Góðir farþegar. Í vor lendum við mjúklega á aðalflugvelli paradísareyjunnar Krít við Grikklandsstrendur. Búið ykkur undir ógleymanlega og hreint út sagt stórkostlega dvöl í útskriftarferðinni ykkar. Af því að Krít er Æ Ð I!!
Við gistum á besta stað á eyjunni, í bænum Hersonissos, sem á árum áður var fiskiþorp en hefur vaxið og stækkað og er nú einn af bestu ferðamannastöðum Krítar. Þar er nákvæmlega allt sem hugurinn girnist. Stemmingin er dásamlega afslöppuð, og mikið úrval er af frábærum veitingastöðum, börum og klúbbum. Þar á meðal er Palm Beach, sem er af mörgum talinn besti klúbburinn á allri eyjunni, og hann er bara í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá hótelinu! Fyrir neðan hótelið eru líka geggjaðar strendur, fyrir þau sem vilja taka pásu frá bakkanum á hótelsundlauginni.
Við Palm Beach er svo sundlaugagarðurinn Star Beach þar sem finna má stórskemmtilegar rennibrautir, leigja sér bekk og flatmaga í sólinni, eða fara á ströndina fyrir neðan og prófa teygjustökk, sjóskíði, fallhlífasvif eða hvað annað sem þig langar. Star Beach er í raun svokallaður Day ‘N night skemmtistaður því þegar myrkrið skellur á er keyrt upp í ljósunum, tónlistin hækkar og barþjónarnir byrja að sveifla flöskum og blanda kokteila.
Þau sem langar að kíkja út úr bænum og skoða sig um, eiga sannarlega ekki í neinum vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi. Í Hersonissos er afar auðvelt að leigja sér bíl á lágu verðu og hægt að mæla með að keyra í áttina að höfuðborg eyjunnar, Heraklion, eða enn lengra, í vinsæla bæi eins og Chania og á enda eyjunnar þeim megin og kíkja á bleiku ströndina (Elafonissi Beach). Ef ekið er í hina áttina taka líka við skemmtilegir bæir eins og Malia, sem er gamall og einstaklega sjarmerandi hippabær, og Stalia sem er rólegur og kósý strandbær.
Það er auðvelt að benda á fleira skemmtilegt. Þau sem hafa áhuga á fornminjum ættu að heimsækja Knossos Palace, þau sem langar í meira vatnastuð ættu að hrimsækja vatnagarðinn Watercity (en þangað eru reglulegar rútuferðir frá Hersonissos) og þau sem þrá að missa sig í einstakri fegurð geta t.d. farið í bátsferð til Crissi Island, sem hefur verið nefnd ein af fegurstu eyjum Miðjarðarhafsins, eða til bæjarins Santorini sem þykir einn af þeim fallegustu og rómantískustu í heimi, hvorki meira né minna.
Í rauninni er þetta engin spurning! Pantaðu ferð með okkur til Krítar til að halda upp á útskriftina þína. Við lofum yndislegum tíma, fullt af skemmtilegum minningum og gleði sem eiga eftir að fylgja þér alla ævi.
Grikkland er draumaáfangastaður. Þegar sýningar á kvikmyndinni Mamma Mia! hófust um víða veröld fyrir nokkrum árum jókst áhugi á landinu til mikilla muna. Atriði í þeirri yndislegu mynd vekja vissulega sterka löngun til að pakka niður í tösku, hætta í vinnunni og taka fyrsta flug til Grikklands, sigla á milli hinna óteljandi eyja landsins (sem eru einhvers staðar á milli 1.200 til 6.000 talsins!) þar sem sólardagar eru um 250 á ári.
Fá lönd eiga jafn langa og viðburðaríka sögu og Grikkland, sem rekur uppruna sinn allt til ársins 1600 fyrir Krist. Landið er alla jafna álitið vagga vestrænnar siðmenningar og í dag hafa ferðamenn tækfæri til að kynna sér gríska sögu allt frá steinöld til rómverska tímabilsins, á hundruðum fornleifasvæða og á söfnum víða um landið. Saga Grikklands setur mark sitt á hvert götuhorn borga og bæja, hvert sem litið er má finna einstök verk frá miðalda-hellenískum og býsantískum tíma, leifar frá annarri siðmenningu og fyrri trúarbrögðum. Grikkir leggja áherslu á að hið forna samræmist nútíma byggingalist og listsköpun síðari tíma, og gamalt og nýtt kallast þannig skemmtilega á í Grikklandi nútímans. Landið er paradís fyrir þá sem hafa áhuga á menningu, sögu og listum.
Hvort sem þú vilt áhugaverðar skoðunarferðir, fullkomna slökun og ró við ströndina eða langar að svala adrenalín fíkn þinni af fullum krafti, mun Grikkland heilla þig upp úr skónum. Hér er allt svo auðvelt og afslappað, það er rétt eins og tíminn stöðvist undir þessum dásamlega bláa himni, og mjúk sjávargolan kælir þig niður á meðan þú litast um við strendur drauma þinna. Gakktu meðfram ströndum og upp á fjall Guðanna, nú eða farðu um á hjóli, það er líka hægt. Njóttu dásamlegrar náttúru, eða leitaðu að fjársjóði í aldagömlu skipsflaki.
Maturinn í Grikklandi er algjör veisla. Hér hefurðu hinn rómaða Miðjarðarhafsmat (Mediterranean food) með ýmsu ívafi og varíasjónum. Grikkir eru að sjálfsögðu afar stoltir af sínum eigin réttum, en leyfa sér þó hiklaust að leita á aðrar slóðir og finna má bæði tyrknesk og asísk áhrif í grískri matargerð. Þá er vel hægt að setjast á veitingastaði þar sem viðhafðar eru aldagamlar eldunaraðferðir, og réttir bornir fram sem fara með þig aftur í fornöld. Hér er semsagt margt annað að hafa á diskinn en moussaka og tzatziki,og ef þú ert ein/nn af þeim sem ert alltaf svangur, þá ertu á heimavelli. Þú færð til dæmis Souvlaki á hverju götuhorni. Víðs vegar eru auk þess „gourmet“ staðir þar sem Michelin kokkar töfra fram dýrindis rétti. Smakkaðu kryddjurtir sem þú hefur hreinlega aldrei heyrt um, eða kjamsaðu á krækling beint úr sjónum, með nýbökuðu ólífubrauði og ferskum feta osti.
Grikkir lifa ástríðufullu lífi sínu til hins ýtrasta og okkur finnst að þú ættir að gera nákvæmlega það sama!
Höfuðborg Grikkja, Aþena, er ein elsta borg heims og saga hennar spannar hátt í 3.400 ár. Borgin er staðsett við suð-austurströnd Grikklands með um þrjár milljónir íbúa. Hún er umvafin fjórum háum fjöllum og byggð á fjölmörgum misstórum hæðum. Hitastigið er allt frá 20°-29° frá maí til september og 10°-16° aðra mánuði ársins. Aþena er sögð vera fæðingarstaður lýðræðisins, hún er miðstöð lista, menntunar og heimspeki, heimastaður Sókratesar, Platós og Aristótelesar.
Grikkir eru mjög opnir, vingjarnlegir og hjálpasamir. Ef þú segir „kalimera“ í staðinn fyrir „good morning“ uppskerðu breitt bros. Þeir eru líka fjörugir og skemmtilegir, tala mikið með höndunum, ef ekki öllum líkamanum. Þeir eru vanafastir varðandi allt hið daglega, og halda fast í góðar hefðir og venjur, eins og til dæmis að á sunnudagsmorgnum sest öll fjölskyldan saman og borðar. Aþena er þess vegna full af „brunch“ veitingastöðum þar sem gestir og heimamenn geta gætt sér á frábærum mat. Aþena dagsins í dag er á margan hátt lík fjölmörgum stórborgum, þar er ys og þys og hún hávær, gömul og ný.
Hægt er að njóta Aþenu á svo margvíslegan hátt. Hér eru aðeins örfá dæmi af löngum lista. Þú getur farið í girnilegan matarleiðangur (sem er frábær leið til að hitta og kynnast lókalnum).
Heimsókn á Laiki markað, sem finna má í hverju hverfi er bráðnauðsynleg, þar er gnægð af ólífum, ávöxtum og margskonar grænmeti, flest allt beint frá býli, hvaðanæva af landinu.
Ef þú vilt vera mjög menningarleg/ur geturðu skellt þér á grískan harmleik í einhverju af fjölmörgum leikhúsum borgarinnar (leiklist nútímans er jú upprunin í Aþenu), og ef þig langar ekki að sjá leikrit er líka hægt að fara í útibíó, en þau eru ansi vinsæl í Grikklandi. Menningarvitinn missir heldur ekki af Parthenon, Akropolis, Þjóðarskrúðgarðinum, Þinghúsinu ofl. Svo er auðvitað hægt að finna náttúruferðalanginn í sér og skoða strendur og fjöll í kringum borgina, sigla jafnvel til nágrannaeyjanna. Frábær leið til þess að komast frá hinu daglega borgarlífi!
This is my Athens er verkefni sem sett var af stað fyrir nokkrum árum. Þar fara heimamenn sem gjörþekkja borgina með gesti í gönguferðir og skoða áhugaverða staði sem margir hverjir eru óþekktir hinum almenna gesti. Leiðsögufólk í þessum ferðum eru sjálfboðaliðar, ekki leiðsögumenntaðir, og ekkert gjald er tekið fyrir gönguna.
Höfuðborg Krítar er Heraklion, einnig kölluð Iraklio. Borgin er fimmta stærsta borg Grikklands og í henni er að finna stórbrotið samsafn af sögulegum byggingum og svæðum. Þar á meðal má nefna hið fræga Heraklion fornleifasafn og Höll Knossos, sem bæði gefa góða innsýn inni í fornöld Krítar. Höll Knossos er að finna í gömlum bæ rétt fyrir utan Heraklion og við mælum hiklaust með heimsókn þangað. Þú verður ekki fyrir vonbrigðum!
Einnig er gott að leyfa sér bara að ráfa um og villast í Heraklion. Borgin er ekki risavaxin og þannig áttu möguleika á að kynnast öllum krókum hennar og kimum, kaffihúsum, börum, söfnum og ef þú bíður fram á kvöld: skemmtilegu næturlífi.
Í um 25 km. fjarlægð frá höfuðborginni er bærinn Hersonissos, sem hefur á síðari árum vaxið úr litlum fiskveiðibæ, yfir í einn stærsta og vinsælasta ferðamannabæ eyjunnar yfir sumartímann. Frábær hótel, skemmtistaðir, kaffihús og strendur prýða þennan fallega stað.
Annar fallegur staður er borgin Chania (einnig skrifað Hania), sem hefur löngum verið einn vinsælasti ferðamannastaður Krítar. Hún þykir minna um margt á sjálfar Feneyjar, með sínum þröngu stígum þvers og kruss, heillandi höfnum og sérstökum fornum byggingarstíl.
Suðaustur af meginlandi Grikklands, skammt frá Krít, er svo hin stórfenglega Santorini eyja. Í útliti er Santorini eins og risastór lagskipt kaka, með sínum háu mislitu klettum, og stórglæsilegri húsaþyrpingu, sem er eins og hvítt súkkulaði sem klettatoppum eyjarinnar hefur verið dýft í. Meira að segja strendurnar minna helst á kökukrem í ýmsum litum. Eyjan er mjög vinsæl meðal listafólks sem dvelur þar um lengri eða skemmri tíma. Þar eru glæsilegar vínekrur og frábærir gististaðir.
Ef þú ákveður að dvelja næturlangt á Santorini mælum við með að þú komir þér vel fyrir rétt áður en að sólin sest, en endurspeglunin af hvítu húsunum og rauðu og appelsínugulu klettunum verður að geysifallegu sjónarspili sem seint mun gleymast.
Porto Greco Village Beach Hotel er staðsett í miðri Hersonissos og býður upp á 5 útisundlaugar, 2 veitingastaði, þar af einn með verönd með sjávarútsýni og strandbar-veitingastað.
Öll herbergin á hótelinu eru með setusvæði. Sérbaðherbergið er með baðkari eða sturtu, ókeypis snyrtivörum og hárþurrku. Herbergin á Porto Greco Village Beach Hotel eru með loftkælingu og flatskjásjónvarpi.
Gestir geta byrjað daginn á morgunverðarhlaðborði sem borið er fram daglega í matsalnum. Hægt er að njóta grísks og alþjóðlegs bragðs í hádeginu eða á kvöldin á veitingastöðum staðarins, drykkir og kokteilar eru einnig í boði á strandbarnum allan daginn.