Öðruvísi útskriftarferðir og ævintýralegar fjölskylduferðir til Króatíu

15.02.2017

Seinasta sumar ferðuðumst við hjá Tripical meðfram allri strandlengju Króatíu. Króatía býr yfir gríðarlegri náttúrufegurð og landið býður upp á ótal hluti fyrir hressa heimshornaflakkara, allt frá Plitvice þjóðgarðinum í miðju landinu, sem minnir helst á landslag Pandoru úr kvikmyndinni Avatar, til grýttu strandanna í Dalmatiu. Sjórinn í kringum Króatíu er sá tærasti í allri Evrópu, enda er mjög vinsælt að kafa þar. Meðfram Króatíu eru svo yfir þúsund misstórar eyjar sem draga að sér fjölda ferðamanna á hverju ári.

Eyjan Hvar er einn vinsælasti áfangastaður landins og er ekki að undra þar sem hún er ofboðslega skemmtileg og státar af því að vera sólríkasti staður Króatíu. Á Hvar er að finna fjölbreytileika mannlífsins í allri sinni dýrð, fólk á öllum aldri, fjölskyldur, unglinga í leit að skemmtilegu næturlífi og meira að segja súperstjörnur, en Beyoncé var einmitt á Hvar seinasta sumar!Eyjan er þekkt fyrir gott veður, gómsæta matargerð og virkilega fallega náttúru. Sjávargolan sem blæs yfir bæinn er endurnærandi og talin veita orku, enda voru áður stöðvar á Hvar fyrir einstaklinga með öndunarerfiðleika þar sem hægt var að fara í „öndunarhreinsun“.

En hvar er Hvar? Eyjan Hvar er staðsett rétt hjá Split, næststærstu borg Króatíu – en Tripical mun einmitt bjóða upp á ferðir þangað næsta sumar. Split er sennilega ferðamannavænsta borgin sem við sáum þarna úti og mikið af fólki fer þangað til að upplifa spennandi næturlíf. Á Split er ótalmargt að gera og sjá og mælir Tripical sérstaklega með því að fara að skoða rómversku rústirnar í bænum sem borgin er byggð í kringum.

 

Í tveggja klukkustunda fjarlægð suður af Split er Dubrovnik, pínulítill 40.000 manna bær á syðsta punkti Króatíu. Gamli bærinn í Dubrovnik er mjög áhugaverður og á sér langa sögu, en hann er umkringdur borgarveggjum sem áttu að verja hann á stríðstímum á árum áður. Dubrovnik var sjálfstætt land áður en bærinn varð partur af Króatíu og er á ákveðinn hátt ennþá sjálfstætt að því leiti að Boznia–Herzegovina liggur á milli meðfram strandlengjunni svo maður þarf að keyra þar í gegn frá Split. Dubrovnik á það sameiginlegt með Íslandi að Game of Thrones hafa tekið upp þáttaseríur sínar þar, en fyrir þá sem þekkja til eru það allar senur sem gerast í suðrinu.

Alveg hinum megin í Króatíu, á nyrsta hlutanum, er Istria tanginn sem liggur alveg við landamæri Ítalíu. Þar er aragrúi lítilli smábæja sem er virkilega gaman að skoða. Byggingastíllinn er aðeins öðruvísi en fyrir sunnan, en húsin eru öll afar litrík og falleg og svipa mjög til Ítalíu. Bæirnir eru flestir sjávarþorp, enda úir og grúir þar af sjávarréttastöðum þar sem hægt er að fá ferskt sjávarfang. Fjölda markaða er að finna á svæðinu og ólívur, trufflur, olíur og ýmsir ávextir eru fáanlegir út um allt. Pula er neðst í Istra og þar er hægt að finna risastórt hringleikahús í miðri borginni.

Afskekktasta svæðið sem við skoðuðum var sennilega eyjan Pag. Hún kom okkur mjög á óvart, þar sem við höfðum heyrt að Pag væri algjört partísvæði og við héldum því þangað með það í huga. Þegar við vorum búin að keyra meðfram eyjunni í 40 mínútur vorum við svo farin að efast, enda sáum við ekkert nema litla bóndabæi og stöku kind á ráfi. Það var ekki fyrr en við komum alveg á enda eyjunnar að við fundum bæinn Novalja sem var á þessum tíma yfirfullur af ungu fólki sem voru einungis þarna til þess að skemmta sér. Novalja er lítill bær fullur af litlum hvítum húsum með rauðum þökum. Meðfram höfninni er síðan mikið úrval af veitingastöðum og börum en aðalaðdráttaraflið er strönd rétt hjá bænum sem er sérstök að því leiti að þar eru fleiri á nóttunni heldur en á daginn. Zrcé ströndin er pakkfull af skemmtistöðum, börum og einstaka skyndibitastöðum. Staðirnir eru margir þaklausir svo maður fær strandarstemninguna beint í æð og fjöldi þekktra plötusnúða koma og spila þar á ári hverju.