Bara venjulegur miðvikudagur: Dab–að í 15.000 feta hæð yfir virku eldfjalli

24.02.2017

Miðvikudagur

Strákarnir fengu vel verðskuldaðan svefn í 10 tíma flugi til Melbourne í Ástralíu og voru vel ferskir þegar þeir stigu út úr vélinni miðvikudaginn 22. febrúar. Vegna seinkunar á fluginu var Ástralíuferðin í styttri kantinum, en Snorri og Sveinn náðu samt að skella sér í útsýnisflug í þyrlu yfir borgina og fá sér góðan kaffibolla. Á leiðinni upp á völl ákváðu strákarnir að nýta hverja mínútu í Eyjaálfunni til hins ítrasta og fóru í smá leigubílaskoðunarferð. Næsta stopp: Honolulu, Hawaii.

Pro tip: Ef þig langar að upplifa erlenda borg á skemmtilegan og öðruvísi máta, hoppaðu þá upp í næsta leigubíl og biddu bílstjórann um að keyra þig um og segja þér frá því sem honum eða henni þykir merkilegt. Með þessum hætti öðlastu innsýn í mannlíf borgarinnar á nýjan og ferskan hátt. Svona færðu aldrei að upplifa borgina í skipulagðri skoðunarferð með stórum hópi fólks.

Það var bongóblíða á Hawaii þegar strákarnir lentu á Hawaii, enn og aftur miðvikudaginn 22. febrúar. Eftir 18 klukkustundir í flugvél seinustu 24 tímana voru þeir í raun búnir að ferðast aftur í tímann, svo nú var um að gera að nýta þennan miðvikudag sem allra best… aftur.

Þrátt fyrir skuggalegan ferðabjúg á fætinum á Snorra þá var komið að ruglaðasta verkefni reisunnar: Fallhlífarstökki. Yfir virku eldfjalli. Í 15 þúsund feta hæð. Við skulum gefa Snorra orðið:„Mahalo. Ég og Sveinn erum á Hawaii. Við höfðum nokkra klukkutíma lausa og ákváðum að fara í fallhlífarstökk. Tímapressan var það mikil að við hlupum að bílaleigu, leigðum bíl og keyrðum á hinn enda Honolulu. Út úr bílnum og spretthlaup inní Pacific Skydivers þar sem við fengum þær fréttir að biðin eftir stökki væri 2–4 klukkustundir. Við segjum afgreiðslukonunni að við séum að klára hringferð okkar um jörðina á 200 klukkustundum og 4 klukkutíma bið gæti orðið til þess að við missum af fluginu okkar frá Hawaii.

Við fyllum út pappíra. Mikilvæga pappíra. Á mettíma. Ég lét undirskriftina mína á 50 línur í lestrarheftinu um fallhlífarstökk og afsalaði mér hinum ýmsu réttindum manneskju á meðan kennslumyndband í fallhlífarstökki spilaðist í bakgrunni. Við létum pappírana okkar efst í bunka umsækjenda, spurðumst fyrir um leiðbeiningar og æfðum okkur að stökkva út úr flugvél í anddyri búllunnar. Hálftíma seinna vorum við komnir upp í 15.000 fet — hæstu mögulegu hæð fallhlífarstökks án súrefniskúts (Sveinn pantaði í alvöru óvart „advanced jump“).

Akkúrat öfugt gerðist fyrr í ferðinni þegar við lentum á flugvellinum í Kýpur. Út af flugvelli og brunað í næsta köfunarskóla þar sem við köfuðum í mesta mögulega dýpi, 18 m, að skoða skipsflak (einnig búnir að gleyma öllum mikilvægustu lykilatriðum köfunar eins og hvernig á að gefa köfunarfélaganum neyðarsúrefni ef hans kútur klikkar neðansjávar).

“Do you ever feel like… like you’re leaving for work… and you know you’re forgetting something but you just don’t know what it is… ever get that feeling?” voru síðustu orð Daniel, gæjans á bakinu á mér, áður en við stukkum úr rellunni. Á myndinni sem er ég ekki hlæjandi að þeim brandara heldur einfaldlega klikkuðustu upplifun lífs míns. Ég ætla ekki að gera tilraun til að lýsa þessu í orðum, þessi ferð er búin að vera mögnuð og þetta var hápunkturinn (hehe).“

Næsta stopp: San Diego