Edinborg í Skotlandi
Edinborg heillar alla upp úr skónum með ásýnd sinni. Þannig er það nú bara. Þar lítur engin/nn í kringum sig og gefur einkunnina ,,Mehhh.“ Ekki séns. Hún er stórbrotin með öllum sínum fornu byggingum, og kastalanum á hæðinni sem kórónar hina mögnuðu umgjörð. Stemmingin þar er líka einstaklega aðlaðandi, afslöppuð og full af gleði. Þar er að sjálfsögðu margt í boði fyrir forvitna ferðalanga, veitingastaðir í úrvali, pöbbar í enn meira úrvali, og alls kyns afþreying, bæði hefðbundin og óvenjuleg. Tripical býður upp á skemmtilegar hópferðir í Edinborg, þú þarft endilega að kíkja á þangað!
Skoðaðu hópferð til Edinborgar hérna.
Mary King’s Close
Falin neðanjarðargata frá 17. öld, staðsett undir iðandi mannlífi Edinborgar. Þar var eitt sinn líflegt markaðstorg og heimili fjölda íbúa. Í dag geta gestir farið í leiðsögn um götuna og nærliggjandi svæði og kannað sögu þess, þar á meðal tengslin við pláguna miklu, ásamt myrkum leyndarmálum og hrollvekjandi draugasögum frá þessum mergjaða leynistað. Mary King’s Close er áfangastaður fyrir alla sem hafa áhuga á að kanna dekkri kafla í sögu Edinborgar.
The Museum of Childhood
Heillandi safn tileinkað æskunni. Hér er boðið upp á fjölbreytt úrval af sýningum sem sumar hverjar eru interaktífar. Hægt er að skoða leikföng og leiki úr fortíðinni, þar á meðal dúkkur og borðspil, sem og aðra skemmtun sem vekja sætar minningar og veita innsýn í reynsluheim barna frá mismunandi tímaskeiðum.
The Camera Obscura and World of Illusions
Sjónblekkingar, töfrabrögð og risastórir ,,camera obscura“ skjávarpar sem kasta lifandi útsýni yfir borgina á risastórt útsýnisborð. Sérstakur staður sem býður gestum upp á að skoða undur ljósfræði og skynjunar, hvað heilinn okkar meðtekur og hvað ekki og hvernig hægt er að blekkja okkur upp úr skónum. Hér fær maður einstakt sjónarhorn á heiminn.
Ýttu hér til að skoða fleiri hópferðir sem eru í boði hjá Tripical!
The Edinburgh Dungeon
Komdu í ferðalag um myrka fortíð Skotlands, þar sem bæði leikarar og tæknibrellur leika listir sínar og draga þig inn í myrkan sagnaheim um fortíð Skotlands. Glæpir, refsingar og pyntingar – mannætur, nornir og raðmorðingjar. Nei, lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum í hinu yndislega Skotlandi og hér upplifirðu ótta, en líka hjartnæm augnablik og óvæntar uppákomur af ýmsu tagi. Heimsókn í dýflissuna er eitthvað sem þú gleymir aldrei!
Greyfriars Kirkyard
Greyfriars Kirkyard er sögulegur grafreitur staðsettur í hjarta borgarinnar. Staðurinn er þekktur fyrir draugalegt andrúmsloft, með sínum mosavöxnu legsteinum og hlykkjóttu stígum sem leiða til fjölbreyttra grafa og grafhýsa. Gestir geta farið í leiðsögn um kirkjugarðinn og fræðst um sögu staðarins, þar á meðal tengsl hans við skosku siðaskiptin og hina hjartnæmu sögu hins trygga hunds Greyfriars Bobby, sem stóð vörð við gröf eiganda síns í 14 ár.
The Surgeons’ Hall Museum
Safn sem kannar sögu læknisfræði og skurðlækninga. Ok, hér kann einhver að stoppa og segja ,,já nei nei, ekki fyrir mig takk,“ en ekki vera of fljót að dæma því heimsókn hingað er verulega mögnuð lífsreynsla. Safnið inniheldur varðveitt líffæri úr mönnum, alls konar sýni og lækningatæki, og veitir gestum einstaka innsýn í sögu læknisfræðinnar. Þá eru á safninu sýningar sem kanna líf og störf frægra skoskra lækna, þar á meðal Sir Arthur Conan Doyle, sem var nemandi við Edinborgarháskóla. Forvitnilegur staður, öðruvísi afþreying.
Arthur’s Seat
Einn af hæstu punktum Edinborgar og staðsettur í hjarta hennar, er sofandi eldfjall sem býður upp á víðáttumikið útsýni yfir borgina og landslagið í kring. Gestir geta gengið á tindinn eftir ýmsum gönguleiðum notið fallegs umhverfis og virt fyrir sér söguleg kennileiti borgarinnar fyrir neðan. Hvort sem þú ert náttúruunnandi, áköf göngumanneskja, eða einfaldlega að leita að stórkostlegu útsýni, þá er Arthur’s Seat áfangastaður sem allir sem skoða Edinborg þurfa að heimsækja.
Royal Botanic Garden
Konunglegi grasagarðurinn í Edinborg er stórkostlegt aðdráttarafl sem býður gestum tækifæri til að skoða fjölbreytt úrval plöntulífs víðsvegar að úr heiminum. Með yfir 13.000 tegundum plantna og trjáa er garðurinn griðastaður og friðsæl vin í hjarta borgarinnar. Gestir geta skoðað þemagarða úr ýmsum áttum, eins og til dæmis hina kínversku hlíð (Chinese Hillside) og skosku heiðarnar (Scottish Heath Garden). Friðsæll og töfrandi áfangastaður.
The Scottish National Gallery of Modern Art
Heimsþekkt samtímalistasafn sem sýnir fjölbreytt úrval af nútímalist, og þar á meðal verk eftir skoska listamenn eins og Eduardo Paolozzi og Damien Hirst. Hér eiga Andy Warhol og Francis Bacon sitt pláss, auki fleiri stórra nafna. Innsetningar, skúlptúrar, ljósmyndir og vídeóverk, safnið veitir einstakt sjónarhorn á myndlist 20. og 21. aldarinnar.
Pöbbar og skemmtistaðir
Bara svona til gamans eru hér frábærir staðir sem mæla má með fyrir þá sem þurfa að væta kverkarnar eða sleppa af sér beislinu á dansgólfinu.
The Last Drop
Þessi krá er staðsett í gamla bænum og á sér ríka sögu allt aftur til 17. aldar. Nafnið á sér óhugnanlega forsögu, því hér var dæmdu sakafólki boðið upp á sinn síðasta drykk áður en þau mættu örlögum sínum og voru tekin af lífi.
The Bow Bar
Notaleg, hefðbundinn krá í hjarta borgarinnar, þekkt fyrir glæsilegt úrval af viskíi og góðu öli.
The Devil’s Advocate
Kráin er til húsa í fyrrum viktorísku dæluhúsi og sameinar með töfrandi innréttingum nútímalega hönnun og þjóðlega arfleifð. The Devil’s Advocate er einnig þekktur fyrir nýstárlega kokteila sína og ljúffengan matseðil.
The Sheep Heid Inn
Starfrækt síðan á 14. öld og ein af elstu krám Skotlands, með tengingu bæði við kóngafólk og aðra þjóðþekkta einstaklinga. Þekkt fyrir einstakan sögulegan sjarma og þjóðlega skoska matseld. Vinsæl hjá gestum en ekki síður heimamönnum.
The Brass Monkey
Þessi bar er einkar vinsæll hjá borgarbúum, sem sækja nokkuð stíft í bjórinn sem þeir brugga sjálfir. Afslappað andrúmsloft og iðulega lifandi tónlist og möguleiki að detta í gott pub-quiz.
Cabaret Voltaire
Næturklúbbur staðsettur í gamla bænum, býður upp á úrval tónlistartegunda, allt frá house og teknó til hip hop og diskó. Reglulega eru hér tónleikar og aðrar tónlistartengdar sýningar.
The Hive
The Hive er þekkt fyrir vinalegt andrúmsloft, fjölbreytt tónlistarval, og er vinsæll staður meðal háskólastúdenta og heimamanna. Klúbburinn hýsir fjölda þemaviðburða alla vikuna, þar á meðal 90s kvöld og indie rokkveislur.
Opium
Næturklúbbur á mörgum hæðum og staðsettur í miðbænum. Býður upp á úrval tónlistarstíla, allt frá indie rokki til metals og pönks. Staðurinn er með útiverönd og hýsir reglulega lifandi tónlistarviðburði.
Liquid Room
Einn stærsti næturklúbbur Edinborgar og rúmar um 800 manns. Hér er því auðvelt að týna sér og fljóta inn í glimrandi dansveislu.
Sneaky Pete’s
Þessi staður er þekktur fyrir neðanjarðarstemningu og lifandi tónlistarflutning. Klúbburinn hýsir fjölda viðburða, allt frá indie- og rokktónleikum til DJ-kvölda og raftónlistarveislna.