Kúba - Tripical

Kúba

Sjá myndir

Kúba

Karabíska þyrnirósin vaknar

Kúba hefur um áratuga skeið setið fast í viðjum fortíðar og úr sér gengnum kommúnisma, en er nú að vakna af þeim fasta svefni. Aðgangur fyrir gesti er að galopnast og við erum boðin velkomin inn í þetta heillandi land, þar sem tíminn hefur staðið í stað í svo langan tíma.

Kúba er þreytt og dösuð, en samt svo stórfengleg. Fallin stjarna en þó full af reisn og óviðjafnanlegum sjarma. Ferð til Kúbu er eitthvað engu öðru líkt. Þetta er land einstakra töfra og dularfullra galdra, og best að vera við öllu búinn. Kúbverjar elska góðan mat og hressandi salsatónlist sem erfitt er að dilla sér ekki við. Það er um að gera að hrífast bara með – eftir einn svalandi mojito og með þétt rúllaðan kúbverskan vindil við hönd – og láta vaða í einn vænan cha-cha-cha dans.

Við mælum með að hlusta á lagið í spilaranum á meðan lestri stendur. Svona er stemmingin á Kúbu!


Þegar stigið er yfir landamærin er best að gleyma öllu því sem þú telur sjálfsagt í þínu hversdagslega lífi. Hér þarf að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni. Eitt besta dæmið um þetta er sú staðreynd að internet hefur varla þekkst á Kúbu í áraraðir.

Almennar upplýsingar

  • Fjöldi íbúa: 11,239,224
  • Stærð að flatarmáli: 109,884 km2
  • Opinbert tungumál: Spænska
  • Gjaldmiðill: Kúbverskur pesói / 1₱=4,13kr
  • Hitastig: 21°- 27° yfir allt árið
  • Tímabelti: 4-5 tímum á eftir Íslandi

Land sjóræningjanna

Borgir Kúbu hafi ekki breyst ýkja mikið síðan hafnir þar voru helstu stoppistöðvar sjóræningja Karíbahafsins. Andrúmsloftið og arkitektúr Havana, Trínidad og Remedios hreyfir auðveldlega við manni og þar segja gömul hús og steinlagðar götur miklu meira en 1000 orð. Svæðið er nokkuð vel varðveitt, en þrátt fyrir það liggja margar byggingar undir skemmdum sökum vanrækslu, og bíða eftir að einkafjárfestar sjái hag sinn í að fjármagna endurbætur. Þetta hefur nú þegar gerst með margar fallegar byggingar sem áður voru í niðurníslu en eru nú skemmtilega hönnuð hótel og veitingahús eða stórkostleg einbýlishús.

Það hefur sjaldan verið betra að heimsækja Kúbu, með tilkomu einkafyrirtækja og aukinnar innspýtingu fjárfesta í ferðaþjónustuna. Frá dreifbýlissvæðum eins og Viñales, til Havana og fleiri borga, er eins og landið sé allt að vakna af djúpum svefni. Kúba er á tímamótum og hiklaust hægt að mæla með ferð þangað til að upplifa þessar breytingar og sjá þessa fallegu rós byrja að blómstra á ný.

Á norðurhluta landsins og eyjum þar í kring finnurðu hvítan sand og heillandi strendur. Við mælum líka eindregið með að þú setjir á þig landkönnuðarhattinn og skoðir svæði handan stranda og helstu borga. Farðu inn í skógana, og skoðaðu mýrarnar, en gættu þín á krókódílunum sem eiga heimkynni sín í votlendinu. Kíktu upp í fjöllin og sjáðu yfirgefnar kaffiframleiðslur og fleiri minnisvarða hinnar gömlu Kúbu. Ævintýrin eru alls staðar.

Havana

Við fyrstu sýn getur Havana birst manni sem ruglingslegt púsluspil. Þegar þú áttar þig á því hvernig púslið er sett saman blasir einstaklega falleg mynd við þér. Sterkt og lifandi mannlíf einkennir borgina, hinir ýmsu listamenn hafa mikil áhrif og setja skemmtilegan svip á menningarlíf hennar. Hér er  stemmingin á kaffihúsunum  vægast sagt önnur en við eigum að venjast hér heima. Kannski er það eitthvað sem þeir setja í mojito-ana, alla vega hefur kúbversk kaffihúsamenning aldrei verið eins lifandi og litrík, í 500 ára sögu landsins!

Íbúar Kúbu eru brenndir af stórum byltingum og bandarísku viðskiptabanni. Þetta hefur mótað samfélagið, borgir og bæi, en þrátt fyrir það svífur hin sterka taktfasta salsa-orka yfir öllu og Havana dansar við glymjandi tónlistina sem alls staðar heyrist. Það er einfaldlega ekki hægt annað en að hrífast með!

Varadero

Þetta er eitt mesta ferðamannasvæði Kúbu, og mjög mikilvægt fyrir hagkerfi landsins. Varadero hefur að geyma stærstu sólarströnd Karabíska hafsins, þar eru yfir 60 hótel af öllum stærðum og gerðum, sem mörg hver bjóða upp á ,,all-inclusive“ pakka. Á svæðinu má finna verslanir, vatnaíþrótta- og leiksvæði, sundlaugar og aðra  skemmtun. Frábær staður fyrir gott og afslappað frí!

Trinidad

Einstakur bær, rétta austan við Havana. Staðurinn er í raun fullkomin  fulltrúi tíma spænsku nýlendustofnunarinnar. Bærinn er tímalaus (bókstaflega!) því klukkurnar voru stöðvaðar árið 1850 og enn þann dag í dag hafa þær ekki verið ræstar að nýju. Magnaður bær sem árið 1988 var skráður á heimsminjaskrá UNESCO.

Sykurreyrarsvæði má finna nálægt Trinidad, en þar unnu á sínum tíma þrælar hörðum höndum við sykurvinnslu sem notuð var í rommframleiðslu. Einnig er að finna fallega fossa og fjalllendi nálægt bænum. Við lofum því að labb um götur Trinidad kúplar þig algerlega frá tækni og stressi nútímans og þú finnur ósvikin tengsl við fortíðina.