Þú finnur pottþétt gleði í Porto

12.04.2023

Ferð til Porto

Porto í Portúgal er kannski ekki mest áberandi í tali hér á Fróni um helstu áfangastaði í Evrópu, en það er í raun bara tímaspursmál hvenær að því kemur. Það er ekki vitlaust að vera á undan, haka í boxið, skella í eins og eitt ,,been there – done that“, fara og njóta þeirrar fullkomnu blöndu af gamaldags sjarma og sprúðlandi lífskrafti sem þessi heillandi borg býður upp á. Steinhlaðnar göturnar, litríku húsin og fjölskrúðugt menningarlíf. Þú finnur pottþétt gleði í Porto, hún er bara svo dæmalaust dásamleg og þar má svo auðveldlega gleyma sér í ánægjunni, njóta gestrisni heimamanna og safna góðum minningum.

Skoðaðu hópferð til Porto hérna.

 

Einstök bókabúð

Livraria Lello er söguleg bókabúð staðsett í hjarta borgarinnar, stofnuð árið 1906 af bræðrunum José og António Lello. Hún er þekkt fyrir töfrandi Art Nouveau arkitektúr og einstakar innréttingar, þar á meðal svífandi rauðan stiga sem hefur með tímanum orðið ein af táknmyndum borgarinnar. Búðina prýðir skrautlegt tréverk, steindir gluggar, ásamt þakgluggum sem hleypa á eftirminnilegan hátt náttúrulegu ljósi inn í rýmið. Sú saga hefur náð fótfestu að J.K. Rowlings hafi eitt sinn heimsótt Porto og kíkt í bókabúðina góðu. Þar hafi hún fengið innblástur fyrir Hogwarts skólann í Harry Potter bókunum sem hún skrifaði síðar.  Í dag er Livraria Lello enn starfrækt sem bókabúð, en þjónar æ meira hlutverki menningarmiðstöðvar og er vinsæll áningastaður ferðamanna.  Til að varðveita sögulegan sjarma og einstakt andrúmsloft bókabúðarinnar er lítill aðgangseyrir inn á Livraria Lello, sem er að hluta til endurgreiddur ef gestir versla einhvern varning. Þrátt fyrir gjaldið er bókabúðin enn mjög vinsæl og mikilvægt menningarlegt kennileiti í Porto.

Beinakirkja

Capela das Almas er lítil en einstök kapella í miðbænum og fræg fyrir veggi sína og súlur, sem eru algjörlega þaktar höfuðkúpum og mannabeinum, sem skapa vissulega óvenjulega og ögn óhugnanlega stemmingu. Hún var byggð á 18. öld af munki Fransiskureglunnar, sem vildi skapa rými sem minnti fólk á hverfulleika lífsins og óumflýjanleika dauðans. Þar má finna flókinn útskurð og mögnuð listaverk, og kirkjugólfið er úr legsteinum sem teknir voru úr nærliggjandi kirkjugörðum. Beinin sem þekja veggina voru tekin úr gröfum munka og annarra íbúa borgarinnar, og þeim er raðað eftir kúnstarinnar reglum og í flóknu mynstri. Þrátt fyrir að teljast mjög sérstök er Beinakapellan talin vera merkilegt menningarlegt og sögulegt kennileiti í Porto.

Tónlistarsalur

Casa da Música er framúrstefnulegur tónleikasalur og þykir mikið byggingarlistaverk. Húsið var hannað af hollenska arkitektinum Rem Koolhaas og fullgerð árið 2005. Byggingin er eitt af þekktustu kennileitum Porto og hin athyglisverða nútímalega hönnun hennar hefur aflað henni viðurkenningar sem einn af merkilegustu tónleikasölum heims. Til viðbótar býður Casa da Música upp á fjölda annarra rýma, smærri sýningarsali, hljóðver og æfingasali. Þar er einnig boðið upp á fjölda menningarviðburða, þar á meðal vinnustofur, fyrirlestra og sýningar. Þar er skemmtilegt kaffihús og veitingastaður, þar sem gaman er að sitja og upplifa hina sérstöku stemmingu hússins.

Ýttu hér til að skoða fleiri hópferðir sem eru í boði hjá Tripical!

Kauphöll

Hin íburðarmikla 19. aldar bygging, Palácio da Bolsa, var upphaflega byggð til að þjóna sem kauphöll og gegnir enn mikilvægu hlutverki sem efnahagsmiðstöð borgarinnar. Hún er hönnuð í nýklassískum stíl en þar má einnig sjá tengsl við portúgalska barokktímann, sem og márískan arkitektúr. Innan stokks getur að líta íburðarmiklar skreytingar með flóknum útskurði og freskum. Eitt af þekktari herbergjum hallarinnar er kallað Arabian Hall og innblásið af Alhambra höllinni í Granada á Spáni, með lituðum glergluggum og stórbrotinni ljósakrónu, en einnig vekja þingsalurinn, dómssalurinn og glæsilegur danssalurinn mikla eftirtekt.

Götulist

Í Porto er lífleg og kraftmikil götulistarsena og margt hæfileikaríkt listafólk, víðsvegar að úr heiminum, hefur sett mark sitt á veggi og byggingar borgarinnar. Verkin spanna allt frá stórum veggmyndum til smærri, flóknari verka, og sannarlega eitthvað fyrir alla að njóta. Einn besti staðurinn til að kynna sér og upplifa götulist í Porto er Miragaia hverfið, sem staðsett er rétt norðan við gamla miðbæinn. Þar er mikið af litríkum og flottum veggmyndum, sem margar hverjar voru pantaðar af borgaryfirvöldum og fyrirtækjum á svæðinu til að fegra umhverfið. Einnig má nefna Rua Miguel Bombarda, sem oft er kallað listahverfi borgarinnar. Þar eru götur fóðraðar með galleríum, skemmtilegum verslunum og kaffihúsum og margar byggingar skarta mögnuðum veggmyndum.

Almenningsgarður með geggjað útsýni

Jardim do Morro almenningsgarðurinn er staðsettur í Vila Nova de Gaia, á bakka Douro árinnar andspænis Portoborg, og býður upp á töfrandi útsýni yfir borgina, Douro-ána og landslagið í kring. Garðurinn var upphaflega skipulagður snemma á 20. öld en gekkst undir mikla endurnýjun árið 1990, þar sem lögð var áhersla á að draga fram upprunalega fegurð hans og glæsileika. Þar er stór gosbrunnur, fjölbreyttur gróður og fyrirtaks lautir þar sem tilvalið er að setjast með teppi og körfu af góðgæti. Eitt stærsta aðdráttarafl staðarins er kláfferjan sem fer reglulega yfir ánna og tengir garðinn við árbakkann Porto megin. Með henni gefst frábær leið til að komast í garðinn frá borginni, auk þess sem útsýni úr kláfnum er ansi stórbrotið.

Markaður með sögu

Mercado do Bolhão er gamall markaður í borginni miðri, en hann opnaði fyrst snemma á 20. öld. Hann er til húsa í tveggja hæða nýklassískri byggingu og skiptist í fjóra sali, sem hver hefur sína sérstöðu. Markaðurinn er þekktur fyrir að bjóða upp á ferskt hráefni, beint af býli, þar á meðal ávexti, grænmeti og kjöt, ásamt fiski frá lókal sjómönnum og margir af sölubásunum hafa tilheyrt sömu fjölskyldu kynslóðum saman. Þar er þó fleira í boði en matur og hægt að finna varning eins og blóm, handverk ýmis konar og minjagripi. Þetta er vinsæll staður bæði hjá ferða- og heimafólki og hér ríkir mjög líflegt andrúmsloft, sölufólk auglýsir vöru sína með hrópum og köllum og bjóða kúnnanum að semja við sig um verð.

Undirgöng

Undir Porto er umfangsmikið net jarðganga og katakomba frá 18. öld. Upphaflega voru göngin byggð sem kjallarar og geymslur fyrir púrtvíns framleiðendur, en víniðnaðurinn var á þeim tíma mikil tekjulind fyrir borgina. Þau stækkuðu með tímanum og tengdust saman og úr varð mikið völundarhús sem teygir sig um nokkurra ferkílómetra svæði neðanjarðar. Í dag eru mörg þessara jarðganga opin almenningi og hægt er að skoða þau með leiðsögn. Vinsælir hlutar ganganna eru Caves Calem og Burmester Cellars, en á báðum stöðum var púrtvín eldað og geymt. Þá þykja katakombur São Francisco klaustursins mjög merkilegar, en þær voru notaðar sem grafreitir fyrir yfirstétt borgarinnar, og sama er að segja um gömlu hergöngin, sem notuð voru til að verja Portobúa fyrir innrásum.

Sögusafn

The World of Discoveries veitir gestum einstakt ferðalag um portúgalska sögu, og þá helst 15. og 16. öld, þegar landkönnuðir lögðu af stað til að uppgötva nýjar viðskiptaleiðir og svæði, og landið varð efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt stórveldi, með yfirráðasvæði sem teygði sig um allan heim. Safnið er staðsett í endurgerðu vöruhúsi og sýnir sögu, menningu og tækni portúgalskra landkönnuða frá fyrri tímum. Sýningarnar notast við gagnvirka skjái og margmiðlunarkynningar til að vekja söguna til lífsins og kveikja áhuga gesta á öllum aldri. Eitt af stórvirkjum safnsins er eftirlíking af 16. aldar skipi, sem gestir geta skoðað, og fræðst um leið um þær áskoranir sem sjómenn stóðu frammi fyrir á löngum siglingum. Þar eru líka sýningar sem sýna menningu og hefðir þeirra þjóða sem landkönnuðir ,,fundu“,  þar á meðal frumbyggja Suður-Ameríku og Afríku.

Brú

Ponte de Dom Luís I er tveggja hæða málmbogabrú sem liggur yfir Douro ána og tengir borgina frá norðurbakkanum við Vila Nova de Gaia á suðurbakkanum. Brúin var hönnuð af belgíska verkfræðingnum Théophile Seyrig, sem var lærisveinn Gustave Eiffel. Smíði hennar hófst árið 1881 og lauk árið 1886. Hún var kennd við Dom Luís I, sem var konungur Portúgals frá 1861 til 1889. Efra þilfar brúarinnar er ætlað gangandi vegfarendum og veitir stórkostlegt útsýni yfir Portoborg, Douro ána og nærliggjandi hæðir. Neðra þilfarið er notað af bílum og sporvögnum.

Ýttu hér til að hafa samband við söluráðgjafa Tripical í hópferðum!