Tyrkland - Tripical

Tyrkland

Sjá myndir

Tyrkland

Tyrkland er dularfullt, seiðmagnað og spennandi, saga þess margra alda löng og dramatísk, fegurð þess áhrifarík og óviðjafnanleg. Það liggur milli tveggja heimsálfa, Evrópu og Asíu, og þó að stærsti hluti þess tilheyri Asíu, og bæði trúar- og félagslegir þættir þess séu jafnan tengdir við þá heimsálfu, er það af ýmsum menningarlegum ástæðum talið evrópskt. Skilin milli heimsálfanna afmarkast af Tyrklandssundi. Með Svartahafi í norðri, Eyjajafi í vestri og Miðjarðarhafi í suð-vestri, á Tyrkland landamæri að Búlgaríu og Grikklandi í vestri, Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu í norð-austri, Sýrlandi, Írak og Íran í suð-austri. Þessi upptalning skýrir að nokkru leyti þá mögnuðu blöndu sem þetta sérstaka land býr yfir.

Almennar upplýsingar:

  • Fjöldi fólks: 85,963,082
  • Stærð að flatamáli: 783.562  km²
  • Opinbert tungumál: Tyrkneska
  • Gjaldmiðill: Tyrknesk líra
  • Hitastig: Sumar 20°- 25° / Vetur 2°– 6°
  • Tímabelti: 3 klukkutímum á undan

Tyrkland hefur ríka sögulega arfleifð. Það var heimkynni fornra samfélaga  eins og Hetíta, Frýgíumanna og Lýdíumanna, og síðar hjarta Býsans- og Ottómanaveldis. Tyrkland nútímans var stofnað úr leifum Ottómansveldisins árið 1923.  Þessi sögulegi auður endurspeglast í byggingarlist landsins, með kennileiti eins og Hagia Sophia moskunni og Topkapi höllinna í Istanbúl.

Í Tyrklandi er engin opinber ríkistrú, en íslamstrú er langmest iðkuð meðal þjóðarinnar. Þetta fer þó mikið eftir landssvæðum. Við strendur Svartahafs og Miðjarðarhafs eru íbúar mun frjálslyndari og sumir hverjir trúlausir, en þegar innar í landið er komið ríkir mun meiri íhaldssemi og trúarhitinn er meiri. Þar má finna mismunandi túlkun á islam, og minnihlutahópa eins og Alevíta og Sjíta sem hafa sína eigin helgisiði. Í borgum eins og Istanbúl og Izmir verður trúarblandan enn flóknari, og þar höfum við hópa sem aðhyllast grískan rétttrúnað, sýrlenskan rétttrúnað,  armensku postulakirkjuna, rómversk-kaþólikka og gyðinga. Enn eitt dæmi um sérstaka blöndu tyrknesku þjóðarinnar, sem þekkt er fyrir hlýju og mikla gestrisni, og hinn fjölbreytti bakgrunnur þjóðarinnar auðgar vissulega menningu landsins.

Tyrknesk matargerð er fræg á heimsvísu. Þar finnurðu allt frá kebab og baklava til hins þjóðlega forréttar mezes. Tyrkneskur matur er bragðsterkur, mikið af kjötmeti, ýmis konar jógúrt sósur eru algengar sem og bragðmikil krydd.

Tyrkland býður upp á breitt úrval spennandi áfangastaða fyrir ferðalanga, allt frá hinni magnþrungnu höfuðborg Istanbúl til fornra rómverskra rústa meðfram vestur- og suðurströndinni, frá dásamlegum sólgylltum ströndum Pamfýlíu héraðsins til stórbrotinna fjallagarða Lykíu héraðs, að ekki sé minnst á hið töfrandi undralandslag Cappadocia. Í Tyrklandi bíður þín ævintýra veröld.

Tyrkland

Hópferð til Cappadocia í Tyrklandi

Leiguflug til Cappadocia fyrir 100 manns eða fleiri Hið magnaða Cappadocia hérað í Tyrklandi á hvergi sinn líka, og býður þér ógleymanlega upplifun sem seint verður toppuð. Héraðið er staðsett í miðhluta Tyrklands og er þekkt fyrir afar óvenjulegt landslag,...