Það vita ekki allir að hið fræga Harlem hverfi New York borgar var upphaflega nefnt af hollenskum landnemum árið 1658, og skírt í höfuðið á ótrúlega fallegum og sjarmerandi bæ í hjarta Hollands. Önnur líkindi með stöðunum eru nánast engin, en fyrir forvitna er hér komin skýringin á sömu nöfnum. Haarlem er dásamlegur miðaldarbær sem stendur við ánna Spaarne, í um 20 km. fjarlægð frá Amsterdam, og hefur síðustu ár skipað sér æ stærri sess sem ein af skærustu stjörnunum í hollensku ferðaiðnaðarflórunni. Þar búa rúmlega 160.000 manns.
Nafnið Haarlem er fyrst skráð í heimildum frá 10. öld, og var staðurinn á þeim tíma mikilvæg stoppistöð þeirra sem leið áttu úr norðri til syðri hluta Evrópu. Vegna hetjudáða ýmissa krossfarariddara frá Haarlem, m.a. í hinu fræga umsátri um Damiate árið 1217, fengu yfirvöld leyfi til að bæta krossi og sverði við skjaldarmerki bæjarins, sem þótti mikill heiður. Bærinn fékk fyrst borgarréttindi árið 1245.
Upphaflega voru öll hús og mannvirki þar gerð úr viði, og árið 1328 brann næstum allt til kaldra kola. Reyndar var þetta aðeins fyrsti bruninn af allnokkrum í sögu staðarins, en aldrei gáfust íbúar þó upp, og ávallt reis byggð að nýju. Fleira má markvert nefna úr átakanlegri sögu, til dæmis gerðu Spánverjar umsátur um bæinn árið 1572, og eftir margra mánaða varnarbaráttu og mikið mannfall náðu þeir yfirráðum og Haarlem laut spænskri stjórn til ársins 1577.
Haarlem hefur frá upphafi verið hvað þekktust fyrir blómarækt, en einnig störfuðu þar snemma vefnaðar- og textílverksmiðjur, sem og skipasmíðastöðvar. Bærinn gekk í gegnum mikinn meðbyr á 17. öld, sem stundum er kölluð hollenska gullöldin, og einkenndist af efnahagslegri velmegun og uppsveiflu. Á þessum tíma var hann nokkurs konar mekka hollenskrar myndlistar, og þar bjuggu málarar á borð við Frans Hals, Jacob van Ruisdael og Adriaen van Ostade. Verkum og sögu þessara og fleiri meistara eru gerð góð skil á söfnum bæjarins.
Þrátt fyrir bruna og aðrar ófarir hefur einstakur arkitektúr miðalda varðveist í þessum hollenska glæsibæ, og gönguferð um miðbæinn, með hans steinilögðu völundarstígum, heillandi síkjum, og fornu byggingum sem hver ber sinn sérstaka karakter, er eins og að ganga inn í annan heim á öðrum tíma. Þar tekur markaðstorgið Grote Markt á móti þér, umkringt líflegum kaffihúsum og veitingastöðum, tilvalinn staður fyrir ánægjulega mannlífsskoðun. Þegar kemur að áhugaverðum byggingum má nefna Saint Bavo kirkjuna (byggð 1320-1520), ráðhúsið frá 17. öld, Hoofdwacht bygginguna frá 13. öld, og hið forna borgarhlið Amsterdamse Poort.
Fjölmörg áhugaverð söfn er að finna í Haarlem, og má þá fyrst nefna elsta safn Hollands, Teyler’s Museum, sem opnaði fyrst árið 1784 og sýnir málverk, steingervinga og ýmsa aðra sérstæða hluti frá 18. öld. Í Historisch Museum má kynnast sögu bæjarins, sem er – eins og fram hefur komið – æði merkileg. Corrie ten Boom House er forvitnilegt safn, staðsett á heimili Ten Boom fjölskyldunnar, sem var mjög virk í andspyrnu gegn nasistum í seinni heilstyrjöldinni og faldi eftirlýsta gyðinga í húsi sínu. Þá má í safni tileinkuðu listmálaranum Frans Hals, skoða verk eftir hann og fá innsýn inn í málaralist fyrri tíma og gullöldina hollensku.
Í Haarlem er einnig gott að koma með það eitt að markmiði að njóta í mat og drykk. Mikið úrval er af fjölbreyttum veitingastöðum, og úr nægu að velja þegar kemur að skemmtistöðum og krám. Hiklaust má mæla með heimsókn í Jopenkerk, sem er fyrrum kirkja sem búið er að breyta í bjórbruggun og skemmtilegan pöbb. Bærinn er líka ákjósanlegur ef vilji er til að versla, Haarlem hefur hvorki meira né minna en verið valin besta verslunarborg landsins oftar en einu sinni.
Haarlem er frábær staður fyrir fræðsluferðir, þar hefurðu heillandi sögu og menningu, góðan mat og drykk ásamt einstöku og eftirminnilegu umhverfi.
Van der Valk býður upp á herbergi með sérstaklega löngum rúmum, gervihnattasjónvarpi og svölum aðeins 2 km frá miðbæ Haarlem. Hótelið býður upp á ókeypis WiFi hvarvetna.
Veitingastaðurinn Martinus býður upp á sanngjarna, nútímalega en umfram allt smekklega rétti fyrir hvern gest. Í viðskiptakvöldverði eða þegar farið er út með fjölskyldunni mun matseðillinn geta boðið upp á rétt fyrir öll tilefni. Á virkum dögum býður veitingastaðurinn upp á hádegisverðarhlaðborð sem og a la carte, á sunnudögum er boðið upp á brunch (eftir pöntun).
Helstu ferðamannastaðir í Haarlem eru meðal annars Grote Markt og Frans Hals safnið en þau eru í innan við 10 mínútna akstursfjarlægð frá Van der Valk Haarlem. Schiphol-flugvöllur er í 15 mínútna akstursfjarlægð frá hótelinu. Hótelið er með sólarhringsmóttöku.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Holland, af sumum þjóðum kallað Niðurlönd, er fallegur og skemmtilegur áningastaður í norðanverðri Evrópu. Það er helst þekkt fyrir fallegt landslag, túlípanana sína og sólblómin, en einnig á landið sér langa og mikla sögu, sem fornar byggingar bera glöggt vitni um. Í dag er Holland frjálslynt fjölmenningarlegt þjóðfélag, og heimsókn þangað er bæði áhugaverð og skemmtileg upplifun.
Almennar upplýsingar:
Holland er að stórum hluta sléttlendi, og verulegur hluti þess liggur undir sjávarmáli. Vindmyllur eru eitthvað sem margir tengja við landið, enda má sjá þær all víða og flestar eru þær notaðar til að dæla vatni úr því mikla votlendi sem Holland er. Önnur vel þekkt hollensk táknmynd eru túlípanarnir, en landsmenn hafa í aldaraðir haft mikla ást á þeim fallegu blómum. Í dag eru Keukenhof garðarnir (stundum nefndir Gardens of Europe) einn helsti vitnisburður um áhuga Hollendinga á túlípönum og annarri blómarækt. Garðarnir eru staðsettir nærri bænum Lisse, í um 35 km fjarlægð frá Amsterdam, og þykja með fallegustu skrúðgörðum Evrópu.
Holland hefur vakið eftirtekt umheimsins fyrir umburðarlyndi sitt og frjálslynda stefnu í ýmsum málum. Þannig var það fyrsta landið í heiminum til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra árið 2001, og aðferðir yfirvalda í afglæpavæðingu eiturlyfja, vændis og líknardrápa hefur vakið alþjóðlega athygli. Höfuðborgin Amsterdam er oft í fararbroddi hinnar framsæknu stefnu, sem hefur gert hana að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn sem leita að einstakri og öðruvísi upplifun.
Hjólreiðar eru órjúfanlegur hluti af hollenskri menningu og þær eru vinsæll ferðamáti bæði hjá heimafólki og gestum. Borgir og bæir og innviðir allir eru mjög hjólavænir, og landið státar af víðfeðmu neti hjólastíga. Það má því alveg mæla með hjólaflakki um landið, sem veitir öðruvísi upplifun og einstaka sýn á fegurð Hollands og sjarma.
Dagskrár hverrar fræðsluferðar er háð ferðadagsetningum hverju sinni. Dagskrá sem er innifalin í starfsferðum Tripical eru vinnustaðarheimsóknir/fræðsla sem er sniðin að þörfum hvers hóps.
Starfsferðir eru hálfgert dómínó og ekki alltaf ljóst hvað er hænan og hvað er eggið. Að því sögðu þá þekkjum við viðmið til að fá styrk og hvaða gögn þið þurfið. Það getur tekið okkur tíma að fá fullnægjandi gögn en við höfum fengið A+ í kladdann hjá sjóðunum og komið öllum út sem hafa tekið tilboði frá okkur. Við leggjum alltaf mikið upp úr fræðsluhlutanum og reynum að gera ferðina ykkar gefandi, áhugaverða sem og skemmtilega.
Áður en fræðslufúsir ferðalangar leggja í hann, fær forsvarsmanneskja hópsins nákvæma dagskrá og öll nauðsynlegum gögn sem tengjast ferðinni. Svo bara læra, lifa og njóta!