Árshátíðarferð Eskju fór fram úr öllum væntingum! – Eskja

23.11.2023

Árshátíðarferð Eskju fór fram úr öllum væntingum!

Starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju er nýkomið heim eftir vel heppnaða árshátíðarferð til
Dubrovnik í Króatíu.

Á vegum Eskju voru alls 180 vinnufélagar og makar í ferðinni og var Tripical, sem sérhæfir sig í
hópferðum af öllum stærðum og gerðum, treyst fyrir að hámarka fjörið í ferðinni með góðu utanumhaldi.

Tripical bæklingurinn gerði útslagið

Viðburðarstýra Eskju, Sædís Eva Birgisdóttir, hefur haft það hlutverk að skipuleggja árshátíðir fyrirtækisins og fann strax eftir síðustu árshátíð að það væri kominn tími á breytingar.
Upplifun hennar var sú að það væri búið að skipuleggja síðustu árshátíðir til hins ýtrasta til að komast á toppinn í upplifun árshátíðargesta. Það væri búið að tæma „VÁ“ bankann.

Fyrir ári síðan þegar skipuleggja átti næstu árshátíð rekur Sædís augun í Tripical bækling á skrifborðinu og þá var ekki aftur snúið. Tripical bæklingurinn er girnilegur að fletta í gegnum og framsetningin er öðruvísi en venjan er hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Áherslan er á upplifunina og gæðin sem starfsfólk á í vændum.

Sædís hafði fylgst með öðrum fyrirtækjum fara í árshátíðar- og hópferðir með Tripical og líkað mjög vel það sem hún sá og heyrði. Hún hafði líka fengið innsýn í ferðirnar í gegnum samfélagsmiðla hjá vinum og hugsunin var oft sú að á einhverjum tímapunkti yrði gaman að hafa árshátíð Eskju erlendis.

Einhverra hluta vegna var aldrei gert neitt í því annað en að hugsa um að það væri gaman að fara erlendis því leiðin út virtist vera torveld og mikið flækjustig í kringum skipulag af þessu tagi. Sædís sá möguleika hjá Tripical sem gæti leyst úr þessum vanda fyrir Eskju.

Frábært samstarf og skilvirkt skipulag

Sædís ákvað að taka hugmynd sína lengra og setti sig í samband við Tripical. Hugmyndirnar voru margar og stórar og ekkert virtist vera ókleift fyrir Tripical að framkvæma fyrir hönd Eskju. Setning sem er Sædísi ofarlega í huga eftir samskiptin við Tripical er „minnsta mál í heimi,“ því það var aldrei nein krafa eða fyrirspurn frá Eskju sem virtist erfitt fyrir Tripical að leysa. Þvert á móti sýndi Tripical fram á að leiðin á árshátíð erlendis er fjarri því að vera torveld og uppfull að flækjustigum, ef rétti samstarfsaðilinn er valinn.

Tripical tók þátt í skipulagningunni hjá Sædísi og Eskju og kom fram með frábærar lausnir til að ýta undir tilhlökkun og hámarka ánægjulega upplifun starfsfólksins enn frekar. Búinn var til sérstakur bæklingur með ítarlegri dagskrá og alls konar skemmtilegum upplýsingum um áfangastaðinn.

Hvort sem um var að ræða val á áfangastað, flugáætlun, gistingu, skoðunarferðir, skemmtiatriði, veislusal eða hljóðbúnað þá sá Tripical til þess að allt var eins og best verður á kosið og engir lausir endar voru í kringum ferlið.

Vinna Sædísar við að skipuleggja árshátíðina var orðin leikur einn, sem er oft ekki raunin dagana í kringum árshátíð Eskju. Tripical var með þetta algjörlega á hreinu og fararstjórarnir frá Tripical voru árshátíðargestum innan handar alla ferðina.

Ógleymanleg upplifun

Þar sem Sædís hafði talið að „VÁ“ bankinn væri orðinn tómur var ákveðið að líta á ferðina sem heildarupplifun og hópefli frekar en að binda sig við árshátíðarkvöldið eingöngu. Þar sem Eskja er deildaskipt fyrirtæki, og það er sjaldan sem allir eru á sama staðnum, var tilgangur ferðarinnar ekki bara skemmtun á árshátíðarkvöldinu heldur var einnig markmiðið að starfsfólk fengi að kynnast betur þvert á deildirnar.

Upplifunin átti að hefjast um leið og ferðadagurinn rann upp og enda þegar lent var á Íslandi aftur, en raunin er sú að upplifunin hófst um leið og Sædís setti sig í samband við Tripical. Skipulagið í kringum ferðina var nefnilega skemmtilegt ævintýri út af fyrir sig.

Árshátíðarferðalangar gátu verið í fullu prógrammi eða notið afslöppunar, valið var algjörlega frjálst því vilji Eskju var sá að allir fengju að njóta eftir sínu höfði.

Í þessari ferð var hamingjan ekki bundin við sérstaka klukkustund og var mikið glens og gaman sem fékk að ráða för. Árshátíðarkvöldið tókst einstaklega vel og stóð undir nafni sem hápunktur ferðarinnar. Fagmannleg veislustjórn frá Audda Blö og Steinda Jr, vel heppnuð skemmtiatriði, góð tónlist, þökk sé hljómsveitinni Kaleo og Jónsa í svörtum fötum, og svo fjörugur dans langt fram að nóttu.

Eskja vill endurtaka samstarfið með Tripical

Allt ferlið, frá fæðingu hugmyndarinnar um árshátíð Eskju erlendis og til heimkomu, hefur verið ævintýri líkast. Starfsfólk Eskju ljómar og kann ferðaþjónustufyrirtækinu Tripical bestu þakkir fyrir samstarfið.

„Það er nokkuð ljóst að árshátíðarferð sem þessi er fyrirhuguð á ný í framtíðinni og komum við hjá Eskju hiklaust til með að leita til Tripical aftur og sjá hvaða ævintýri þeir bjóða okkur upp á þá,“ segir Sædís.