Við hjá Tripical erum alltaf í leit að nýjum og spennandi stöðum fyrir viðskiptavini okkar. Þótt áfangastaðir okkar séu æði margir, finnst okkur alltaf gaman að bæta á þann lista, því heimurinn er stór og margt að skoða og upplifa. Með þetta í huga kynnum við með mikilli ánægju heillandi náttúrugersemi við strendur Króatíu. Eyjan Lošinj.
Lošinj er staðsett utarlega í Kvarnerflóa, og er þekkt fyrir ægifagurt landslag, allt frá gróðursælum furuskógum til afskekktra víka, með hreinum gylltum sandströndum. Á eyjunni standa nokkur þorp og bæir, en stærstur þeirra og aðal dvalarstaður ferðafólks er hinn dásamlegi Mali Lošinj, sem skartar að margra mati fallegustu höfn í Adríahafinu og er stundum kölluð perla Kvarnerflóa. Þar er mjög margt að skoða, eins og til dæmis St. Martins kirkjuna frá 15. öld og einnig má mæla með heimsókn í Museum Of Apoxyomenos og skoða bronsstyttuna frá 1. öld sem þar er til sýnis. Í veitingum er heilmargt í boði, m.a. Michelin-stjörnu staðurinn Alfred Keller, auk alls kyns minni staða með fjölbreytta rétti á seðlinum, bæði þjóðlega og alþjóðlega. Þegar kvöldar er tilvalið að rölta upp á Providenca hæðina fyrir ofan bæinn og upplifa sólsetur sem erfitt er að lýsa með orðum.
Auðvelt er að ferðast um á eyjunni, sem er sannkölluð paradís fyrir áhugafólk um útivist. Þar er að finna fjölda göngu- og hjólaleiða í liggja í gegnum töfrandi landslag og óspillta náttúru. Vinsælust þeirra er nefnd Footpath of Vitality, um 3 km ganga frá Mali Lošinj til smærri bæjar í grenndinni, Veli Lošij. Gangan er vel þess virði, því Veli Lošij er minni en engu minna heillandi bær, með engu minna hrífandi stemmingu við dásamlegu höfnina sem þar stendur. Í stuttu göngufæri frá Mali Lošinj er líka The Fragrant Island Garden, þar sem þú getur slakað á og notið ilmsins af yfir 250 Miðjarðarhafsjurtum.
Köfun er mjög vinsæl í tæru Adríahafinu, heimurinn neðansjávar við eyjuna er afar litríkur og mikið um neðansjávarhella og falleg kóralrif. Fjölmargar frábærar strendur eru að finna á eyjunni, við Mali Lošinj og í næsta nágrenni. Vinsælastar þeirra er Veli Žal ströndin, Borik og Čikat ströndin. Og ef maður vill vera út af fyrir sig er hægt að leigja sér kajak og sigla meðfram ströndinni. Fjölmargar víkur bjóða upp á fullkomna kyrrð og blátæran sjó að synda í.
Tripical elskar Króatíu og því er það okkur sönn ánægja að bæta þessum dásamlega áfangastað við ferðaflóru okkar. Við hvetjum alla sem eru að plana skemmtilega hópferð að hafa samband og kynna sér enn frekar hvað Lošinj hefur upp á að bjóða. Við lofum magnaðri upplifun, sem seint mun gleymast.