Belgía - Tripical

Belgía

Sjá myndir

Belgía

Belgía er staðsett í Vestur-Evrópu og á landamæri að Hollandi í norðri, Þýskalandi í austri, Lúxemborg í suðaustri og Frakklandi í suðri og vestri. Auk þess á Belgía strandlengu við Norðursjó. Heiðurinn að nafninu Belgía á sjálfur Júlíus Cesar, en hann réðist með sínum ósigrandi rómverska her inn í landið á fyrstu öld f. Kr. og tók þar völd. Fram að því hafði landið verið byggt ýmsum keltneskum þjóðflokkum, sem Cesar kallaði einu nafni Belgae. Finna má rústir og fornminjar sem varðveist hafa frá þeim tíma, og er elsti bær Belgíu, Tongeren, kjörinn áfangastaður fyrir þau sem leita að slíku.

Belgía liggur á mörkum germönsku og rómönsku Evrópu, og segja má að sú staðreynd móti þetta fjölbreytta land. Það skiptist í raun í nokkra hluta sem hver og einn ber sín sérkenni, hefur sitt eigið tungumál, eigin hefðir og menningarlíf. Meginsvæðin eru þrjú: Flæmingjaland, þar sem töluð er hollenska og flæmska, Vallónía, þar sem tungumálið er franska, og svo sjálf höfuðborgin Brussel, þar sem öll áðurnefnd tungumál ásamt þýsku, eru töluð. Margar af borgum Belgíu eru mjög skemmtilegar og sjarmerandi hver á sinn hátt. Má þar til dæmis nefna hina líflegu og töfrandi Antwerpen, miðaldaborgina Gent og Brugge, sem heillað hefur marga gesti með sínum fallegu byggingum, steinhlöðnu strætum og hlýlega andrúmslofti.

Þegar út fyrir borgirnar er komið taka sveitir Belgíu við, þar sem auðveldlega má gleyma sér  í dásamlegri náttúruskoðun. Ardennes svæðið er dæmi um vinsælt útivistarsvæði þar sem finna má skemmtilegar gönguleiðir um gróskumikla skóga, hjólreiðar og siglingar um ár og vötn.

Eins og við er að búast er menningarlíf í Belgíu ansi fjölbreytt, enda byggt á samruna flæmskra, franskra og germanskra hefða, sem er mjög áhugaverð blanda.  Landið er þekkt fyrir klassíska tónlistararfleifð sína, en ekki síður fyrir fjölbreytta senu í samtímatónlist á borð við raftónlist og djass. Í borginni Gent fer til dæmis árlega fram hin alþjóðlega virta djasshátíð Gent Jazz Festival, og trekkir að djassgeggjara víða um heim. Sama má segja um myndlist, Belgar eiga mörg stór nöfn í listasögunni, en leggja um leið ríka áherslu á að hlúa að nútímalist af ýmsu tagi.

Hér er matargerð líka fjöbreytt og að miklum hluta í heimsklassa. Hinn silkimjúki belgíski bjór er af mörgum talinn sá allra besti í heimi, en auk þess er matargleði órjúfanlegur hluti af menningu Belga. Súkkulaðið, vöfflurnar og frönskurnar hafa öll hlotið heimsathygli og hróður, en óhætt er að mæla með góðri vettvangskönnun á veitingastaði allt í kringum landið. Þar má fastlega búast við miklum gæðum, eðal hráefni, ljúfengum réttum og notalegri stund.

Belgía

Hópferð til Gent í Belgíu

Borgin Gent er hluti af flæmska hluta Belgíu, og þriðja stærsta borg landsins, með rúmlega 260.000 íbúa. Hún gekk í gegnum mikinn gullaldartíma á miðöldum og þótti um langt skeið ein af ríkustu og valdamestu borgum Evrópu. Þótt mikilvægi hennar...
Belgía

Hópferð til Brussel í Belgíu

Margir tengja Brussel við bjúrókrasíu og þurra Evrópusambandsstjórnsýslu. Staðreyndin er þó að borgin er annað og miklu meira, hún er gullfalleg og stórskemmtileg, og þar má auðveldlega týna sér í merkilegri söguskoðun. Byggingarstíll er hér mjög fjölbreyttur og athyglisverð blanda...
Belgía

Fræðsluferð til Brussel í Belgíu

Margir tengja Brussel við bjúrókrasíu og þurra Evrópusambandsstjórnsýslu. Staðreyndin er þó að borgin er annað og miklu meira, hún er gullfalleg og stórskemmtileg, og þar má auðveldlega týna sér í merkilegri söguskoðun. Byggingarstíll er hér mjög fjölbreyttur og athyglisverð blanda...