Dönsum eins og Egyptar: Sólarhringur í Kaíró

20.02.2017

Sunnudagur

Strákarnir lentu í Kaíró í Egyptalandi um átta leytið á laugardagskvöldið. Bílstjórinn sem skutlaði þeim á hótelið var í góðu stuði og náði að halda uppi dúndrandi stemmingu alla leiðina með því að spila fyrir þá hágæða egypska tónlist með hljómsveit frænda síns. Seinna reyndi hann svo að selja þeim geisladiskinn, en það fylgdi ekki sögunni hvort strákarnir létu slag standa. Þvílíkt kostaboð!

Daginn eftir var komið að því að upplifa sem mest af Egyptalandi á sem skemmstum tíma. Eftir stutta verslunarferð með leiðsögukonunni Jasmin voru strákarnir til í slaginn, klæddir í 100% egypska bómull frá toppi til táar. Minna en sólarhring eftir að Snorri og Sveinn voru á mótorhjóli á Kýpur eru þeir komnir á bak kameldýrs í Kaíró. Fyrsta stopp: Píramídarnir og Sphinxinn.

Það var mögnuð tilfinning að sjá Cheops, Chephren og Menkaure píramídana, en Cheops–píramídinn er það eina af sjö undrum fornaldar sem stendur enn í dag, og er þó rúmum 2000 árum eldra en hin sex. Eftir nokkur laumusnöpp innan úr píramída („No pictures!“) og klassíska túristamyndatöku við Sphinxinn skutluðust strákarnir á Khan el Khalili Bazaar, markað sem er eitt helsta ferðamannaaðdráttarafl Kaíró. Þar var ýmislegt reynt til að selja þeim hitt og þetta, og meira að segja gengið svo langt að sannreyna gæði varningsins með því að kveikja í honum fyrir þá („Real silver! No burn!“). Ferðin var svo kórónuð með „true Egyptian experience“–klósettferð sem var vel snöppuð, öllum áhorfendum eflaust til mikillar ánægju.

Stefnan er nú sett á Asíu, eftir stutt og laggott stopp í Afríku. Þrjár heimsálfur á þremur dögum. Næst þegar við hittum strákana verða þeir komnir til Hyderabad á Indlandi, eftir millilendingu í Bahrain. Þvílíkt ævintýri!