Laem Singh ströndin: nokkrar klukkustundir í paradís

23.02.2017

Þriðjudagur

Snorri og Sveinn komu til Taílands skömmu eftir hádegi þriðjudaginn 21. febrúar. Phuket er sannkölluð ævintýraeyja, umkringd kristaltæru hafi svo langt sem augað eygir.

Nokkrir klukkutímar í paradís voru akkurat það sem strákarnir þurftu eftir linnulaust ferðalag seinustu daga. Eftir hangs og tan á ströndinni, taílenskt nudd, æfingar í sjóstökki og ferska ávaxtakokteila var kominn tími á einn frægasta rétt Taílands: Pad Thai.

Í litlum krúttlegum bás við Laem Singh ströndina var ævaforn en ótrúlega hress amma á fullu að preppa þennan þjóðarrétt Taílendinga. Gullnar og gómsætar hrísgrjónanúðlur, haganlega vafðar inn í létthrærð egg hurfu ofan í strákana á mettíma og þeir Snorri og Sveinn sammæltust um að hér væri sennilega enginn vandi að eyða öllum 200 klukkustundum ferðarinnar.

Kannski seinna. Nú var kominn tími á að hoppa í næstu vél og halda áfram í aðra heimsálfu.

Eftir svolítið stress, seinkun á flugi og eitt týnt veski lögðu strákarnir loks af stað. Framundan var 10 tíma flug, og strákarnir enn með blautt hár eftir taílenska sjóinn.

Næsta stopp: Melbourne, Ástralía

Fylgstu með á Snapchat — snorribjorns
Fylgstu með á Instagram – snorribjörns og tripicaltravel