Amsterdam í Hollandi
Amsterdam er vinsæl og skemmtileg borg sem margir hafa heimsótt, aðrir verið lengi á leiðinni að heimsækja, og öðrum jafnvel ekki dottið í hug að heimsækja fyrr en nú. Hvort heldur sem er þá mælum við hiklaust með ferð til Feneyja norðursins, eins og borgin er stundum kölluð. Flestir sem koma þangað í fyrsta sinn eru svo hrifnir af miðbænum að þeir vilja helst ekki fara þaðan. Það er afar eðlilegt, þar er vissulega fallegt og auðvelt að gleyma sér. En í borginni er einnig hellingur af mjög áhugaverðum stöðum, sumir þeirra eru kannski minna þekktir og ekki eins augljósir. Sérstakir veitingastaðir, óvenjuleg söfn, ásamt hinu og þessu skemmtilegu. Við kynnum spennandi og öðruvísi Amsterdam, og Tripical býður upp á hópferðir þangað. Skelltu þér með okkur!
Skoðaðu hópferð til Amsterdam hérna.
Hitt og þetta skemmtilegt
Ons’ Lieve Heer op Solder safnið
Þetta skemmtilega síkishúsasafn er staðsett við hliðargötu í miðju De Wallen hverfinu og ekki mjög sýnilegt gestum og gangandi. Hér má skoða einstaklega vel varðveitt síkishús með merkilega sögu. Þegar gengið er upp stigann á háaloftið birtist heil rómversk-kaþólsk kirkja sem falin er þar í þaksperrunum.
Þakið á NEMO vísindasafninu
Þó NEMO vísindasafnið sé einn vinsælasti fjölskyldustaður borgarinnar, vita færri að þakið státar af fallegasta útsýni yfir miðbæ Amsterdam. Arkitektinn Renzo Piano hannaði þetta útirými hátt yfir borginni sem almenningstorg, þar eru hreyfimyndir á veggjum og líflegir vatnsskúlptúrar sem krakkar geta leikið sér í, og auðvitað fínasta kaffihús þar sem sitja má með góðan bolla og njóta umhverfisins.
Tónleikastaðurinn OCCII
OCCII er ekki rekinn í hagnaðarskyni, og byggir starfsemi sína á stefnu hústökuhreyfingar sem reis seint á níunda áratugnum. Falleg þjóðleg hönnun á innganginum gefur til kynna fyrra hlutverk byggingarinnar en þar var áður hesthús og sporvagnageymsla. Á tónleikadagskránni má finna allt frá hressandi pönktónlist, tilraunakenndu hiphopi, tilraunakenndum djassi og líflegum barnaleiksýningum.
Kaffi og te í De Koffieschenkerij
Þetta sjarmerandi kaffi-tehús er falið á bak við Oude Kerk klaustrið. Þar er gott að sitja og láta dextra sig með bragðgóðum chai latte, tedrykkjum úr ferskum telaufum og dásamlegu kaffi. Eplakakan þar er á heimsmælikvarða. Í næsta nágrenni er svo veitingastaðurinn Quartier Putain sem bíður upp á einstök sérbökuð brauð og bjór sem bruggaður er á staðnum. Allt í kring er svo afslappað andrúmsloft De Wallen hverfisins.
Vínbrennslan Distilleerderij ‘t Nieuwe Diep
Þessi vinsæla vínbrennsla er staðsett í fyrrum dælustöð í Flevopark. Á friðsælli verönd við bygginguna, sem er nánast algjörlega umkringd vatni, má sitja og njóta fallegs útsýnis um leið og bragðað er á bestu séniverum og líkjörum úr framleiðslunni. Þetta er dálítið afskekktur staður í borginni en fyllilega þess virði að eyða þar nokkrum klukkustundum.
Menningarmiðstöðin Mezrab
Komdu þér fyrir á huggulegum gólfpúðum og leyfðu sögumönnum og konum Mezrab að fara með þig í stórkostlegt ferðalag með mögnuðum sögum sínum, gleði og gamanmálum. Þessi merkilega miðstöð hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum, og þykir í dag einn besti staður í borginni fyrir menningarlega afþreyingu.
Grasagarðurinn Hortus Botanicus
Hér finnurðu allt frá smávöxnum kaktusjurtum til hávaxinna pálmatrjáa. Þeir sem hingað til hafa ekki talið sig hafa áhuga á jurtaríkinu, geta ekki annað en heillast í einum af elsta grasagarði heims, sem hýsir yfir 4000 mismunandi plöntuafbrigði. Hér má einnig finna töfrandi fiðrildahús, þar sem ótrúlegt magn af ýmis konar litríkum fiðrildum svífa í loftinu.
Sundlaug fyrir sundæsta Íslendinga – Zuiderbad
Hin skrautlega Zuiderbad bygging stendur aðeins nokkrum skrefum frá Rijksmuseum og þar inni er að finna yndislega sundlaug. Húsið var byggt árið 1912 og er ein af fyrstu laugunum með húshitun og raflýsingu, og þótti langt á undan sinni samtíð. Þetta er nostalgískur staður sem mikil upplifun er að heimsækja, dýfa sér í laug eða pott og skoða glæsilegar innréttingarnar.
Ýttu hér til að skoða fleiri hópferðir sem eru í boði hjá Tripical!
Óvenjuleg söfn
Museum Tot Zover
Ef þú hefur áhuga á því hvernig Hollendingar nálgast dauðann, þá er hollenska útfararsafnið tilvalið fyrir þig. Tot Zover býður upp á fjölbreyttar samtíma- og sögusýningar með myndlist og ljósmyndum, þar sem kafað er djúpt í samband okkar við þessi óumflýjanlegu örlög allra. Eins og útfararsafni sæmir er það staðsett í kirkjugarði, nánar tiltekið í húsakynnum fyrrum kirkjugarðsvarðar.
Nxt Museum
Fyrsta sýningarrýmið í Hollandi sem er alfarið tileinkað nýmiðlunarlist. Risastórt iðnaðarrými með yfirgripsmikilli hljóð- og myndvörpun. Safnið sýnir upplifunarverk sem kalla fram alls kyns tilfinningar, og vekja sterk viðbrögð allra skynfæra. Myndlistarfólkið kemur víðsvegar að úr heiminum, og á það sameiginlegt að vera í fremstu röð í tæknivæddri nýmiðlunarlist.
Cat Cabinet
Þetta óvenjulega kattasafn er alfarið tileinkað hlutverki katta í lista- og menningarsögunni og er staðsett í tilkomumiklu síkishúsi, sem var notað sem tökustaður í kvikmyndinni Ocean’s Twelve. Allir áhugasamir kattareigendur og áhugafólk um þessa sérviskulegu dýrategund verða að kíkja hér við.
Museum van de Geest | Dolhuys
Safnið er staðsett á fyrrum holdsveikrahæli frá miðöldum, en hefur gengið í gegnum miklar endurbætur. Þar er áhersla lögð á verk eftir rithöfunda, lista- og vísindamenn sem glímt hafa við geðsjúkdóma.
Pianola Museum
Heimili sjálfspilandi píanóa, sem fyrr á tímum þótti einstök tækninýjung. Auk sjálfspilandi hljóðfæra má hér finna úrval af hefðbundnum píanóum, pípuorgelum, safn grammófóna og gamlar hljóðritanir tónlist af ýmsu tagi. Á bókasafninu eru um 30.000 nótnaspólur, hljóðritarúllur, breiðskífur og bækur. Þá heldur safnið tónleika allt árið um kring.
The Woonboot (House Boat) Museum
Þetta litla fljótandi safn gefur gestum einstakt tækifæri til að upplifa hvernig lífið var um borð í hefðbundnum hollenskum húsbáti. Það er staðsett á flutningaskipi frá 1914, sem breytt hefur verið í notalegt stofurými, þar sem halla má sér aftur í gamlar uppgerðar mubblur og gæða sér á kaffi og kökum.
Below the Surface
Neðanjarðarsafnið Below the Surface hefur til sýnis hluti sem grafnir voru upp við byggingu Norður/Suður neðanjarðarlestarlínunnar, sem liggur í gegnum miðbæ Amsterdam. Hlutirnir eru frá mörgum tímaskeiðum, allt frá skeljum frá 114.000-124.000 f.Kr., yfir í skreyttar ofnhettur, filmuhylki, marokkóska mynt og farsíma frá árinu 2005, þegar framkvæmdir á lestarlínunni hófust. Óvenjulegt og skemmtilegt!
Sérstakir veitingastaðir
Restaurant Bellezza
Farðu í gegnum hinn 400 ára gamla Hoogkamersgang í hjarta Rauða hverfisins, þar til þú finnur heillandi húsagarð og fallega byggingu sem áður hýsti kryddvörugeymslu. Á Restaurant Bellezza er boðið upp á frumlega og nýstárlega matarupplifun, sem parar ljúfengan mat saman við hljóð- og myndbrellur. Með forréttum fylgja t.d. myndir af ítölskum freskum, og eftirréttunum sykursætar myndir af búttuðum englum.
REM Eiland
Á þessum háa borpalli í höfninni í Amsterdam er hægt að snæða góðan mat í um 22 metra hæð yfir sjávarmáli. Borpallurinn hýsti áður vinsæla hollenska sjóræningjaútvarpsstöð. Staðurinn er mjög notalegur á veturna en á sumrin opnast aðrir möguleikar, því þá er hægt að njóta matarins úti á þakveröndinni. Matseðillinn þykir afar girnilegur og kokteilarnir hinir ljúfengustu.
Restaurant de Kas
De Kas er í raun risastórt gróðurhús, og á metseðlinum afurðir sem þar eru ræktaðar. Matseðillinn er síbreytilegur og fer eftir því hvað er týnt úr matjurtagarðinum þann daginn. Veitingastaðurinn er af mörgum talinn sá besti í Amsterdam, og býður upp á ógleymanlega matarupplifun með fersku árstíðarbundnu hráefni. Gróðurhúsið á rætur að rekja til ársins 1920, og þar var áður ræktað grænmeti fyrir borgarbúa. Þrátt fyrir háan aldur heldur byggingin sjarma sínum og hentar vel sem stílhreint veitingahús.
Mama Kelly
Bleikur, bleikari og enn meira bleikur veitingastaður, með gylltum skreytingum og flúri. Matseðillinn er einfaldur og byggir fyrst og fremst á kjúklingi og humri, en þetta klassíska hráefni er útbúið með fjölbreyttri bragðsamsetningu. Gott úrval af grænmetisréttum og eftirréttirnir þykja verulega freistandi.
Ctaste
Eins og fleiri borgir á Amsterdam sinn myrkraveitingastað, þar sem hægt er að upplifa matinn sinn í niðamyrkri. Sjónskert starfsfólk leiðir gesti að borðum sínum, þar sem þeir vinna sig í gegnum og smakka á óvæntum réttum. Allt í myrkri. Ef þú hefur ekki prófað þetta áður, er kominn tími til.
Moon
Veitingastaðurinn Moon er staðsettur á 19. hæð A’DAM Lookout byggingarinnar, og rétt eins og Perlan okkar, snýst staðurinn 360 gráður meðan þú nýtur matarins. Þannig færð þú stórkostlegt útsýni yfir höfnina, miðbæinn, sjóndeildarhringinn, alla borgina!
Skringilegar verslanir
Minnsta húsið í Amsterdam
Salon de Thé in Het Kleinste Huis er pínulítil testofa, enda staðsett í einu minnsta húsi borgarinnar. Þar er hægt að fá sér sopa og kaupa gæða te hjá lærðum tesérfræðingum.
Hnappabúð
De Knopenwinkel selur hnappa, nýja og gamla, klassíska, töff og skrýtna. Hér koma hnappasafnarar og kaupa í safnið sitt, sem og þau sem eru að missa niður um sig buxurnar og vantar tölu til að festa þær uppi.
Hnífaparabúð
Gastronomie Nostalgie fornverslunin sérhæfir sig í hnífapörum, sem og öllu því sem þarf fyrir klassískt matarboð. VIð erum að tala um silfurbúnað, brauðkörfur, karöflur, servíettuhringi, bara nefndu það.
Músasafn – og búð
The Mouse Mansion er bæði safn og verslun. Safnhlutinn er byggður upp á flókinni músahúsasmíði, þar sem meira að segja er að finna litla músasmábátahöfn. Verslunin selur svo músadúkkur, húsgögn og fleira sem þú getur nýtt þér í þína eigin músahúsagerð.
Ýttu hér til að hafa samband við söluráðgjafa Tripical í hópferðum!