Kýpur - Tripical

Kýpur

Sjá myndir

Kýpur

Allir vilja eiga Kýpur

Þessi fagra eyja hefur verið bitbein Grikkja og Tyrkja um aldaraðir og yfirráðasvæði hennar skiptist í tvennt, á milli meirihluta Grikkja og minnihluta Tyrkja. Opinber tungumál eyjunnar eru að sama skapi bæði gríska og tyrkneska. Kýpur var einnig hluti af breska heimsveldinu á árunum 1878-1914, og þegar eyjan öðlaðist sjálfstæði sitt árið 1960 fylgdi því sú krafa að Bretar réðu áfram yfir litlum hluta hennar. Þetta eru smáhéröðin Akrotiri og Dhekelia, sem í dag tilheyra hinu svokallaða British Overseas Territory.

Hin fagra Kýpur er þó þrátt fyrir þetta friðsæll staður. Sambandið milli eyjarhlutanna verður stöðugt betra og samskipti hafa verið friðsamleg síðustu ár. Sameining er kannski ekki í myndinni, en ástandið er komið eins nálægt því og hægt er. Eyjan er afar vinsæll ferðamannastaður, þangað er gott að koma og njóta stórbrotinnar náttúru, skemmtilegrar afþreyingar og gestrisni heimamanna. 

Eyjan er staðsett í botni Miðjarðarhafs, suður af Tyrklandi og er þriðja stærsta Miðjarðarhafseyjan, á eftir Sikiley og Sardiníu. Landfræðilega séð, er hún hluti af Asíu, en bæði í menningarlegum og pólitískum skilningi tilheyrir hún  Evrópu og ríkið er meðlimur í Evrópusambandinu. Höfuðborgin, og jafnframt stærsta þéttbýli eyjunnar er Nicosia.

Kýpur var upphaflega numin af Grikkjum í kringum 1400 fyrir Krist. Hún var síðan hertekin af Alexander mikla um 1000 árum síðar, varð partur af hinu forna Feneyjaríki en síðan hernumið af Ottoman stórveldinu (fyrrum Tyrkir) í kringum árið 1570. Þetta er mikilvægt fyrir sögu eyjunnar sem í dag skiptist í tvennt samkvæmt landamærasamningi, á milli Grikkja sem eru í meirihluta og minnihluta Tyrkja. Þannig tilheyrir norðaustur hluti eyjunnar Tyrklandi, og hafa þeir lýst yfir sjálfstæði og fullyrða að þeirra partur á eyjunni beri sérstakt nafn, nefnilega ,,Tyrneska lýðveldi Norður-Kýpur“. Engin önnur þjóð hefur þó samþykkt eða staðfest þetta, og Sameinuðu þjóðirnar ganga út frá að á eyjunni sé aðeins eitt ríki, Lýðveldið Kýpur.Þær hafa auk þess lagt sig fram við að koma friði á milli þjóðanna tveggja sem eyjuna byggja og með aðstoð Evrópusambandsins, sem landið er nú opinber hluti af, hefur staðan farið mjög batnandi og verið farsæl síðustu ár.

Borða, skoða, slaka, gera

Það er ótalmargt að skoða og skemmtilegt að gera á Kýpur. Og auðvitað það sem mestu máli skiptir, hér er gott að borða. Þú finnur matargerð sem er blönduð grískum, tyrkneskum og fleiri gómsætum hefðum úr eldhúsi Miðjarðarhafsins. Rétt er að nefna að tyrkneskir Kýpurbúar borða ekki svínakjöt af trúarlegum ástæðum.

Auðvelt er að finna sér góðan stað til að slaka á og njóta sólarinnar. Strandlengja Kýpir er einstaklega falleg og á mörgum stöðum óspillt og tær. Fyrir þá sem vilja skoða sig um, er af nógu að taka. Vítt og breitt um eyjuna má finna ýmis konar fornminjar, sem eiga uppruna allt frá steinöld og fram á valdatíma Rómaveldis.

Höfuðborgin Nicosia býður upp á ýmislegt, eins og til að mynda borgarveggina sem umkringja staðinn, en þeir voru reistir á tímum Feneyjarveldisins. Við þennan forna vegg má finna mikið úrval af skemmtilegum krám og veitingastöðum. Og svo er það ,,græna línan“ svokallaða, en hún skiptir borginni í tvennt, milli gríska og tyrkneska hlutans, og athyglisvert að skoða muninn á borgarhlutunum tveimur.

Troodos fjöllin ná nálægt 2000 metra hæð, og þar er að finna margs konar gönguleiðir með dásamlegu útsýni, ásamt litlum sjarmerandi fjallaþorpum eins og Kakopetria, Platres og Phini, sem gaman er að heimsækja. Á veturna er hægt að fara á skíði í fjöllunum, og stöðugt er unnið að því að gera alla aðstöðu til skíðaiðkunnar sem besta.

Pitsilia er fallegur hluti Troodos fjalla. Þangað er hægt er að taka sér ferð, gista á skemmtilegu sveitahóteli, upplifa himneska sveitasælu og heimsækja fínustu vínræktarstaði Kýpur, eins og Kyperounda Winery, Tsiakkas Winery og Pelenderi.

Commandaria er þekkt fyrir aldarlanga framleiðslu á hinu sæta desertavíni sem ber sama nafn. Það er vel þess virði að heimsækja staðinn og skoða safnið sem sýnir sögu þessa goðsagnakennda drykkjar.

Hinn stórbrotni og vel varðveitti bær Khirokitia hefur staðið allt frá 6800 fyrir Krist, og er á Heimsminjaskrá Unesco.

Skemmtileg staðreynd 

Eins og áður sagði eru Grikkir í talsverðum meirihluta á Kýpur og samband Grikkja og Kýpurbúa er sterkt og sérstakt. Þannig þekkjum til að mynda vel hvernig löndin gefa hvert öðru alltaf hæstu einkunn, 12 stig í Júróvisjon, og skiptir þá engu hversu góð, já eða arfavond lögin eru sem löndin senda til keppni. Pínku asnalegt, en kannski líka bara pínku sætt. Þetta er jú bara söngvakeppni 🙂