Smáríkið Andorra er staðsett í austurhluta Pýreneafjalla, á milli Frakklands og Spánar. Landið hefur upp á margt að bjóða fyrir gesti sína, þar eru frábærar gönguleiðir um fjöll og skóga, dásamlegar skíðabrekkur ásamt fullkomnum aðstæðum fyrir hvers kyns skíðasport, flottar verslanir, heilsulindir og sitthvað fleira, að ónefndri náttúrufegurðinni sem er dæmalaust heillandi hvert sem litið er. Þar fyrir utan er ríkið mjög áhugavert í sögulegu ljósi og góður staður fyrir fræðsluferðir af öllu tagi.
Andorra er vissulega smá, aðeins 468 fkm og íbúar um 77.000. Einhverjir segja að stærðin skipti ekki máli og það á sannarlega við hér, því saga ríkisins er æði merkileg og af mörgum talið mikilvægur vitnisburður um seiglu og menningarlega sérstöðu þess í Evrópu. Byggð er talin hefjast árþúsundum fyrir kristni og fornminjar hafa bent til byggða í hinum fögru djúpu dölum landsins. Hrikalegt landslag og afskekkt staðsetning svæðisins veitti ákveðna vernd, og gerði íbúum kleift að viðhalda vissu sjálfstæði á ólgutímum Rómaveldisins, sem og á fólksflutningum og landnámi ýmissa ættbálka í Evrópu. Þó hafa fundist menjar sem sem staðfesta veru Rómverja í landinu allt frá 2. öld fyrir Krist, mest á Camp Vermell svæðinu í Sant Julià de Lòria, en einnig sums staðar í Encamp og Roc d’Enclar.
Á miðöldum vakti staðsetning Andorra athygli og áhuga bæði franskra og spænskra leiðtoga. Svæðið var lengi þrætuepli hins spænska aðalsmanns, greifanum af Urgell, og biskupsins af Urgell. Þær deilur voru leystar árið 1298 með samkomulagi þar sem Furstadæmið Andorra var stofnað og báðir aðilar, franskir og spænskir, höfðu völd. Segja má að þetta fyrirkomulag hafi haldist næstu rúmu 700 árin. Þrátt fyrir stormasama tíð í Evrópu, tókst Andorra, vegna smæðar sinnar, að vera utan ratsjár annarra stórvelda og halda hlutleysi sínu. Efnahagur var jafnan byggður á landbúnaði, búfénaði, og ekki síst vörusmygli um Pýreneafjöllin, þar sem bæði Frakkar og Spánverjar nýttu stöðu sína.
Lengi vel hafði einangrun ríkisins áhrif á alla þróun, Andorra var gamaldags og nýtti sér forna hætti í atvinnu, menningarlíf allt var í sömu litum. Þetta tók að breytast um miðja 19. öld, þegar skurkur var gerður í allri uppbyggingu og yfirvöld lögðu meiri metnað í að færa ríkið nær nútímanum. Andorra var hlutlaust landsvæði í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld, en átökin höfðu vissulega mikil áhrif á furstadæmið og efnahag þess, auk þess sem flóttamannafjöldi ókst til mikilla muna.
Árið 1993 hlaut Andorra sjálfstæði sitt og sína eigin nýju stjórnarskrá. Ríkið gekk í Sameinuðu þjóðirnar og staðfesti með því stöðu sína sem fullgildur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu. Þar hefur síðan verið þingbundið lýðræði.
Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur Andorra vaxið jafnt og þétt sem vinsæll áfangastaður ferðafólks. Hæst ber líklega sú skíðaparadís sem landið breytist í á veturna, og þangað streyma þúsundir til að njóta dásamlegs skíðafæris og hins milda loftslags. Eftirsóknin er þó ekki mikið síðri á sumrin, þegar landslagið prýðist sínum fagurgrænu klæðum, og hægt er að velja um ógrynni af hvers kyns gönguleiðum og náttúruskoðun. Andorra er því paradís allt árið um kring.
Hópar sem telja 75 og fleiri og eru með skipulagt árshátíðarkvöld á vegum Tripical geta valið sér skemmtikraft hér af síðunni frítt og hann fylgir með í árshátíðarferðina. Einnig er hægt að velja ljósmyndara í stað skemmtikrafts sem tekur myndir og myndbönd alla ferðina og skilar af sér fyrir hópinn að ferð lokinni.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Andorra er heillandi smáríki staðsett í Pýreneafjöllum, milli Frakklands og Spánar. Að flatarmáli er það um 480 ferkílómetrar og þar búa um 78 þúsund manns. Ef við setjum það í kunnuglegt samhengi þá er stærð landsins á við Reykjavík, Kópavog og Garðabæ til samans, og hægt er að ganga hringinn í kringum það á 5 dögum.
Þótt íbúatala Andorra sé ekki há er alltaf mikið um að vera í þessu sjarmerandi fjallalandi. Þangað koma árlega um þrjár og hálf milljón ferðamanna og dvelja til lengri eða skemmri tíma, fyrir utan fjölda gesta frá nágrannaríkjunum Frakklandi og Spáni, en þaðan koma á hverju ári um 5 milljónir manns í styttri dagsferðir. Ferðaiðnaðurinn er allra stærsta tekjulind þjóðarinnar og hann einkennist í öllu af mikilli fagmennsku og gæðum. Andorra býður upp á stórkostlega aðstöðu til fjölbreyttrar skíðaiðkunar yfir vetrartímann, og á sumrin flykkist fólk þangað í hvers kyns gönguferðir og náttúruskoðun, enda umhverfið og útsýnið æði tilkomumikið og magnað.
Grandvalira skíðasvæðið
Frá Spáni er fyrst komið til höfuðborgarinnar, Andorra de Vella, í rétt rúmlega 1.000 metra hæð og brunað áfram inn dal sem teygir sig alla leið að landamærum Frakklands. Við tekur nokkur hækkun á 8 km leið, yfir til Encamp sem liggur í 1.250 metra hæð. Þaðan liggur Funicamp kláflyftan upp á skíðasvæðið. Ekki er hægt að renna sér alla leið til baka og er þá kláfurinn tekinn niður í bæ.
Frá Encamp liggur svo leiðin til Canillo sem er rúma fimm kílómetra í burtu og þangað er umtalsverð hækkun, eða upp í 1.525 metra. Kláflyfta gengur úr þorpinu og upp á skíðasvæðið. Hægt er að renna sér niður í bæinn. 10 kílómetrum frá Canillo er smáþorpið El Tarter í 1.750 metra hæð. Þar eru bæði afkastamikil kláfferja og stólalyfta, að ógleymdum aðal Aprés Ski barnum Aberset, en þar er dansað á útipalli langt fram á kvöld, boðið upp á flöskuborð, útibari, og mat.
Þremur kílómetrum ofar í dalnum er svo heimavöllur Tripical, Soldeu, sem stendur í 1.800 metra hæð. Hér er fjöldi hótela, skemmtilegir barir, og veitingastaðir af öllum stærðum og gerðum. Auk þess er boðið upp á kláflyftu sem ferjar fólk upp á skíðasvæðið. Þetta er fallegt þorp, sem fékk umtalsverða andlitslyftingu sumarið 2019, en heil umferð heimsbikarmótsins í skíðaíþróttum fór fram í Soldeu þá um veturinn. Nýlega var svo tilkynnt að lokaumferðin, sjálf úrslit heimsbikarmótsins, fari þar fram 2023. Þetta sýnir og sannar hversu góðan stað við bjóðum hér upp á!
Eins og áður segir, er úrvalið hér af veitingastöðum mikið – þú finnur stað með hinni þekktu gæðastjörnu Michelin, auk yndislegra pizzastaða, skemmtileg kaffihús og bari, en mörg hótelana eru opin fyrir almenna gesti á veitingastaðina sína.
Efst í dalnum, sex kílómetrum ofar, í 2.120 metrum er svo Rauða hlíð eða Grau Roig. Þar er bara eitt hótel og nokkrir veitingastaðir, en margar lyftur eru í dalnum, sem þjóna tengihlutverki fram og til baka yfir í síðasta bæinn sem myndar Grandvalira svæðið. Hér eiga til að myndast 5 mínútna raðir í tvær lyftur yfir háannatímann, þegar fólk er að færa sig milli svæða.
Alveg við landamæri Frakklands er svo Pas De La Casa, eða Skrefið heim. Þetta er nokkuð stór bær í 2.100 metra hæð, með mikið gistirými, fjölda lyfta og gott úrval af verslunum. Hér er að finna ódýrustu gistinguna og ekki óalgengt að þarna séu stórir hópar af ungu fólki sem leigja íbúðir, drekka mest heima og skemmta sér langt inn í nóttina. Þarna er því næturlífið oft líflegt og mikið fjör fram undir morgun. Pas De La Casa liggur alveg á landamærunum og mikill ys og þys sem fylgir umferðinni í útjaðri bæjarins.