Shopska í hádeginu og sarmi á kvöldin

12.02.2017

Fimm búlgarskir réttir sem þú verður að smakka

Eitt af því skemmtilegasta við það að ferðast er að uppgötva nýja og spennandi matarmenningu. Búlgarskur matur er saðsamur og heimilislegur og einkennist af bragðmiklum en þó mildum kryddum, fersku grænmeti og mjólkurvörum. Oftast er notast við kjúkling eða svínakjöt í réttina, en lamb á sér þó sérstakan stað í hefðbundinni búlgarskri matargerð. Tripical tók saman nokkra pottþétta búlgarska rétti fyrir svanga ferðalanga. Að máltíð lokinni er svo algjört „möst“ að fá sér smá Rakia, tært ávaxtabrandí framleitt úr plómum eða aprikósum.

 

Shopska salat

Salat gert út ferskum tómötum og gúrku með nóg af saxaðri steinselju og rifnum Sirene osti. Þetta er það búlgarskasta af öllu búlgörsku. Hversu oft geturðu sagt það án þess að mismæla þig?

 

Sarmi

Kál– eða vínviðarblöð með kryddaðri kjöt– og hrísgrjónafyllingu. Þetta er einn vinsælasti réttur Búlgaríu, en hann er borðaður bæði heitur og kaldur. Við mælum með að borða sarmi með vænni slettu af þykkri jógúrtsósu og skola herlegheitunum niður með ísköldu hvítvíni eða bjór. Geggjað!

Kebapche og kyufte

Grillaðar hakkbollur og pylsur, kryddaðar rausnarlega með salti, pipar og broddkúmen. Þessi réttur fullkominn með ísköldum búlgörskum bjór. Svo er líka hægt að fara alla leið og skella sér á blandaðan grillplatta, eða meshana skara, en það er vel útilátinn skammtur af öllu því besta af búlgarska grillinu: kebapche, kyufte, grilluð svínakótiletta og svínaspjót með frönskum kartöflum, shopska salati og sterkri lyutenitsa paprikutómatsósu.

 

Shkembe chorba

Þessi súpa er annáluð fyrir það að vera hinn fullkomni þynnkubani. Ótrúlega bragðgóð og heimilisleg með sterku krydd og hvítlauksbragði, það eina sem gæti stoppað þig í að uppgötva nýja, uppáhaldsréttinn þinn er það að komast að því að aðaluppistaðan í honum eru nautavambir. Já, þetta sem er innan í maganum á kúm. Engar áhyggjur samt, skolaðu súpunni niður með nokkrum bjórum og allar hugsanir um innyfli hverfa eins og dögg fyrir sólu.

Moussaka

Moussaka þekkja margir úr grískri matargerð, en grísk og búlgörsk matarmenning eiga margt sameiginlegt. Búlgarskt moussaka er lagskiptur réttur úr hakki, kartöflum og tómötum með hvítri sósu ofan á sem síðan er bökuð til gullinnar fullkomnunar. Skólabókardæmi um comfort food!*

*Ath: við óskum eftir skemmtilegu íslensku heiti yfir „comfort food“ – sá sem kemur með bestu þýðinguna verður boðið í moussaka–matarboð heima hjá Tripical–bloggaranum.