Sagnir af upphafi Vilniusborgar eru sveipaðar mystískum ljóma. Þar sem stórhertoginn Gediminas (um 1275-1341) lá og hvíldist með flokki sínum eftir velheppnaða veiðiferð nálægt Vilniafljóti, dreymdi hann draum um risavaxinn járnúlf sem stóð á hæð einni og ýlfraði jafn hátt og hundrað úlfar. Hann bað hinn heiðna goða Lizdeika, sem með honum var, að túlka drauminn og svarið var eitthvað á þessa leið: ,,Járnúlfurinn táknar kastala og borg sem þú munt reisa á þessum stað. Þessi borg verður höfuðborg litháísku þjóðarinnar og dýrð höfðingja hennar mun enduróma um allan heim.“
Hvað sem hæft er í þessu, er sagan góð og klæðir hina dýrðlegu Vilnius vel. Eftir stórbrotna þróun í gegnum aldirnar, stendur hún í dag sem lífleg og undurfalleg evrópsk nútímaborg, sem gaman er að heimsækja og sökkva sér niður í menningu og sögu, listir og aðrar lystisemdir. Vilnius er staðsett í suðausturhluta Litháens og er ein stærsta borg Eystrasaltsríkjanna, þar er aðsetur landsstjórnar Litháens og Vilnius-héraðssveitarfélagsins, og þar búa tæplega 600.000 manns.
Fornleifarannsóknir benda til þess að borgin hafi verið höfuðborg konungsríkisins Litháen og síðar stórhertogadæmisins Litháens. Landið á mikla sögulega tengingu við Pólland. Á seinni hluta 16. aldar mynduðu þau sambandsríkið Pólland-Litháen, sem var stjórnað bæði af konungi Póllands og stórhertoga Litháens, og var eitt fjölmennasta ríki Evrópu á 16. og 17. öld. Endalok þess urðu árið 1795.
Á 18. öld var barokk stíll mjög yfirgripsmikill í byggingarframkvæmdum og áhrif þessa eru mjög áberandi á borgarmyndinni og ein af stærri ástæðum fyrir sjarma hennar. Næstu aldir urðu nokkuð átakanlegar fyrir borgina, á 19. og 20. öld var hún undir yfirvaldi Rússa, Þjóðverja og Pólverja. Eftir fyrri heimstyrjöld lýsti Litháen yfir sjálfstæði sem stóð fram að síðari heimsstyrjöld en þá var það hernumið af nasistum. Það varð síðan hluti að Sovétríkjunum allt þar til það endurheimti sjálfstæði sitt árið 1990, ekki síst með aðstoð íslenskra stjórnvalda, sem voru með fyrstu þjóðum til að viðurkenna landið sem sjálfstætt ríki.
Aragrúi er af áhugaverðum stöðum og byggingum til að skoða í Vilnius. Gamli bærinn er á Heimsminjaskrá UNESCO, en hluti hans er frá miðöldum. Þar er einnig að finna Forsetahöllina (Presidential Palace – Prezidentūra) frá 18. öld. Á hæð yfir borginni stendur turn Gediminasar (Gediminas’ Tower – Gedimino pilies bokštas) frá 14. öld og veitir dásamlegt útsýni. Dómkirkja Vilnius er stórkostlegt mannvirki, upphaflega byggt á 13. öld en endurbætt alloft og sýnir dæmi um gotneskan, endurreisnar og nýklassískan byggingarstíl. Kirkjuturnið sjálfur, um 57 metrar á hæð, stendur nokkrum metrum frá sjálfri kirkjunni, við hið glæsilega Dómkirkjutorg, og hefur í aldanna rás orðið eitt af aðalsmerkjum borgarinnar. Þá er Háskóli Vilnius (Vilniaus universitetas), stofnaður 1579, einstaklega flott bygging sem vert er að heimsækja.
Eins og fram hefur komið lifir Vilnius borg, þrátt fyrir háan aldur og mikla sögu, síður en svo í fortíðinni. Hér er tifandi nútíma menningarlíf, hellingur af veitingastöðum af öllum stærðum og gerðum, fjölbreyttir barir og skemmtistaðir ásamt ýmis konar afþreyingu sem gerir góða heimsókn enn betri. Vilnius er frábær kostur fyrir fræðsluferðir, og sameinar fortíð og nútíð á eftirtektarverðan hátt.
Amberton er sjálfstýrð lóð í hjarta gamla bæjarins í Vilníus, aðeins nokkrum skrefum frá Dómkirkjutorginu. Þar er að finna loftræst herbergi með flatskjá, kapalsjónvarpi, vinnuborði og ókeypis internettengingu.
Herbergi Amberton eru klassísk með björtum veggjum og timburhúsgögnum. Öll eru þau með peningaskáp og minibar. Í hverju baðherbergi er hárþurrka og annað hvort bað eða sturta.
Veitingastaðurinn býður upp á evrópska rétti og útsýni yfir dómkirkjuna. Á veitingastaðnum er boðið upp á morgunverðarhlaðborð á morgnana. Útihúsakaffihúsið er opið yfir sumartímann.
Gestir á Amberton Cathedral Square Hotel Vilnius geta notað rafmagnshlaupahjól frítt. Hægt er að fara í loftbelg með fyrirframbókun á staðnum.
Aðalverslunargata Vilníus er aðeins 30 metrum frá Amberton. Höll stórhertoganna í Litháen er í 200 metra fjarlægð. Mörg kaffihús, veitingastaðir og verslanir eru í nágrenninu.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Litháen má með réttu kalla einn af földum gimsteinum Evrópu. Tenging Íslands við landið er allnokkur, en eins og þekkt er áttu íslensk stjórnvöld mikilvægan þátt í að Litháen öðlaðist sjálfstæði árið 1991. Landið er staðsett syðst af Eystrasaltsríkjunum og á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Rússlandi í suðri. Litháen býður upp á hina fallegu og sögufrægu höfuðborg Vilníus, en einnig stórbrotna náttúru, skóga og vötn víða um land. Síðast en ekki síst má nefna eitt helsta aðdráttarafl Litháens, glæsilega strandlengjuna, með sínum hvíta sandi sem liggur eins og teppi við Eystrasaltið.
Höfuðborg Litháen er næststærsta borg Eystrasaltsríkjanna. Hún er í senn afar falleg og skemmtileg, hér og þar rísa tignarlegar kirkjur í barokkstíl og á milli þeirra eru hin ýmsu hverfi – sum aldargömul, önnur ný. Þar má finna glæsilega veitingastaði, líflegar krár og skemmtistaði sem halda stemmingunni gangandi langt inn í nóttina. Vilníus er vönduð nútímaborg, byggð á gömlum grunni. Gamli bærinn er friðaður og skrásettur á heimsminjaskrá UNESCO, og hiklaust hægt að mæla með skoðunarferð um hann.
Litháen var hluti af Sovétríkjunum frá lokum seinni heimsstyrjaldar og allt þar til landið varð fyrst ríkja til að krefjast sjálfstæðis í aðdragandanum á falli kommúnismans. Til eru merkilegar leifar frá þessum tíma. Í Plokstine er meðal annars að finna yfirgefið fyrrum kjarnorkuvopnasvæði, sem nú hýsir safn tileinkað Kalda stríðinu. Safnið er staðsett í hinum fallega Zemaitija þjóðgarði sem er vinsælt göngusvæði og þangað er boðið upp á dagsferðir frá Vilníus, sem mæla má með.
Heimsókn í Grūtas Park (einnig þekktur sem Stalin’s World) er afar sérstök upplifun, en þar er að finna alls kyns styttur og skúlptúra frá Sovéttímanum. Garðurinn er staðsettur í um 130 km fjarlægð frá höfuðborginni.
Einnig er rétt að nefna þá staðreynd að Vilníus var lengi vel ein stærsta gyðingamiðstöð Evrópu og oft nefnd ,,Jerúsalem Litháen“. Vilnius Choral Synagogue er starfrækt í byggingu frá 1903 sem slapp merkilega vel frá ógnum stríðsins og áhugavert er að heimsækja, sem og hið sögulega Jewish Quarter í gamla bænum.
Gamli bærinn: Frábær staður til þess að kynna sér forna menningu þessa svæðis. Þar eru byggingar frá 13. öld og hverfi gyðinga frá þeim tíma þegar vegur þeirra var sem mestur í borginni. Heillandi miðborg sem gaman er að rölta um.
Uzupis: Hverfi innan borgarinnar sem að stórum hluta er byggt af skapandi listafólki, og merkilegt fyrir þær sakir að íbúar Uzupis lýstu yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis árið 1998 og eiga sinn eigin fána og þjóðsöng!
Rölt meðfram ánni: Í gegnum borgina rennur fallega áin Vilnia, með sína grasivöxnu bakka sem gaman er að rölta um, og jafnvel fara í góða lautarferð í skógunum í kring.
Gediminas turninn: Farðu upp á hæðina og skoðaðu leifarnar af þessum virðulega kastala frá 14. öld. Ef þú tekur þrepin upp í toppinn á turninum færðu stórkostlegt útsýni yfir borgina.
Vilnius Cathedral: Þessi skínandi hvíta klassíska kirkja er fallegur staður með áberandi stóru torgi sem gaman er að heimsækja.
Three Crosses Hill: Hæðin er reyndar í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá Vilníus, nálægt bænum Siauliai, en við höfum hana með í þessari upptalningu því þetta er áhrifaríkur staður sem geymir mikla fortíð. Þar stendur minnisvarði um samfléttaða sögu Litháens og Sovétríkjanna, og hættuleg mótmæli og baráttu Litháa fyrir sjálfstæði sínu. Svæðið hefur nokkrum sinnum orðið fyrir skemmdun, en ávallt endurbyggt á nýjan leik. Hæðin býður upp á afar fallegt útsýni yfir landið í kring.
Fjöldinn allur af söfnum er í borginni þar sem skoða má allt frá sögu landsins, til hinnar fjölbreyttu listsköpunar sem landið hefur að geyma.
Dagskrár hverrar fræðsluferðar er háð ferðadagsetningum hverju sinni. Dagskrá sem er innifalin í starfsferðum Tripical eru vinnustaðarheimsóknir/fræðsla sem er sniðin að þörfum hvers hóps.
Starfsferðir eru hálfgert dómínó og ekki alltaf ljóst hvað er hænan og hvað er eggið. Að því sögðu þá þekkjum við viðmið til að fá styrk og hvaða gögn þið þurfið. Það getur tekið okkur tíma að fá fullnægjandi gögn en við höfum fengið A+ í kladdann hjá sjóðunum og komið öllum út sem hafa tekið tilboði frá okkur. Við leggjum alltaf mikið upp úr fræðsluhlutanum og reynum að gera ferðina ykkar gefandi, áhugaverða sem og skemmtilega.
Áður en fræðslufúsir ferðalangar leggja í hann, fær forsvarsmanneskja hópsins nákvæma dagskrá og öll nauðsynlegum gögn sem tengjast ferðinni. Svo bara læra, lifa og njóta!