Indland - Tripical

Indland

Sjá myndir

Indland

Förum til Indlands!

Indland er  land fjölbreytileika og andstæðna, land fornra hefða og listrænnar arfleifðar. Þar er landslagið stórfenglegt, arkitektúr eins og af öðrum heimi, og það sama má segja um hina eldheitu og bragðgóðu matarhefð sem þar hefur tíðkast um aldir, og með tíð og tíma dreifst um heim allann. Indverskur matur sem svo margir elska, er hvergi betri en á Indlandi sjálfu.

Það er rétt að búa sig undir öðruvísi heimsókn og eflaust getur þetta stórbrotna land valdið nettu sjokki. En litadýrðin, mannmergðin, maturinn, kýrnar og kúltúrinn skapa saman ógleymanlega upplifun sem þú finnur hvergi annars staðar.

Smelltu á play  og njóttu tónlistarinnar samhliða texta og myndum!


Indland er næst fjölmennasta land heims. Risastórt að flatarmáli og skartar margs konar landslagi, allt frá tindum norðlægra fjalla til sólríkra suðurstranda. Innan um alla þessa náttúrusæld rísa svo  einstök og mögnuð mannvirki. Indland var bresk nýlenda allt fram til ársins 1947 og má finna þess merki víða, bæði í menningu og borgarskipulagi.  Sem dæmi má nefna þá staðreynd að í Indlandi er enska töluð svo víða að landið telst næst stærsta enskumælandi land í heimi ! Þá eru vinsældir krikkets gott dæmi um menningarleg áhrif, en íþróttin skipar reyndar nokkuð stóran sess víða í Suður-Asíu.

Almennar upplýsingar

  • Fjöldi íbúa: 1.324.171.354
  • Stærð að flatarmáli: 3.287.263 km²
  • Opinbert tungumál: Hindí og Enska
  • Gjaldmiðill: Indverks Rúpía 
  • Hitastig: 10°-40°
  • Tímabelti: 5 og hálfum tíma á undan Íslandi

Leyfðu forvitninni að grípa þig

Með því fyrsta sem vekur eftirtekt, er hið villta dýralíf í borgum og bæjum, þar sem að apar og önnur dýr hafa óáreitt hreiðrað um sig og gert sér heimili, og hika ekki við að stela mat og öðru lauslegu af gestum og gangandi.

Ef þú ert í leit að spennandi og öðruvísi matarferð svíkur Indland þig ekki. Indverskur matur er svo margvíslegur og í þessu stóra landi áttu möguleika á að smakka úrval af svæðisbundnum réttum, matreiddum eftir þeim hefðum sem tíðkast á hverju því svæði þú heimsækir.

Indland á án nokkurs vafa eftir að koma þér mikið á óvart. Búðu þig jafnframt undir að allt það óvænta verði ekki eingöngu gleðileg upplifun – fyrsta heimsókn þangað getur verið krefjandi, og reynt ansi hressilega á öll skynfæri og tilfinningaskalann eins og hann leggur sig. Á sumum stöðum ríkir til að mynda mikil fátækt, og þúsundir manna lifa við aðstæður sem maður sér ekki á hverjum degi.

Gullni þríhyrningurinn

Stórborgirnar Delhi, Agra og Jaipur mynda saman hinn svokallaða gullna þríhyrning. Ef þú vilt skoða Indland, og hefur ákveðinn takmarkaðan tímaramma fyrir slíka ferð, er upplagt að leggja áherslu á þessar borgir, sem allar gefa sanna mynd af landi og þjóð og hafa hver um sig upp á að bjóða einstök kennileiti og merkilega viðkomustaði. Þú getur síðan ráðið hvernig þú ferðast um – hvort sem er með lest,  á bíl eða hjóli.

Delhi

Borgin endurspeglar þrjú mismunandi tímabil af mjög fjölbreyttri sögu landsins og er um leið einn besti staðurinn til þess að upplifa þróun og arfleifð þessa merkilega lands. Delhi er í raun lifandi heimild um upprisu og fall margra heimsvelda í gegnum tíðina og er reist úr leyfum átta sögulegra borga á svæðinu. Erfitt er að lýsa með orðum arkitektúr borgarinnar,  hér þarf hver og einn bara að koma sjá og upplifa. Það er alls ekki að ástæðulausu að (Nýja) Delhi er höfuðborg landsins, því hún varðveitir svo vel sögu Indlands, samruna hinna ýmsu svæða og framþróun landsins í tímans rás.

Agra

Ein stærsta ástæða þess að borgin Agra dregur til sín ferðamenn í stórum stíl er hið tilkomumikla grafhýsi Taj Mahal, stórkostleg bygging frá 17. öld, þar sem hvergi var til sparað, bæði í efni og vinnu, enda var byggingartíminn um 23 ár. Taj Mahal er glæsilegt á myndum, en ekki er hægt að bera það saman við þá upplifun að vera á staðnum og standa við þetta stórbrotna hof. Aðdráttarafl Agraborgar einskorðast þó síður en svo við þetta, þar má finna arfleifð hins svokallaða Mógúl heimsveldis sem stóð frá 16. öld og fram til þeirrar 19. og skildi eftir sig stórkostlegt vígi  á svæðinu.

Jaipur

Hin sögufræga Jaipur er höfuðborg Rajasthan svæðisins, og oft nefnd sem hliðið að glæsilegasta arkitektúr Indlands! Borgin er afar litrík og falleg en þar er líka að finna eitt óskipulagðasta götukerfi heims. Ef einhvers staðar er kaos, þá er það í Jaipur! Hér reyna rútur sem mest þær mega að forðast árekstur við næsta úlfalda, í umferðaröngþveiti sem aldrei stoppar. Hér er háannatími allann sólarhringinn, og eins gott að gæta sín á að verða ekki fyrir skakkaföllum. Í hringiðunni miðri má svo finna glugga inn í glæsilega fortíð, þar sem, ótrúlegt en satt, ríkir yfirvegun og sérstök ró. Maður er skyndilega eins og staddur í öðrum heimi.

Í hjarta borgarinnar er sjálf Borgarhöllin, sem enn þann dag í dag hýsir fyrrum konungsfjölskylduna Jantar Mantar. Ef litið er út fyrir borgina gefur að líta þurrt fjalllendi sem umkringir staðinn, en þar er líka að finna hið stórbrotna Amber virki, sem þekur um 4 ferkílómetra og er sannkölluð töfraveröld í formi og byggingastíl.

Suður-Indland

Suður-Indland einkennist af frjógsömum sléttum og víðáttumikilli þúsunda kílómetra strandlengju, og er skemmtileg andstæða við tindótt hálendi norðursins. Suðrið er eitt stærsta og mesta votlendi jarðar, ekki síst með tilliti til þess að svæðið er annað og meira en regnskógarsvæði.

Hvert sem þú ferð í suðrinu er svo ótalmargt að skoða. Suðrið geymir stórfenglegar minjar um menningu og siði þjóðar sem búið hefur á svæðinu  í yfir tvær árþúsundir. Þar finnurðu ótrúlega steinhöggna hella, hallir, grafhýsi, virki og moskur.

Kerala

Fyrir marga ferðamenn er borgin Kerala og svæðið þar um kring eitt það fallegasta á Suður-Indlandi, með sína 600 km af glitrandi ströndum og gróðursælum hæðum sem þaktar eru alls kyns krydd- og tejurtum. Þetta er sálarbætandi staður, hér er sem tíminn standi í stað, og umhverfið er rétt eins og maður hafi fengið sérdíl um að heimsækja sjálft himnaríki sprelllifandi.

Goa

Í borginni Goa finnurðu sól, sand og krydd.  Þetta landssvæði er eitt af fáum sem á sínum tíma var undir valdi Portúgals og þar blandast á skemmtilegan hátt saman indverskir og portúgalskir menningarheimar með dísætri sól, svalandi sjó, sandi og girnilegu sjávarfangi.

Hér er jóga í hávegum haft, og hingað sækir fólk víða að úr heiminum í leit að andlegu jafnvægi og ró. Fullkominn staður til að finna Zen-ið sitt, og í leiðinni geturðu hiklaust líka fundið Tan-ið þitt! Við lofum því að heimsókn hingað mun hafa gríðarleg áhrif á þig, það er enginn staður á Indlandi nálægt því að vera eins og Goa.