Hið einstaka skíðasvæði Grandvalira í Andorra

20.10.2022

Nú fer nóvembermánuður brátt að detta í hús, og þrátt fyrir einstaka hret og stöðugt styttri daga má segja að haustið sé enn í fullu fjöri. Við hjá Tripical leyfum okkur þó að hlakka til vetrarkomu, og ekki að ástæðulausu. Nú er í fullum gangi  undirbúningur fyrir okkar vinsælu skíðaferðir til Andorra, þar sem við munum gleðja væntanlega viðskiptavini okkar með miklum kræsingum. Hið einstaka skíðasvæði Grandvalira í Andorra, er æðislegur staður fyrir skíðaáhugafólk og ákjósanlegur áfangastaður til að upplifa í fyrsta skipti af eigin raun það sem margir kalla bestu fríin: Skíðaferð!

Grandvalira

Andorra er heillandi smáríki staðsett í Pýreneafjöllum, milli Frakklands og Spánar, og býður upp á stórkostlega aðstöðu til fjölbreyttrar skíðaiðkunar yfir vetrartímann. Þar ríkir Grandvalira eins og drottning skíðasvæðanna, með sínu mikilfenglega umhverfi og magnaða útsýni. Þetta er eitt stærsta skíðasvæði í Evrópu og státar af samanlagt 303 km af brekkum, á hinum ýmsu erfiðleikastigum. Veðurfar er þar mjög hentugt, mildur hiti og mikið af sólríkum dögum. Fólk hefur skíðað á Grandvalira svæðinu um árabil, allt frá 1956, þegar fyrsta lyftan á svæðinu var lögð. Hér er því öll þjónusta byggð á mikilli þekkingu og góðri reynslu.

Þetta er nokkuð víðfemt svæði og tengir saman 7 skíðaþorp, sem standa í mismikilli hæð frá sjávarmáli, allt frá Andorra de Vella í 1000 metra hæð, til Grau Roig í 2120 metrum. Heimavöllur Tripical er hins vegar skíðastaðurinn Soldeu, sem stendur í 1800 metra hæð, fallegur og skemmtilegur bær með fjölda hótela, og fyrirtaks úrval af börum og veitingahúsum af öllum stærðum og gerðum. Hér er til dæmis Michelin veitingastaður, frábærir pizzastaðir og hugguleg kaffihús. Í Soldeu, eins og á flestum stöðum Grandvalira, er hægt að taka kláflyftu upp á hið veglega skíðasvæði sem bærinn býður upp á.

Það eru ekki langar vegalengdir á milli bæja, og fyrir þá sem vilja kynna sér mannlífið á öðrum stöðum er til dæmis hægt að skella sér á einn vinsælasta Aprés Ski barinn, sem staðsettur er í þorpinu El Tarter, og dansað á útipalli langt fram eftir nóttu. Þá er einnig hægt að fara í hina áttina, að landamærum Frakklands, til Pas De La Casa, sem er stærsti bærinn í Grandvalira og býður upp á ansi hressandi næturlíf langt fram á næsta morgun. Einnig má nefna að þar má finna gott úrval af ýmis konar verslunum.

 

Skíðanámskeið

Þau sem aldrei hafa stigið á skíði eða vilja rifja upp gamla takta, geta skráð sig á skíðanámskeið. Í Grandvalira skiptir skíða- og snjóbrettakunnáttan ekki máli, þökk sé sjö skíða- og snjóbrettaskólum sem þar eru starfræktir. Þar geta byrjendur og styttra komnir náð góðu taki á grunninum, á meðan snillingar og lengra komnir fá tækifæri til að fullkomna tækni sína og getu, með aðstoð og ráðgjöf skíðasérfræðinga. Hægt er að panta einka- og fjölskyldutíma, þar sem þú skipuleggur kennslustundirnar eins og þér og þínum hóp hentar, auk þess sem kennslan verður enn ítarlegri og um leið árangursríkari.

Svo er það allt hitt

Auðvitað snýst góð skíðaferð ekki aðeins um að renna niður brekkur, og þótt sumir skíðaþyrstir vilji helst sviga og bruna allan sólarhringinn, láta aðrir sér nægja bróðurpart úr degi í bland við sitthvað annað. Auk þess að bjóða upp á geggjaða skíðaupplifun í stórbrotnu umhverfi, býr Grandvalira svæðið yfir mjög fjölbreyttu úrval af menningu, matargerð og alls kyns tómstundum og afþreyingu.  Hér finna allir sitthvað við hæfi, meira að segja þau sem engan áhuga hafa á að stíga á skíði eða bretti. Í staðinn má til dæmis fara í snjósleðaferðir, zip-lining, gönguferðir á snjóþrúgum, eða slöngusleðaferðir þar sem maður þeytist niður brekkurnar á uppblásnum, hringlaga slöngum, sem er mjög vinsæl fjölskylduskemmtun. Ef einhverjir vöðvar fara að kvarta eftir veruna í brekkunni, eða einhvern langar bara í góða slökun og dekur, er hægt að velja úr allnokkrum stöðum til að sjá um slíkt. Gimsteinninn í þeirri krúnu verður þó að teljast heilsuræktin Caldea í Andorra La Vella, sem er stærsta náttúru-heilsulind Evrópu. Þar eru heitir pottar ásamt inni- og útisundlaugum og vel þess virði að taka sundsprett undir stjörnubjörtum himni.