Bless Kýpur: hlátur og grín, halloumi og vín

19.02.2017

Laugardagur

Laugardagurinn 18. febrúar var seinasti dagur drengjanna á Kýpur, og jafnframt seinasti dagurinn í Evrópu. Til að kveðja Evrópu með stæl var sú ákvörðun tekin að leigja mótorhjól og ferðast aðeins um nærumhverfi Larnaca.

Í litlu þorpi, Kato Drys, römbuðu Sveinn og Snorri á sérsmíðaðan útsýnispall. Þar var hægt að drekka í sig fallegt umhverfi og kasta mæðinni áður en lengra var haldið. Skammt frá útsýnispallinum ákváðu drengirnir að bregða sér í óvænta vínsmökkun. Þar sá Snorri alfarið um að drekka í sig á meðan ökumaðurinn, Sveinn, gæddi sér á súkkulaði. Eftir að hafa skálað í nokkrum tegundum af víni með eiganda ekrunnar fóru strákarnir í skoðunarferð um staðinn ásamt vínbóndanum Jannis, sem var í góðu stuði og tók vel í misgóðar spurningar strákanna.Að lokinni vínsmökkun var komið að seinustu máltíðinni á Kýpur. Það var viðeigandi að enda stoppið á grilluðum halloumi, sem er svo kýpverskur réttur að Kýpur er með einkaleyfi á honum. Halloumi er saltur og þéttur ostur, fullkominn til grillunar eða steikingar, þar sem bráðnunarstig hans er mjög hátt. Það er auðvelt að nálgast hann hér á Íslandi (hann fæst t.d. í Bónus) og er tilvalinn í grillveislurnar í sumar. Prófaðu að bera hann fram gullinbrúnan með ferskri melónu, eða í hamborgarabrauði sem halloumi–borgara. Súpergott!

Á litlum og sætum stað í kýpversku smáþorpi hurfu ferskir villisveppir, halloumi og steik með frönskum ofan í drengina á mettíma þar sem þeir voru við það að missa af næsta flugi. Brunandi á mótorhjóli með vindinn, tja, alls staðar náðu Sveinn og Snorri næsta flugi móðir og másandi.Bless Kýpur, halló píramídar! Næsta stopp: Kaíró

 

Fylgstu með á Snapchat — snorribjorns
Fylgstu með á Instagram – snorribjörns og tripicaltravel