Riga – svo rík af ógleymanlegri upplifun

31.03.2023

Riga í Lettalandi

Rík af sögu og menningu, rík af líflegum næturklúbbum og töff börum, svo rík af ógleymanlegri upplifun. Hinn einstaklega sjarmerandi gamli bær með sínum aldagömlu gottnesku byggingum, og steinhlöðnu götustígum. Og maturinn?! Hér eru margir veitingastaðir í háum gæðaflokki, og hvergi betra að smakka á því besta í lettneskri matargerð, eins og svartbrauðinu, reykta fiskinum eða kartöflupönnukökunum. Svo er það þetta sérstaka og óvenjulega, því borgin er einnig rík af skrýtinni og skemmtilegri afþreyingu. Ríka Riga. Þú bara verður að kíkja í heimsókn, og við hjá Tripical erum með ferðina þangað fyrir þig:

Skoðaðu hópferð til Riga hérna.

Hundar og kettir

Í Riga er bæði sérstakt kattahús og hundasafn. Kattahúsið svokallaða er heillandi og sérkennileg bygging staðsett í gamla bænum. Húsið var byggt snemma á 20. öld, og er frægt fyrir tvær svartar kattastyttur sem sitja á þaki þess. Sagan segir að ríkur eigandi hússins, sem var neitað um aðild að verslunarmannafélagi í hverfinu, hafi skellt upp köttunum til að stara með glyrnum sínum á hús félagsins, og þannig hafi hann komið óánægju sinni á framfæri. Í dag er Cat House vinsæll ferðamannastaður sem tilvalið er að heimsækja. En ef þú ert meiri hundamanneskja er óþarfi að örvænta, því hundasafnið í Riga býður upp á ýmis konar sýningar um sögu, tegundir og hlutverk hunda í samfélaginu. Þar eru um 1000 munir, eins og málverk, skúlptúrar, styttur og ljósmyndir. Einnig er hægt að læra sitthvað um hundaþjálfun og umönnun.

Þjóðfræðisafnið

Lettneska þjóðfræðisafnið er undir berum himni, rétt fyrir utan borgina og býður upp á hefðbundinn lettneskan arkitektúr, vindmyllur, kirkjur og sveitabæi. Hér er fyrirtaks tækifæri til að kynnast lettneskri þjóðmenningu og hefðum á lifandi og skemmtilegan hátt. Þó má nefna að sumar af sýningum safnsins þykja nokkuð hrollvekjandi, til dæmis þær sem rifja upp Heiðna helgidóminn svonefnda, þar sem lattneskir ættflokkar á 9. og 10. öld færðu fórnir fyrir guði sína.

 

http://www.accorhotels.com/A016

Loftbelgjaflug

Í Riga er hægt að upplifa borgina og töfrandi umhverfi hennar á einstakan og ógleymanlegan hátt: í loftbelg! Svífðu yfir trjátoppa og lettneskar sveitir og njóttu útsýnisins yfir gamla bæinn, Daugava ána og Riga borg í allri sinni dýrð. Loftbelgsferðin tekur venjulega um það bil klukkutíma, þær eru í boði allt árið um kring, og vetrarflug býður upp á töfrandi upplifun yfir snævi þöktu landslagi. Sannarlega ævintýri sem seint mun gleymast!

KGB og leynilegt neðanjarðarskýli

Staðsett í fyrrum höfuðstöðvum KGB í Riga, og býður upp á magnaða innsýn í myrka sögu hernáms Sovétríkjanna í Lettlandi. Á safninu eru gripir sem varpa ljósi á aðferðir KGB við eftirlit, pyntingar og hótanir, sem og sögur þeirra sem voru fangelsaðir og yfirheyrðir í byggingunni. Gestir geta skoðað fyrrum fangaklefa og yfirheyrsluherbergi, og fræðst um andspyrnuhreyfingar sem lögðu mikið á sig við að berjast gegn hinni kúgandi Sovétstjórn. KGB safnið er öflug áminning um mikilvægi þess að varðveita söguna og standa vörð um mannréttindi.

Þau sem vilja meira frá þessum sérstaka tíma geta farið og skoðað leynilega sovéska neðanjarðarskýlið, sem staðsett er í skóglendinu Līči, um 20 km frá borginni. Það var hannað og byggt af Sovétmönnum á tíma kalda stríðsins, og átti að vera örugg neðanjarðarstjórnstöð ef til kjarnorkustríðs kæmi við Vesturlönd. Skýlið er risastórt, á nokkrum hæðum og um 2500 fermetrar að stærð. Þar má finna íbúðarhúsnæði fyrir æðstu embættismenn, fjarskiptamiðstöð, sjúkrahús, afmengunarklefa og lítið kvikmyndahús. Því var haldið leyndu fyrir lettneskum íbúum allt þar til eftir að Lettland fékk sjálfstæði sitt á ný árið 1991, og var opnað sem safn árið 2003.

Ýttu hér til að skoða fleiri hópferðir sem eru í boði hjá Tripical!

Getnaðarvarnir og fóstureyðing

Flest er nú til, eins og einhver sagði, og Riga lætur sannarlega ekki sitt eftir liggja þegar kemur að sérstökum stöðum að heimsækja. Þar í borg er starfrækt Getnaðarvarna- og fóstureyðingasafnið (einnig þekkt sem Pretendenti safnið). Þar má kynna sér sögu og þróun getnaðarvarna og fóstureyðingaaðferða frá fornu fari til dagsins í dag. Safnið var stofnað árið 2004, með það að markmiði að fræða fólk um sögu æxlunarheilbrigðis og kvenréttinda, auk þess að ögra félagslegum fordómum og bannorðum í kringum fóstureyðingar og getnaðarvarnir. Þar er einnig að finna ýmis konar fræðsluefni, svo sem veggspjöld og myndbönd, sem veita upplýsingar um sögu getnaðarvarna og fóstureyðinga. Safnið er eitt af fáum  í heiminum sem helgað er þessu efni, og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir einstakt starf og nálgun sína á  heilsufræðslu.

Art Nouveau hverfið

Ómissandi staður að heimsækja fyrir alla sem áhuga hafa á arkitektúr og listasögu. Hverfið er staðsett í austurhluta miðbæjarins, og þar eru fjölmargar byggingar hannaðar í Art Nouveau stíl, sem var  mjög vinsæll seint á nítjándu öld og snemma á þeirri tuttugustu.  Byggingarnar  einkennast af flóknum framhliðum, ítarlegum skreytingum og náttúrulegum formum og mótífum eins og blómum og laufblöðum. Í hverfinu er líka að finna sjálft Art Nouveau safn Riga borgar.

Óperusund eða sundópera

Í kjallara þjóðaróperunnar er sundlaug sem er aðgengileg almenningi til sunds og slökunar. Hún var byggð um 1950 og upphaflega ætluð  flytjendum og starfsfólki óperuhússins. Á undanförnum árum hefur hún verið endurnýjuð og í kjölfarið opnuð almenningi sem heilsulind, þar sem boðið er upp á margvíslega þjónustu, gufubað og nudd. Laugin sjálf er þó tiltölulega lítil, aðeins 12,5 metrar á lengd, en hún er þekkt fyrir glæsilega hönnun. Vatninu er haldið við þægilegt hitastig, sem gerir hana að frábærum stað til að slaka á eftir langar skoðunarferðir um borgina. Nauðsynlegt er að nefna áhugaverðan eiginleika laugarinnar, sem er vatnstónlistarkerfið, sem spilar klassíska tónlist undir vatnsyfirborðinu og býr með því til eftirminnilega sundupplifun.

Ævintýraveröld Munchhausen

Sérkennilegt og gagnvirkt safn  sem er tileinkað hinum goðsagnakennda þýska aðalsmanni Baron Munchhausen. Safnið er til húsa í sögulegri byggingu í gamla bænum og býður upp á úrval sýninga og afþreyingu sem tengist lífi og ævintýrum þessarar merkilegu persónu. Sem dæmi má nefna flughermi, þar sem gestir geta upplifað að fljúga á fallbyssukúlu, þyngdarleysisklefa, og talandi styttu sem segir sögur af ævintýrum Munchhausen, sem margar hverjar eru æði gamansamar og ýktar. Gestir geta fræðst um hetjudáðir hans, sem fela til dæmis í sér að hjóla á fallbyssukúlu, draga sig upp úr mýri með eigin hári og veiða björn með berum höndum. Á safninu er einnig gjafavöruverslun þar sem gestir geta keypt minjagripi og bækur um þennan mikla kappa.

Postulín

Lítið en heillandi safn tileinkað sögu og framleiðslu lettnesks postulíns. Það er til húsa í fallegri Art Nouveau byggingu og sýnir yfir 10.000 postulínshluti, þar á meðal matarbúnað, fígúrur og skrautmuni. Mörg verkanna eru frá upphafi 19. aldar og gefa glögga mynd af sögu og þróun postulínsframleiðslu í Lettlandi. Ein af óvenjulegri sýningum safnsins er hin svokallaða „Líffærafræði postulíns,“ sem inniheldur úrval líkamshluta úr postulíni, eins og tennur, augu og jafnvel hjarta. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á læknisfræðilega og vísindalega notkun postulíns og er bæði heillandi og dálítið óhugnanleg í senn.

Ýttu hér til að hafa samband við söluráðgjafa Tripical í hópferðum!