Endalaust af skemmtilegri afþreyingu á Krít

31.10.2022

,,If it aint broke, don’t fix it.“ Þessi frasi er vel við hæfi, þegar Tripical fer ár hvert af stað með kynningu á sínum brilljant útskriftarferðum fyrir væntanlega stúdenta í framhaldsskólum landsins. Við höfum nú um árabil boðið upp á ferðir til hinnar óviðjafnanlegu Krít á Grikklandi, og því munum við halda áfram með glöðu geði.  Það er nefnilega alls ekkert að því að fagna og gleðjast á Krít, þvert á móti verðum við með hverju ári æ sannfærðari um að eyjan er einhver besti áfangastaður sem völ er á fyrir útskriftarferðina þína. Við bjóðum upp á töfrablönduna af heillandi umhverfi og endalaust af skemmtilegri afþreyingu á Krít.

Hún er stærsta og fjölmennasta eyja Grikklands, um 260 km löng og 60 km breið, með í kringum 620.000 íbúa. Krít býður ekki aðeins upp á hreinar strendur, tæran sjó og skínandi sól. Hún er full af heillandi lífskrafti og hlýju, athyglisverðri menningu, ljúfengum mat, að ógleymdri einstakri gestrisni og velvild eyjaskeggja. Krít nær frá gylltum sandsléttum við hafið, upp til stórskorinna klettabelta, þar finnurðu annasamar stórborgir og friðsæl sveitaþorp í fagurgrænum fjallshlíðum. Hér má skoða stórmerkilegar fornar minjar frá tímum Rómverja, og aldagamlar byggingar og vatnsveitur frá því Tyrkir réðu yfir eyjunni.

Tripical hefur komið sér vel fyrir í bænum Hersonissos sem staðsettur er fyrir miðja Krít, og mjög hentug og góð staðsetning fyrir afþreyingaþyrsta útskriftarnema. Hersonissos hefur á síðari árum vaxið úr litlum veiðibæ, yfir í að verða mjög vinsæll ferðamannastaður, með frábæru næturlífi, fallegar strendur, góðan mat og glæsileg hótel. Aðalgatan liggur meðfram sjónum og má þar finna allt frá veitingastöðum, yfir í verslanir og skemmtistaði.

Stjörnuströndin

Í upptalningu á frábærri skemmtun og tilbreytingu verðum við fyrst að nefna Star Beach (sem meðal annars býður upp á geggjaða upplyftingu… í formi teyjustökks!) Star Beach er allt í senn: Sólarströnd, skemmtistaður og sundlaugagarður, með fjölbreytt úrval af veitingum og drykkjum. Spennuþyrstir geta valið að henda sér úr mikilli hæð með áðurnefnda teygju reyrða um ökklana, eða látið draga sig á umtalsverðum hraða á sjóskíðum eða risavindsængum, meðan þau rólyndari tjilla á ströndinni eða við sundlaugarbakkann.  Með reglulegu millibili er blásið til eldheitra sundlaugapartýja og froðudiskó, auk tónleika þar sem bæði þekktir og óþekktir tónlistarmenn stíga á stokk. Síðustu ár hefur Tripical fengið heitustu plötusnúða og tónlistarfólk á Íslandi með í útskriftarferðirnar til að halda uppi almennilegu stuði.

Á öðrum ströndum í Hersonissos er einnig boðið upp á ýmsa afþreyingu, hægt er að leigja jet-ski og bruna meðfram strandlengjunni, fara og snorkla eða kafa, prófa paintball, fallhlífastökk og fleira.

Borg og bæir

Krít er ekki stór og þar eru ágætis almenningssamgöngur sem koma þér á milli staða. Þá er lítið mál að taka bíl á leigu, það er ekki dýrt og gatnakerfi eyjunnar einfalt og þægilegt. Þannig gefst kostur á að stjórna sinni eigin skoðunarferð, og það er svo ótalmargt að skoða. Til dæmis er gaman að heimsækja aðra bæi, eins og Malia, sem er sjarmerandi hippalegur bær með skemmtilegum miðbæ, og hressandi næturlífi. Næsti bær við Hersonissos og í göngufæri er svo Stalis, fallegt rólyndis strandþorp. Chania er með fallegri bæjum á Krít og svo er auðvitað höfuðborgin Heraklion, með rúmlega 200.000 íbúa, og gott úrval af veitingastöðum og næturklúbbum.

Santorini

Þú hefur ugglaust séð þessa dulúðugu eldfjallaeyju á myndum. Hvítar og bláar kalkbyggingarnar, sveipaðar ævintýralegum ljóma. Santorini er í einu orði sagt töfrandi, og býður upp á stórbrotið útsýni og æðislegar strendur, eins og Perissa, svörtu smásteinaströndina í Kamari, hvítu ströndina og rauðu ströndina. Það er tilvalið að taka sér ferð frá Krít og berja þennan stað sínum eigin augum, og smella nokkrum myndum af sér þar í leiðinni.

Bleika ströndin

Yst á suð-vestur horni eyjarinnar er hin bleika Elafonisi strönd. Hér er ekki verið að ýkja, bleikar strendur eru vissulega sjaldgæfar, en þær má finna á stöðum eins og Bahamaeyjum, Barbúda, Indónesíu, Kaliforníu, Maui, Spáni … og á Krít! Ekki aðeins er hin fagurbleika Elafonisi algerlega heimsóknarinnar virði, heldur er aksturinn þangað einstaklega gleðilegur, í gegnum lítil og ótrúlega sjarmerandi fjallaþorp, og þú getur bæði stoppað til að versla ólífuolíu af bændum sem hafa reist litla sölubása við vegkantinn, eða heilsað upp á geiturnar sem talsvert er af þar í hlíðunum.