Bandaríkin - Tripical

Bandaríkin

Sjá myndir

Bandaríkin

Ameríski draumurinn!

Flestir Íslendingar, eins og aðrir heimsbúar, telja sig vita sitthvað um Bandaríkin, siði þarlendra og menningu. Þessi stórþjóð í vestri hefur í gegnum tíðina haft sterk ítök í menningu annarra landa, sem mörg hver eru undir ákveðnum áhrifum Bandaríkjanna hvort sem það er í mat, tónlist, bíómyndum eða á öðrum sviðum menningar og mannlífs. Þau áhrif segja þó ekki alla söguna. Við hjá Tripical erum einstaklega hrifin af fjölbreytileika Bandaríkjanna og okkur grunar að fleiri deili þeim áhuga. Við viljum því bjóða upp á möguleika á að ferðast til lands tækifæranna, og upplifa nýjar hliðar sem þið hafið jafnvel aldrei séð eða heyrt um.

Við mælum með laginu hér í spilaranum, fyrir rétta múdið. Skelltu þér í huganum með okkur á  þjóðveg 66!


Almennar upplýsingar

  • Fjöldi íbúa: 325.365.189
  • Stærð að flatarmáli: 9.833.520 km²
  • Opinbert tungumál: Enska
  • Gjaldmiðill: Dollari 
  • Hitastig: Fer eftir staðsetningu!
  • Tímabelti: 4 til 10 tímum á eftir Íslandi

Þar sem draumarnir rætast

Bandaríkin bjóða upp á mikinn fjölbreytileika, bæði í náttúrufegurð og mannlífi. Við viljum kynna fyrir þér brot af því besta, og fara yfir það helsta sem finna má og gera í landi draumanna. Hér höfum við eyðimerkur annars vegar, og snæviþakta fjallstoppa hins vegar. Við höfum Suðurríka sveitalubba (e. rednecks) og við höfum snobbaða Upper West Side snyrtipinna. Landið hýsir ýmsa stórborgina, sem hver og ein hefur sín sérstöku einkenni: Los Angeles, San Francisco, Las Vegas, Chicago, Miami, Boston og New York svo dæmi séu tekin.

Í Bandaríkjunum má finna hvorki meira né minna en fjórar milljónir kílómetra af þjóðvegum sem leiða þig á milli frjósamra hveitiakra og stálsteyptra skýjakljúfra.

Norðausturströndin

Samanstendur af níu fylkjum og er það svæði Bandaríkjanna þar sem efnahagur er talinn hvað bestur, hér er mjög þéttbýlt og mikinn menningarlegan fjölbreytileika að finna. Til að einfalda hlutina er norðausturströndinni yfirleitt skipt upp í tvo hluta, Nýja England og Mið-Atlas fylkin.

Fylkin í Nýja Englandi eru Connecticut, Maine, Massachusetts, New Hampshire, Rhode Island og Vermont. Þau eru tiltölulega lítil að stærð, en íbúafjöldi hár. Hér finnurðu m.a. borgirnar Boston, Worcester og Providence. Nýja England býður upp á fjölbreytt tónleikahald, fjörugt háskólalíf, safaríkt sjávarfang og sætt hlynsíróp. Eins og nafnið bendir til, er það hér sem Bandaríkin risu upp í byrjun, með landnemum frá Englandi og öðrum stöðum í Evrópu sem sigldu yfir hafið með drauma sína og væntingar um nýtt og betra líf. Hér býr því mikil saga sem finna má bæði á söfnum, sem og hjá fólkinu og í umhverfinu öllu. Sagan er alls staðar.

Nýja England býður upp á glæsilegar hæðir og fjöll. Þar er um 8000 km  strandlengja sem er sannkallað draumasvæði fyrir vatnstengdar íþróttir. Þar bíða tækifæri til að veiða, synda, skella sér á brimbrettabrun eða í þægilega siglingu. Leyfðu bara hugmyndunum að taka flugið, og á meðan geturðu slakað á í sólbaði. Á svæðinu má einnig finna flott samtímalistasöfn, auk ótal hefðbundinna listasafna, kvikmyndahátíðir og margt fleira. Hér er menningardagatalið einfaldlega pakkað. Ef þú ert að leita að góðum mat finnurðu kræsingar á við Maine humar, Wellfleet ostrur, að ógleymdum hinum eina sanna Vermont bjór.

Vegna þess hversu fjölþjóðlegt svæðið er, eru alþjóðleg áhrif á matarmenningu mikil, og veitingarstaðirnir á svæðinu nýta sér það besta frá öllum heimshornum.

Hin svonefndu Miðju-Atlas fylki eru New Jersey, New York, Pennsylvania Delaware, Maryland, Virginía og Vestur-Virginía. Heimsþekkt fylki og margt og mikið að sjá. Athyglisverð minnismerki bíða þín hvert sem þú snýrð þér, og fjöldinn allur af söfnum og veitingastöðum með matargerð víðs vegar að úr heiminum. Hér er bókstaflega allt sem hugurinn girnist. Önnur ríki á svæðinu bjóða upp á fjölbreytt landslag og fyrir þau ykkar sem viljið ekki fara hina hefðbundnu leið og kynnast svæðinu á annan hátt en með því að skoða stórborgir, má í staðinn skoða fjöll og fyrnindi, tjalda, fara í siglingar um fljótin, leggjast á glitrandi strendur og ganga um söguleg þorp sem taka mann til upprunans, og minna okkur  á fyrstu ár hvíta mannsins í þessu stórbrotna landi.

Vesturströndin

Villta vestrið! Þetta svæði Bandaríkjanna er gífurlega stórt að flatarmáli og þar eru ríkin þrettán að tölu. Þeirra þekktust eru Kalifornía, Coloradó, Nevada, Nýja-Mexíkó og Washington. Á síðari árum hefur hér gríðarleg íbúafjölgun átt sér stað, vegna fólksflutninga bæði frá miðríkjum og norð-austurströnd landsins. Á svæðinu eru ófá náttúruundur: Nevada eyðimörkin, Yosemite þjóðgarðinn, Klettafjöllin (e. Rocky Mountains) og Miklagljúfur (e. Grand Canyon), svo fátt eitt sé nefnt. Ekki má heldur gleyma hinni afar stóru strandlengju sem svæðið dregur nafn sitt af. Helstu og þekktustu borgirnar eru Los Angeles, San Francisco, Phoenix og Las Vegas, allar með sinn einstaka persónuleika og sérstöðu. Hollywood glamúrinn endurspeglast alls staðar í borg englanna, Los Angeles. Denver býður upp á fjölbreytta möguleika til hvers kyns útivistar. Hin listræna og sögufræga Santa Fe er heill heimur út af fyrir sig. Goðsagnakenndir staðir og magnað landslag gerir vesturhluta Bandaríkjanna að spennandi áfangastað fyrir ævintýrafólk, stórstjörnur, og alla aðra!

Náttúruundrin hér gera ferðina þína að mikilli veislu. Rauðir klettar, gljúfur og eyðimerkur svo langt sem augað eygir. Paradís fyrir göngu-  og hjólreiðafólk. Í norðurhlutanum er svo allt annað uppi á teningnum, en þar er hægt að skella sér á skíði og snjóbretti í einum mögnuðustu skíðabrekkum heimsins.

Í matargerð er hér mikið unnið með hráefni af svæðinu, hvort sem það er úr sjó eða af landi, og vín af nærliggjandi ekrum drukkið með. Þú finnur alls konar mat, en þó má segja að sterkra áhrifa gæti frá mexíkóskri matarmenningu.

Vestrið býður kannski ekki upp á endalaust magn af söfnum, en í staðinn geturðu eytt tíma þínum hér í að skoða landslagið og náttúruna allt í kring. Þú getur auk þess sótt messu í einni af fjölmörgum kapellum í LA, grandskoðað yfirgefna draugabæi og jafnvel kíkt í heimsókn í Kísildal San Francisco, þar sem öll helstu tæknifyrirtæki heimsins hafa aðsetur. Þannig getum við sérsniðið þína persónulegu og einstöku upplifun af hinu villta vestri.

Suðurfylkin

Suðurhluti Bandaríkjanna aðgreinir sig frá öðrum svæðum landsins með nokkuð afgerandi hætti, og greina má þann mun á mörgum sviðum, eins og t.d. í tónlist, matargerð, bókmenntum sem og annarri menningu. Hér talar fólk hreinlega öðruvísi, með sínum heimsþekkta Suðurríkjahreim. Og saga Suðurríkjanna er auðvitað stórbrotin og mikil, eins og í öðrum hlutum Bandaríkjanna, saga sigra og ósigra, falleg saga en einnig grimm og blóðug.

Hér eru fjöllin gróf og grýtt, skógarnir þykkir, árnar breiðar og langar. New Orleans færir þér djass og blús á heimsmælikvarða, hitabeltisloftslag Florida fylkis laðar til sín sólþyrsta gesti ár hvert.  Enn austar liggja svo strandfylkin  Suður- og Norður-Karólína. Ofar á kortinu finnurðu svo Tennessee fylki, sem með réttu má kalla mekka kántrýtónlistarinnar. Síðast en langt því frá síst ber svo að nefna sjálfa höfuðborg Bandaríkjanna, en heimsókn þangað má sannarlega finna á bucket listum fólks um allann heim.

Og svo er það auðvitað og að sjálfsögðu Texas! Risastór, með stórborgir og smábæi, kúrekahatta, olíukónga og íííhhaa. Flestir hafa sínar eigin hugmyndir um þetta magnaða fylki. Það er vel þess virði að taka sér ferð á hendur og kanna hversu mikið þær hugmyndir eiga við rök að styðjast. Við mönum þig!

Miðfylkin

Eina svæðið af þeim fjórum sem hér eru upptalin, sem liggur ekki að sjó. Hins vegar eru hér afar stór og mikil vötn, eins og Michigan-vatn og Superior. Stærstu borgirnar eru meðal annars Chicago, Detroit, Minneapolis og Cleveland. Þessu svæði er oft skipt í tvennt, sléttusvæðið annars vegar og vatnasvæðið hins vegar. Skiptingin snýr ekki eingöngu að ólíku landslagi, því svæðin eru auk þess mjög ólík þegar kemur að menningu og samfélögum.  Ef þú vilt upplifa hinn svokallaða sanna miðvesturs lífsstíl þá eru Kansas, Iowa, Dakota og Nebraska réttu fylkin fyrir þig, en þau tilheyra sléttusvæðinu. Vatnahlutinn er svo meira í ætt við það sem þú finnur í Boston og New York.  Þá má ekki gleyma einu helsta kennileiti miðríkjanna, Rushmore fjallinu, þar sem andlit fyrri tíma Bandaríkjaforseta eru meitluð í klettabeltið.

Chicago er oft nefnd sem höfuðborg miðríkjanna. Oft kölluð Borg vindanna og þekkt fyrir lestarkerfi sem er ofanjarðar og glæstum arkitektúr sem auðveldlega má gleyma sér við að skoða. Við mælum líka með því að hafa beltið ekki of þétt spennt um strenginn, því það er gott að borða í Chicaco, og endalaust magn af veitingastöðum af öllum stærðum og gerðum, þar sem kokkarnir leika sér nokkuð léttilega við bragðlaukana þína. Þeir sem vilja upplifa alvöru íþróttastemmingu eru aldeilis á réttum stað.

Bandaríkin Mexíkó

Útskriftarferð til New York OG Cancun

Tripical býður upp á stórskemmtilega blöndu af borgarspennu og suðrænni slökun. Eitt stykki ógleymanlegt ævintýri á silfurfati, fullt af skemmtun og gleði. Komdu með okkur í útskriftarferð til New York og Cancún í Mexíkó! NEW YORK Borgin sem aldrei sefur,...