Höfuðborg Írlands og órjúfanleg írskri sögu og menningu. Menningarborg stórskálda með glæsilegum dómkirkjum, einstökum hverfum, ótal söfnum og hinum sögufræga Trinity College. Dublin býður upp á líflega tónlist og ríka kráarmenningu með glaðlyndum íbúum þar sem skemmtun er á hverju horni.
Tripical býður kennurum og öðru starfsfólki skóla upp á fræðandi og skemmtilega kennaraferð og skólaheimsókn til menningarborgarinnar Dublin. Þar munum við kynnast frábrugðnu skólakerfi í glæsilegu umhverfi og fræðast um áhugaverða sögu og menningu ásamt góðum skammti af skemmtun. Í skólaheimsóknum okkar leggjum við alltaf áherslu á að heimsækja áhugaverða skóla sem eru leiðandi í kennslu, hver á sínu sviði.
Við bjóðum upp á margar fræðandi kynnisferðir um borgina og merka staði og erum alltaf tilbúin til að skipuleggja skemmtilega viðbótardagskrá og kynnisferðir eftir séróskum hvers hóps. Við hjá Tripical viljum einnig að makar séu velkomnir með í kennaraferðir okkar og því bjóðum við mökum alltaf upp á sérstaka skemmtidagskrá meðan á skólaheimsóknum stendur svo allir geti notið ferðarinnar sem mest.
Dublin hefur verið í deiglunni síðan á 9. öld þegar víkingar settust þar að og stunduðu þaðan rán sín um Bretlandseyjar allt fram á 12. öld. Leifar fortíðar víkinga eru nú löngu afmáðar í borginni en Dublin er engu að síður opið sögusafn með miðaldarkastölum og dómkirkjum við hlið fágaðra 18. aldar bygginga þegar Dublin var ein glæsilegasta borg breska heimsveldins og endurspeglaði metnað írsku yfirstéttarinnar. Hvernig Írar misstu síðan völd og áhrif yfir sínu eigin landi er önnur saga og þú munt ekki komast hjá því að fræðast um það í einhverjum af þeim fjölmörgu kynnisferðum og söfnum sem borgin býður upp á.
Dublin er ekki kölluð pöbbaborgin af ástæðulausu. Í borginni er fjöldin allur af börum, veitingastöðum og klúbbum þar sem finna má fjölbreytta stemmingu. Margir vilja meina að Dublinarbúar séu glaðlyndasta fólk sem til er og taka ferðamönnum með opnum huga og af kurteisi. Dublinarbúar eru einnig alþekktir fyrir sína bjórmenningu og Guiness bjórinn er eitt af því sem þeir eru mjög stoltir af ásamt góðu írsku viský. Það er frábært að rölta um miðbæ Dublinar og kíkja á veitingastaði eða verslanir og spjalla við fólkið sem býr í þessari merkilegu borg.
Þeir sem vilja kynnast Dublin vel ættu að byrja á því að rölta niður með ánni Liffey. Hún liggur í gegnum helstu hluta borgarinnar og gefur þeim sem ganga meðfram bakka hennar góða yfirsýn á það sem Dublin býður upp á. Áin skiptir borginni í tvennt, norður og suður hluta.
Það má segja að í Dublin megi finna verslunargötur við allra hæfi. Þar eru tískubúðir sem bjóða upp á allt það nýjasta sem finnst í tískuheiminum. Tvær helstu verslunargötunar eru staðsettar sitthvorum megin við ána og því er auðvelt að eyða heilli helgi að rölta um, versla og njóta mannlífsins.
Það er eitthvað mjög aðlaðandi og viðkunnanlegt við Írland og þjóðina sem þar býr. Þessi græna eyja býr auðvitað yfir einstakri fegurð og dramatísku landslagi, hrífandi fjöllum, gróskumiklum hlíðum og stórfenglegri strandlengju. Á víð og dreif eru kastalar, stórbrotin mannvirki fyrri alda. Írskar borgir eru einnig hlaðnar sögulegum kennileitum sem blandast á skemmtilegan hátt við líflegan nútímann – og alls staðar, hvort sem er í borgum, bæjum eða sveitum, finnurðu sanna æðrulausa írska gleði, stundum dass af kaldhæðni, en ávallt mjög stutt í bros á vör og góða skemmtun. Ýmsir fræðimenn halda því fram að við Íslendingar séum að allstórum hluta komin af Írum. Kannski þess vegna sem okkur finnst þau svona frábær. Kannski þess vegna sem við ættum að drífa okkur í heimsókn.
Almennar upplýsingar
Landfræðilega skiptist Írland annars vegar í lýðveldið Írland, sem nær yfir um 5/6 hluta eyjarinnar með um 5 milljónir íbúa, og hins vegar Norður-Írland sem tilheyrir Bretlandi, með tæplega 2 milljónir íbúa. Þetta gerir landið að næst fjölmennustu eyju í Evrópu, á eftir Stóra-Bretlandi.
Ekki er vitað með vissu hvenær hinir svokölluðu Keltar gerðu Írland að sínu, en ljóst er að þeir réðu þar lögum og lofum um aldir og þaðan kemur hin írska arfleifð að langmestum hluta. Hin keltnesku áhrif má finna alls staðar, í tungumálinu, tónlist, dansi, og annarri listsköpun. Írar fengu eins og aðrir að kenna á ránsferðum víkinga, sem voru hvað stórtækastar í kringum 10. öld, með miskunnarlausum árásum á klaustur og bæi, og sköpuðu óöld og væringar sem entust langt inn í miðaldir.
Sjálfstæði Írlands er tiltölulega ungt. Á miðöldum einkenndist Írland af fjölda lítilla jarlvelda, sem oft mynduðu breytileg bandalög sín á milli, en á 17. öld varð landið nýlenda Englendinga, og formlega sameinað Bretlandi árið 1801. Í byrjun 20. aldar hófst gríðarmikil barátta um eigið sjálfstæði, sem leiddi að lokum til stofnunar írska lýðveldisins 1949.
Helstu borgir í Írlandi eru höfuðborgin Dublin, en næst stærst er Cork, sem þekkt er fyrir góðan mat og bari, verslanir og fjör. Þá má einnig nefna Galway, sem stendur við ánna Corrib, Killarney sem er ein af vinsælustu áfangastöðum á Írlandi og Kilkelly sem er annar vinsæll bær. Ef nefna ætti fleiri vinsæla áfangastaði komast Moher björgin (Cliffs of Moher) ofarlega á blað, en þau standa tignarleg á vesturströndinni.
Dagskrár hverrar fræðsluferðar er háð ferðadagsetningum hverju sinni. Dagskrá sem er innifalin í starfsferðum Tripical eru vinnustaðarheimsóknir/fræðsla sem er sniðin að þörfum hvers hóps.
Starfsferðir eru hálfgert dómínó og ekki alltaf ljóst hvað er hænan og hvað er eggið. Að því sögðu þá þekkjum við viðmið til að fá styrk og hvaða gögn þið þurfið. Það getur tekið okkur tíma að fá fullnægjandi gögn en við höfum fengið A+ í kladdann hjá sjóðunum og komið öllum út sem hafa tekið tilboði frá okkur. Við leggjum alltaf mikið upp úr fræðsluhlutanum og reynum að gera ferðina ykkar gefandi, áhugaverða sem og skemmtilega.
Áður en fræðslufúsir ferðalangar leggja í hann, fær forsvarsmanneskja hópsins nákvæma dagskrá og öll nauðsynlegum gögn sem tengjast ferðinni. Svo bara læra, lifa og njóta!