Föstudagur
Snorri og Sveinn lentu á flugvellinum í Larnaca á Kýpur klukkan 12.10 að staðartíma, föstudaginn 17. febrúar. Vinirnir voru dálítið stirðir eftir sitjandi svefn í langri flugferð, en þó alls ekki illa haldnir. Larnaca er hafnarborg á suðurhluta eyjarinnar Kýpur, og þriðja stærsta borg landsins. Larnaca er rík af sögu og margt fallegt að skoða, enda er borgin byggð á rústum fornu konungsborgarinnar Kition (13. öld f. Kr.)
Piltunum gafst enginn tími til hvíldar þegar þeir mættu til Larnaca, fyrsta verkefni dagsins var nefnilega að skella sér í blautbúning og kafa í tærum og köldum sjónum. Það voru leiðbeinendur frá Alpha Divers í Larnaca sem sóttu strákana og sögðu þeim að vatnið væri um 17 gráðu heitt og aðstæður góðar. Þeir Sveinn og Snorri eru báðir vanir kafarar með öll þartilgerð réttindi og voru heldur betur til í tuskið.
MS Zenobia, sænskt skip sem sökk 1980, var áfangastaður köfunarferðar dagsins. Skipsflakið hefur verið nefnt einn af 10 bestu köfunarstöðum í heiminum, m.a. af The Times. Vatnið reyndist þó ögn kaldara en 17 gráður, og eftir um 40 mínútna skoðunarferð komu þeir félagar upp úr sjónum nokkuð hressir, en örlítið skjálfandi og bláir til varanna. Samt, það er ekkert betra meðal við svefnleysi en adrenalín!
Það var vel verðskuldaður glaðningur að fara í heita og langa sturtu eftir volkið, það var minna verðskuldaður glaðningur að finna hvorki kennarana né bílinn eftir að sturtunni lauk. Strákarnir þurftu samt sem betur fer ekki að bíða lengi, enda heldur fáklæddir, þar sem þeir eru bara með ein föt meðferðis og tímdu ekki að fara í þau sjósaltir eða rennblautir.
Um kvöldið var svo skálað yfir góðri máltíð, Meat Meze, eða einskonar kjöt–smakkseðli með hefðbundnum kýpverskum mat; ýmsum tegundum af kjöti, osti og smokkfiski. Á morgun munu drengirnir svo ferðast út úr Evrópu og á vit jafnvel enn meira framandi ævintýra.Fylgstu með á Snapchat — snorribjorns
Fylgstu með á Instagram – snorribjörns og tripicaltravel