Dublin í Írlandi
Íslendingar elska Írland og Íra. Landið græna er ægifrítt og með Írum hlæjum við að sömu bröndurunum, við skiljum kaldhæðnina og glottum á sama tíma út í annað. Mögulega er sitthvað til í kenningum um að tengsl okkar séu meiri en áður var talið… ætli við séum blóðskyld? Hvað sem veldur er alltaf gott og gaman að fara á írskar slóðir, og höfuðborgin Dublin er þar ákjósanlegur valkostur. Eins og skemmtilegum borgum sæmir, hentar hún jafnt A-týpum sem B-týpum. Morgunhani eða nátthrafn? Dublin er æði fyrir bæði! Tripical býður upp á hópferðir til Dublin og okkur langar aðeins að nefna nokkrar ástæður fyrir þig til að hendast í tölvuna og panta þér far.
Skoðaðu hópferð til Dublin hérna.
Dublin Castle
Þessi tilkomumikli 800 ára gamli kastali sést vel þar sem hann stendur stoltur á hæð sinni og gnæfir yfir borgina. Hann er upphaflega frá 13. öld, en hefur í gegnum tíðina gengið í gegnum endurbætur, sem sjá má á seinni tíma byggingarstílum hans, en á 18. öld var talsvert af byggingum bætt við hann. Kastalinn nær yfir 11 hektara svæði og hefur í gegnum tíðina sinnt hlutverki hervirkis, fangelsis, fjársjóðageymslu, dómshúss, auk þess sem hann var í mörg ár höfuðstöð bresku stjórnarinnar á Írlandi. Hægt er að ganga um hina fjölmörgu byggingarhluta og herbergi með eða án leiðsagnar og kynna sér hvernig fyrri kynslóðir bjuggu og lifðu. Þarna er að finna hin ýmsu söfn, þar er bókasafn, kaffihús og utandyra eru falleg útisvæði og garðar.
Kilmainham Gaol fangelsið
Heimsókn í þetta yfirgefna fyrrum fangelsi er skylda fyrir alla sanna söguunnendur. Miðaverð er lágt, og innifalið er 50 mínútna skoðunarferð með leiðsögumanni sem leiðir þig í allan sannleika um það lykilhlutverk sem fangelsið gegndi í dramatískri sögu lands og þjóðar. Segja má að Kilmainham hegningarnýlendan hafi á 19. og 20. öld verið nokkurs konar hreinsunareldur, þaðan sluppu fangar annað hvort aftur út í frelsið, eða voru fluttir alla leið til Ástralíu. Hér er nokkuð langt í fegurðina, hér var bæði mönnum, konum og börnum haldið í gíslingu fyrir litlar sakir og aðstæðurnar hrikalegar. Hægt er að fara inn í klefana, sjá persónulegar eigur fanga, lesa bréfin þeirra. Heimsókn hlaðin sorg en um leið því mikla baráttuþreki sem í Írum býr.
Guinness Storehouse
Árið 1759 skrifaði Arthur Guinness undir leigusamning fyrir St. James’s Gate brugghúsið í Dublin og byrjaði að brugga. Meira en 250 árum síðar er Dublin enn samheiti Guinness vörumerkisins, og Guinness Storehouse einn vinsælasti ferðamannastaður á öllu Írlandi. Hér færðu, á sjö hæðum, írska bruggsögu beint í æð, sögu Guinness fjölskyldunnar, kynningu á hráefnum og innsýn í hvernig þessi ástsæli bjór er framleiddur til fullkomnunnar. Ferðin endar svo á Gravity Bar efst á 7. hæð, þar sem þú getur notið hressandi lítra af Guinness með 360 gráðu útsýni yfir Dublinarborg.
Ýttu hér til að skoða fleiri hópferðir sem eru í boði hjá Tripical!
The Irish Whiskey Museum
Frábær blanda af því besta við Írland, safaríkri sögu og bragðgóðu áfengi. Safnið er til húsa í sögulegri byggingu nálægt miðbænum og samanstendur af umfangsmiklum viskíbar, fjölbreyttum sögusýningum, smakkstofu og vel búinni minjagripabúð. Ólíkt öðrum svipuðum stöðum er írska viskísafnið algjörlega sjálfstætt og ekki styrkt af neinu ákveðnu viskímerki. Hér fá því allar viskítegundir sitt pláss og hægt er að smakka á miklu úrvali viskídrykkja.
Spennandi barir
The Temple
Mögulega einn af þekktustu börum í allri Dublin, og hingað streymir ferðafólk hvaðan æva að. Saga staðarins nær aftur til fyrri hluta 14. aldar og enn í dag er hann í fullu fjöri. Vel áberandi, málaður í eldrauðum lit, á besta stað í borginni og hluti af eldfjörugu næturlífi borgarinnar. The Temple er mjög vinsæll meðal heimamanna og tilvalinn til að upplifa ekta írska kráarstemmingu.
The Church
Einn af sérstæðustu og fallegustu börum borgarinnar, og þar fer fram allt annað en heilagar guðsþjónustur. Byggingin er reyndar fyrrum kirkja, og hét áður Maríukirkja, en henni var lokað árið 1964. Frá árinu 2007 hefur þarna verið starfræktur bar og næturklúbbur. Á aðalhæðinni er að finna stórkostlegan eyjabar sem nær yfir endilanga kirkjuna, umkringdur básum og borðum fyrir gesti. Altarið gamla er nú lítið svið þar sem leikin er lifandi írsk tónlist, í bland við dantónlist frá plötusnúðum fram á nótt.
Whelan’s
Bar, næturklúbbur og tónleikastaður. Þrjár hæðir, tvö svið. Hér finna allir skemmtanaþyrstir eitthvað við sitt hæfi til að dansa við. Á veggjum hanga myndir af þeim aragrúa af stjörnum sem stigið hafa hér á stokk, allt frá Jeff Buckley til Ed Sheeran og Mumford & Sons. Nálægt Whelan’s er fjöldinn allur af frábærum veitingastöðum, þú getur til dæmis fengið þér djúsí hamborgara á Bunsen, ljúffenga spænska rétti á Las Tapas de Lola, eða klassískan og þjóðlegan írskan mat á Delahunt, en þar snæddu einmitt Harry prins og Megan á ferð sinni um borgina.
Johnnie Fox’s Pub
Þegar staðið er fyrir utan barinn er erfitt að gera sér grein fyrir fjörinu innan dyra. Johnnie Fox´s Pub er falinn djúpt inni í fjalli, karakterríkur staður, lágt til lofts og eldur í arninum. Í loftinu eimur af brenndum viði og eldhúsið býður upp á írska þjóðlega rétti. Það er ekki laust við að hér sé smá hobbitastemming.
Þetta er pöbbarölt!
Eins og gefur að skilja skipta krár, barir og skemmtistaðir hundruðum ef ekki þúsundum í Dublin. Miðbærinn lyftir hugtakinu ,,pöbbarölt“ hreinlega í nýjar hæðir. Hér geta almennilegir nátthrafnar auðveldlega skemmt sér fram á morgun. Og gefa svo morgunhönunum sem þau mæta í hótelandyrinu fimmu áður en skriðið er upp í.
Tréð sísvanga
Þú gætir hafa séð nafninu The Hungry Tree bregða fyrir og velt því fyrir þér hvað það þýði. Svarið við því er þetta: Eitt af ævagömlum trjám í Kings Inn tók upp á því að vaxa yfir einn af bekkjunum í garðinum og er hægt og rólega að éta hann upp til agna! Tréð gráðuga hefur hlotið þó nokkra athygli með hjálp samfélagsmiðla og tilvalið að kasta á það kveðju og ná eins og einni mynd í leiðinni.