Mánudagur
Strákarnir yfirgáfu Egyptaland sunnudagskvöldið 19. febrúar eftir stutt og laggott stopp í Kaíró. Næsta stopp var Bahrain, en þaðan héldu strákarnir beinustu leið til Hyderabad á Indlandi.
Eftir um 100 klukkustunda stanslaust ferðalag eru Snorri og Sveinn nú hálfnaðir í ferð sinni í kringum heiminn. Það er ekki laust við að svefnleysi og almenn þreyta séu farin að gera vart við sig enda mörg, löng flug og bið á ótal flugvöllum að baki. Það er samt alveg hægt að upplifa margt skrítið og skemmtilegt á flugvöllum. Á flugvellinum í Bahrain var meðal annars að finna bænaherbergi, þó að flugvallargestir virtust reyndar aðallega nota það til að sofa þegar drengina bar að garði.
Strákarnir lentu í Hyderabad á Indlandi mánudaginn 20. febrúar klukkan 9.25 að staðartíma. Leiðsögumaðurinn Saran pikkaði drengina upp og fór með þá beinustu leið í skoðunarferð á Bollywood–sett. Bollywood kvikmyndaiðnaðurinn er einn sá stærsti í heiminum og veltir milljörðum á ári hverju í kringum þær hundruðir mynda sem framleiddar eru. Ein stærsta stjarna Bollywood–bransans er Amitabh Bachchan, en hann hefur á fimm áratuga ferli sínum leikið í meira en 190 Bollywood–myndum og á milljónir aðdáenda um allan heim.
Eftir staðgóðan indverskan hádegisverð var skoðunarferðinni svo haldið áfram með innliti í Charminar moskuna og tilheyrandi Irani Chai tesopa. Kvöldið var svo kórónað með stálheiðarlegri keiluferð og bjór áður en strákarnir þurftu enn og aftur að flýta sér á flugvöllinn.
Næsta stopp: Kuala Lumpur og svo Thailand
Fylgstu með á Snapchat — snorribjorns
Fylgstu með á Instagram – snorribjörns og tripicaltravel