandi næturlíf. Þar er margt hægt að gera sér til afþreyingar, og við mælum hiklaust með skoðunarferð um rómversku rústirnar sem borgin er byggð í kringum.

Dubrovnik

Í tveggja klukkustunda fjarlægð suður af Split er Dubrovnik, lítill 40.000 manna bær á syðsta punkti Króatíu. Gamli bærinn í Dubrovnik á sér langa sögu, en hann er umkringdur borgarveggjum sem áttu að verja hann á stríðstímum fyrr á árum en Dubrovnik var sjálfstætt ríki áður en bærinn varð partur af Króatíu. Bærinn á það sameiginlegt með Íslandi að Game of Thrones hafa tekið upp þáttaseríur sínar þar, en fyrir þá sem til þekkja eru allar senur sem gerast í suðrinu teknar þar.

Istria

Á hinum enda strandlengjunnar, nálægt Ítalíu og með landamæri að Slóveníu, liggur Istria skaginn, sem frá árunum 1918-1945 var hluti af Ítalíu, varð síðan partur af kommúnistaríkinu Júgóslavíu en tilheyrir í dag Króatíu. Þar má finna aragrúa lítilla smábæja, bæði við sjávarsíðuna og upp með fjallshlíðum. Þetta eru gömul, rótgróin og einstaklega sjarmerandi þorp, byggingastíllinn er öðruvísi en fyrir sunnan, húsin litrík, og svipa mjög til smábæja á Ítalíu. Hér úir og grúir af sjávarréttastöðum sem bjóða upp á ferskt sjávarfang. Fjölda markaða er að finna á svæðinu og ólívur, trufflur, olíur og ýmis konar ávextir eru fáanlegir út um allt. Neðst á skaganum er bærinn Pula en þar má finna risastórt rómverskt hringleikahús. Við mælum einnig með heimsókn í hinn heillandi bæ Rovinj og skoðunarferð í Basilikkuna í bænum Poreč.

Opatija

Opatija er einstaklega fallegur bær á Istria skaganum, umkringdur fallegum lárviðarskógi við strendur Adríahafsins og um 18 km frá Rijeka, sem er ein af stærri borgum Króatíu. Staðurinn er þekktur fyrir milt Miðjarðarhafsloftslag og sínar sögulegu byggingar og vinsæll bæði sem sumar- og vetrardvalarstaður, með meðalhita upp á 10 °C á veturna og 32 °C á sumrin.

Opatija á rætur sínar að rekja til klausturs heilags Jakobs sem þar stóð og bærinn óx út frá, en nafnið Opatija þýðir einmitt ,,klaustur“. Dagur Heilags Jakobs, sem er verndardýrlingur ferðalanga (og einnig verndari sútunar og ávaxtaræktenda), er haldinn hátíðlegur á hverju ári 25. júlí, og er um leið almennur hátíðisdagur bæjarins.

Á fyrri tímum var Opatija hluti af feneyska lýðveldinu og í framhaldinu lengi vel eign auðugra austurrísk-ungverskra fjölskyldna sem byggðu þennan fallega griðarstað sinn með miklum glæsileik, mikilfengleg stórhýsi frá tímum þessa ,,háklassasamfélags“ standa meðfram ströndinni og setja sterkan svip á bæinn. Hér eru fagrir garðar, tignarleg lúxushótel og umhverfi sem sómir sér vel á póstkortum, og gera Opatija að töfrandi áfangastað.

Šibenik

Šibenik er ein af elstu borgum Króatíu, sögulegur staður frá 11. öld, í miðju Dalmatíu-héraði, við ána Krka sem rennur í Adríahaf. Þar búa í dag um 35.000 manns. Þar er mikið um einstakar byggingar fyrri alda. Þekktust þeirra má telja Saint James dómkirkjuna, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, en einnig má nefna miðaldaklaustur St. Laurence og afar sjaldgæfan klausturgarð þar við frá 15. öld, og virki heilags Mikaels sem veitir einstakt útsýni yfir borgina og hafið fyrir utan.

Í hinu heiftúðuga sjálfstæðisstríði Króata (1991–95) varð Šibenik fyrir harðri árás frá jógóslavneska þjóðarhernum og serbneskum hersveitum. Þrátt fyrir að vera undirvopnaðir, tókst króatíska hernum og íbúum Šibenik að verja borgina. Bardaginn stóð í sex daga (16.–22. september 1995), oft nefndur „septemberbardaginn“. Sprengjuárásirnar skemmdu fjölmargar byggingar og minnisvarða, þar á meðal hvelfingu Šibenik dómkirkju heilags Jakobs og leikhúsbyggingu sem var byggð árið 1870. Síðan þá hafa skemmdar byggingar borgarinnar verið endurreistar að fullu.

Í dag er Šibenik friðsæl og hrífandi borg full af sögu og sjarma, ekki síst gamli hluti bæjarins, með ævafornu kirkjum, höllum fyrrum aðalsmanna og dæmigerðu aldagömlum dalmatískum steinhúsum.

Til gamans má geta að hér var fallhlífin fundin upp á 17. öld og prófuð í fyrsta skipti af uppfinningamanni hennar Faust Vrancic. Hér er líka fæddur og uppalinn hinn frægi körfuboltamaður Dražen Petrović.

Pag

Um miðja strandlengju Króatíu er eyjan Pag. Við enda hennar er að finna bæinn Novalja, sem er á sumrin  yfirfullur af ungu og skemmtanaþyrstu fólki. Bærinn einkennist af smágerðum hvítum húsum með rauðum þökum. Meðfram höfninni er  mikið úrval af veitingastöðum og börum en helsta aðdráttaraflið verður þó að teljast Zrcé ströndin rétt hjá bænum. Þar er heldur rólegt um að litast á daginn, en um leið og rökkva fer færist heldur betur líf í staðinn.  Zrcé ströndin er pakkfull af skemmtistöðum, börum og skyndibitastöðum, skemmtistaðirnir eru margir þaklausir svo maður fær strandarstemninguna beint í æð og fjöldi þekktra plötusnúða koma og spila þar á ári hverju.

Króatía

Útskriftarferð til Hvar í Króatíu

Hvar er hreint út sagt töfrandi bær, staðsettur á samnefndri eyju við strendur Króatíu, og hefur allt sem draumastaður fyrir útskriftarferð þarf að hafa, og gott betur. Þar er hellingur af frábærri afþreyingu og fjölbreyttri skemmtun fyrir alla. Strendurnar eru...
Króatía

Hópferð til eyjunnar Lošinj í Króatíu

Eyjan Lošinj er staðsett utarlega í Kvarnerflóa, ein fjöldamargra eyja við strendur Króatíu. Þar standa nokkur þorp og bæir, en stærstur þeirra og aðal dvalarstaður ferðafólks er hinn dásamlegi Mali Lošinj, sem skartar að margra mati fallegustu höfn í Adríahafinu. Ferðabransinn...
Króatía

Dásamlega Split í beinu flug fyrir hópa 24.-27. apríl 2025✈️

Hafðu samband með að senda póst á hallo@tripical.is eða í fyrirspurnarforminu hér til hliðar. Borgin Split er næststærsta borg Króatíu. Hún stendur við austurströnd Adríahafs, á skaga milli Kastelaflóa og Split-sunds, umvafin tilkomumiklum fjöllum og hæðum. Hún er vinsæll ferðamannastaður,...
Króatía

Hópferð til Opatija í Króatíu

Leiguflug til Opatija fyrir 100 manns eða fleiri Opatija er einstaklega fallegur strandbær við Adríahafið, staðsettur á Istria skaga Króatíu og um 18 km frá Rijeka, sem er ein af stærri borgum Króatíu. Bærinn er  umkringdur fallegum lárviðarskógi og þekktur...
Króatía

Hópferð til Split

Borgin Split er næststærsta borg Króatíu. Hún stendur við austurströnd Adríahafs, á skaga milli Kastelaflóa og Split-sunds, umvafin tilkomumiklum fjöllum og hæðum. Hún er vinsæll ferðamannastaður, enda einstaklega falleg og sjarmerandi blanda af merkilegri sögu og menningu, fallegum byggingum og...
Króatía

Hópferð til Dubrovnik

Leiguflug til Dubrovnik fyrir 100 manns eða fleiri✈️ Dulúð og dramatík Dubrovnik, sem  er staðsett á suðurhorni Króatíu, er þekkt fyrir sinn ævaforna miðbæ. Hann er fullur af börum, veitingastöðum og litlum verslunum, og ef þú vilt fara í Game of...