Amsterdam er höfuðborg Hollands og stærsta menningarmiðstöð landsins. Í borginni má finna mikið af heillandi hverfum með gömlum byggingum sem tekist hefur einstaklega vel að varðveita, og litagleðin ræður ríkjum. Síkin eru áberandi hluti af staðnum og yfir þau liggja ófáar instagramvænar brýr. Tilvalið að stilla sér upp og taka eins og eina ÉG ER Í AMSTERDAM sjálfu.
Fyrr á öldum var Amsterdam lítið fiskiþorp, sem óx og stækkaði í þá mikilvægu viðskiptaborg sem hún er í dag. Nafn borgarinnar var upphaflega Amstelredamme, en því var síðar breytt í Amsterdam. Nafnið kemur frá ánni Amstel. Þarna búa ekki nema rúmlega milljón manns, og eru íbúar borgarinnar þekktir fyrir sín vinalegheit og að vera tilbúnir að veita hjálparhönd við hvað sem er! Borgin er í raun ekki ýkja stór, öll helstu kennileiti eru í göngufæri, en við mælum eindregið með því að leigja hjól og ferðast þannig um þetta dásamlega umhverfi.
Að sigla á síkjum Amsterdam er sannkallaður draumur. Þar flýtur þú framhjá fallegum gróðri, blómstrandi trjám og sögulegum byggingum, sem virðast einhvern veginn allar vera álíka skakkar og gestir hinna svokölluðu kaffihúsa borgarinnar (sem flest hver bjóða upp á ögn meira krassandi stöff en uppáhelling).
Skemmtileg staðreynd um Amsterdam er að borgin samanstendur í raun af fjölmörgum litlum eyjum, sem tengdar eru saman með um það bil fjögur hundruð brúm. Meðfram ánni eru óteljandi margar þröngar og sjarmerandi götur, þar sem alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu og þú veist aldrei hverju þú átt von á. Fallegar hönnunarbúðir með skemmtilegum hollenskum vörum, blómastandar með gullfallegum túlípönum (en ekki hvað!) í öllum regnbogans litum, eða sölumenn með gula handgerða klossa. Kannski ekki þægilegir, en ofboðslega hollenskir.
Þú labbar ekki langt áður en þú rekst á næsta listaverk, hvort sem það er glæný götulist eða málverk eftir Van Gogh. Borgin er stútfull af alls kyns söfnum og listagallerýum, þau frægustu eru líklega Van Gogh safnið og Hús Önnu Frank.
Ef þú vilt svo fara á safn þar sem stemmningin er örlítið léttari, þá mælum við með Heineken safninu, eða jafnvel að þú skellir þér á KattenKabinet sem er, ótrúlegt en satt, listasafn sem sérhæfir sig í kattalist (þ.e. myndir af köttum en ekki myndir eftir ketti).
Geitaostur, hollenskur lakkrís og baunasúpa. Þetta (og margt fleira) þarftu að smakka í Amsterdam! Ostaframleiðsla er stór bransi í Hollandi, og eiginlega nauðsynlegt að heimsækja minnst eina af hinum fjölmörgu ostabúðum sem finna má í borginni. Þú getur einnig heimsótt sjálft ostasafnið, Amsterdam Cheese Museum, þar sem þú lærir allt sem þú þarft að vita um osta og getur jafnframt skellt þér í ostasmökkun.
Hópar sem telja 75 og fleiri og eru með skipulagt árshátíðarkvöld á vegum Tripical geta valið sér skemmtikraft hér af síðunni frítt og hann fylgir með í árshátíðarferðina. Einnig er hægt að velja ljósmyndara í stað skemmtikrafts sem tekur myndir og myndbönd alla ferðina og skilar af sér fyrir hópinn að ferð lokinni.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Holland, af sumum þjóðum kallað Niðurlönd, er fallegur og skemmtilegur áningastaður í norðanverðri Evrópu. Það er helst þekkt fyrir fallegt landslag, túlípanana sína og sólblómin, en einnig á landið sér langa og mikla sögu, sem fornar byggingar bera glöggt vitni um. Í dag er Holland frjálslynt fjölmenningarlegt þjóðfélag, og heimsókn þangað er bæði áhugaverð og skemmtileg upplifun.
Almennar upplýsingar:
Holland er að stórum hluta sléttlendi, og verulegur hluti þess liggur undir sjávarmáli. Vindmyllur eru eitthvað sem margir tengja við landið, enda má sjá þær all víða og flestar eru þær notaðar til að dæla vatni úr því mikla votlendi sem Holland er. Önnur vel þekkt hollensk táknmynd eru túlípanarnir, en landsmenn hafa í aldaraðir haft mikla ást á þeim fallegu blómum. Í dag eru Keukenhof garðarnir (stundum nefndir Gardens of Europe) einn helsti vitnisburður um áhuga Hollendinga á túlípönum og annarri blómarækt. Garðarnir eru staðsettir nærri bænum Lisse, í um 35 km fjarlægð frá Amsterdam, og þykja með fallegustu skrúðgörðum Evrópu.
Holland hefur vakið eftirtekt umheimsins fyrir umburðarlyndi sitt og frjálslynda stefnu í ýmsum málum. Þannig var það fyrsta landið í heiminum til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra árið 2001, og aðferðir yfirvalda í afglæpavæðingu eiturlyfja, vændis og líknardrápa hefur vakið alþjóðlega athygli. Höfuðborgin Amsterdam er oft í fararbroddi hinnar framsæknu stefnu, sem hefur gert hana að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn sem leita að einstakri og öðruvísi upplifun.
Hjólreiðar eru órjúfanlegur hluti af hollenskri menningu og þær eru vinsæll ferðamáti bæði hjá heimafólki og gestum. Borgir og bæir og innviðir allir eru mjög hjólavænir, og landið státar af víðfeðmu neti hjólastíga. Það má því alveg mæla með hjólaflakki um landið, sem veitir öðruvísi upplifun og einstaka sýn á fegurð Hollands og sjarma.