Mexíkó - Tripical

Mexíkó

Sjá myndir

Mexíkó

Hola Amigo, bienvenido a Mexico!

Þvílík paradís sem Mexíkó er, með sínar guðdómlegu strendur við ylvolgan sjó, frumskóga fulla af fjölbreyttu lífi og litríkar gleðihátíðir í borgum og bæjum. Mexíkóar kunna svo sannarlega að krydda upp á tilveruna, ekki síður en þau kunna að krydda matinn sinn. Menningin í Mexíkó er gáskafull og spennandi, og þar er alltaf stutt í dansinn, hvort sem það er djúpt ofan í taktföstum neðanjarðarklúbbum eða í dillandi gleðisveiflu á götum Mexíkóborgar.

Komdu þér strax til Mexíkó með því að spila lagið á spilaranum!


Almennar upplýsingar:

  • Fjöldi íbúa: 119,530,753
  • Stærð að flatarmáli: 1,972,550 km2
  • Opinbert tungumál: Spænska
  • Gjaldmiðill: Mexíkóskur Pesó / 1 $=5,46kr
  • Hitastig: Fer eftir svæðum! 5°-40°
  • Tímabelti: 8 til 5 tímum á undan Íslandi

Skelltu á þig sombrerónum og kíktu út!

Í Mexíkó finnurðu græna frumskóga, rjúkandi eldfjöll og kaktusskreyttar eyðimerkur. Þar finnurðu líka 10.000 km strandlengju, þar sem lónin iða af dýralífi og brimið við strendurnar kallar svo hátt á þig að þig langar mest af öllu að grípa bretti og sigla út, þrátt fyrir að hafa kannski aldrei stigið á brimbretti á ævinni! Í Mexíkó lifirðu lífinu til fulls og landið er endalaust ævintýri fyrir skynfærin.

Aftur til fortíðar

Víða má finna aldagamlar minjar um sögu siðmenningar í Mexíkó, fornleifar sem þykja með þeim merkilegustu í heimi. Þar má meðal annars nefna píramíta Teotihuacan og hin stórkostlegu Maya-musteri í Palenque. Einnig má benda á gullfallega bæi og borgarhverfi frá spænska nýlendutímabilinu, full af einstökum skúlptúrum, steinkirkjum og glæsihúsum. Til dæmis býður borgin Guanajuato upp á þess háttar umhverfi, fyrir utan að vera eitt fallegasta þéttbýli landsins og sannarlega heimsóknarinnar virði.

Ef þú ert ekki í stemmd/ur fyrir að ferðast inn í landið til að skoða forna staði með eigin augum, má hvarvetna finna fínustu söfn þar sem saga landsins er rakin og skjalfest með hinum ýmsu minjum og gripum.

Tips & Tricks

Hvernig þú ferðast um og gistir í Mexíkó er algjörlega í þínum höndum. Möguleikarnir eru margir, og auðvitað misdýrir. Meðan á dvöl þinni stendur á austurströndinni geturðu gist á glæsilegum lúxus hótelum sem fara temmilega vel með budduna þína. Þú getur einnig sparað við þig með því að gista í krúttlegum strandarskálum við Kyrrahafið. Þegar lengra inn í landið er komið, geturðu mögulega leyft þér þann munað að gista á höfðingjasetri frá nýlendutímanum – og átt það alveg skilið eftir langa og sveitta göngu um einhvern af grænum skógum landsins.

Það er auðvelt að komast frá A til B, til dæmis virðast þægilegar rútur vera nánast alls staðar og bjóða upp á ferðir hvert sem er. Einnig er umfangsmikið innanlandsflugnet í Mexíkó og hægt að bóka ódýrar ferðir hvert sem hugurinn girnist. Þegar kemur að því að næra sig, geturðu verið viss um að fá gæðamat á diskinn, hvort sem þú situr á fínum veitingastað eða bara við eldhúsborðið hjá ömmunni í næsta húsi.

Mexíkóar eru á heildina mjög jákvæðir og heillandi, og leggja sig fram við að  þóknast gestum sínum. Þau eru stolt af landi sínu og vilja að þú upplifir allt það besta og merkilegasta sem Mexíkó hefur upp á að bjóða.

Mexíkóborg

Hin mjög svo heillandi Mexíkóborg er að ganga í gegnum mikla endurnýjun, þar á sér stað öflug uppbygging á öllum helstu almenningsrýmum og um leið er borgin að verða einn öruggasti staður landsins.

Það er auðvelt að gleyma sér um lengri eða skemmri tíma í höfuðborginni. Þar er svo margt að sjá og í raun hægt að fylgja ákveðnum söguþræði, allt frá forn-rómverskum grunni hennar, þaðan til fallegra bygginga nýlendutímans og áfram inn í stórbrotin nútímahverfi hlaðin háhýsum og glæsibyggingum.

Cancún

Cancún er í raun tveir mismunandi staðir. Annars vegar er það glæsilegt hótelsvæði með frægu hvítu sandströndunum, háklassa veitinga- og skemmtistöðum, krám og góðu partýi. Hins vegar er svo hin raunverulega Cancúnborg, þar sem þú ert meira í snertingu við menningu landsins og lífshætti. Þú ert meira í Mexíkó. Við mælum heilshugar með því að eyða tíma þar, ganga um götur borgarinnar og grípa með þér girnilegan taco á einni af fjölmörgum götubúllum á svæðinu.

Þetta er það sem gerir Cancún svo áhugaverða. Ef þér er farið að leiðast lúxuslífið á hótelinu við ströndina geturðu hæglega tekið leigubíl og fyrir fáranlega lítinn pening rúntað inn í hjarta borgarinnar þar sem þú salsadansar um stræti borgarinnar. Og þá er alls ekki allt upp talið. Hægt er að taka sér bátsferð til hinnar óspilltu eyju Isla Contoy og skoða fjölbreytt  fugla- og plöntulífið þar. Í norðri bíður svo Isla Holbox strandlengjan, þar sem sund með gríðarstórum hvalahákörlum hefur orðið vinsælt sport.

Skammt frá Cancun er einnig hið magnaða Museo Subacuático de Arte, sem samanstendur af meira en 500 skúlptúrum staðsettum 5-7 metra niður á sjávarbotni. Þar geta gestir kafað og skoðað þetta einstaka styttusafn neðansjávar.