Flugáætlanir:
3.-7. júní 2025
10.-14. júní 2025
Borgin ósigrandi -Þessi flotti titill sem stundum er notaður á Porto er upphaflega ættaður frá frelsisbaráttu borgarinnar í kringum 1832, en í dag er hann lýsandi fyrir það mikla stolt sem íbúar þar bera í brjósti. Hér má finna mjög heillandi blöndu hins hrjúfa og fagra, þess gamla og nýja og litríka sögu í nútímalegri borg.
Porto er ekki stór, í kjarna hennar búa aðeins um 300.000 manns. Borgin er hæðótt og byggð í bröttum fjallshlíðum meðfram ánni Duoro. Sum hverfi hennar standa hreinlega í miðju klettabelti, skemmtilega samsett af fornum miðaldarbyggingum og fínni híbýlum úr nútímanum. Á milli borgarhæðanna eru víðsvegar stígar hamraðir í grýtta jörðina, og bjóða upp á hressandi gönguferðir með stórkostlegu útsýni.
Lengi vel var Porto talin gróf og óálitleg verslunarborg í niðurníslu en þar hafa aldeilis orðið mikil stakkaskipti. Á síðustu áratugum hefur verið ráðist í gríðarlegar endurbætur og upplyftingu víða í borginni og borgin ósigrandi í kjölfarið klifið upp lista yfir vinsælustu áfangastaði í Evrópu.
Miðbær Porto fór á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1996, en þar hefur byggð haldist óslitið allt frá 4.öld! Það er mögnuð upplifun að ganga um þessar fornu slóðir sem enn í dag iða af mannlífi og miklum lífskrafti. Sama má segja um Ribeira hverfið sem er í næsta nágrenni við árbakka Duoro. Skoðunarferð þangað hverfur seint úr minni.
Í borginni er sannarlega að finna mikið úrval af gæðaveitingastöðum. Þeir eru staðsettir hér og þar, en flesta má finna í Matosinhos hverfinu við ströndina, og því upplagt að kíkja þangað til að gleðja bragðlaukana. Hinum dæmigerða Portobúa er alls ekki sama um hráefnið í matargerð og það er vel þess virði að fara á markaðinn Mercado do Bolhao, finna sér eitthvað gott að smakka á og ekki síður að upplifa heimafólk í kaupessinu sínu.
Þetta hótel er miðsvæðis við göngugötusvæði Porto. Það er í 5 mínútna göngufjarlægð frá São Bento-lestarstöðinni. Það er með þakverönd og à la carte veitingastað sem framreiðir portúgalska matargerð.
Glæsileg herbergin á Grande Hotel do Porto eru með flatskjásjónvarpi með gervihnattarásum, minibar og sérbaðherbergi með baðkari og sturtu.
D. Pedro II Restaurant býður upp á rómantískt andrúmsloft og er staðsettur í enduruppgerðum danssal. Í boði er ósvikin portúgölsk matargerð þar sem notast er við hráefni úr héraðinu. Drykki er hægt að njóta á Windsor Bar.
Gestir geta dást yfirgripsmiklu útsýninu yfir Porto frá veröndinni, æft í líkamsræktinni eða slakað á í nuddi.
Þægileg aðstaða Grande Hotel do Porto innifelur þvottaþjónustu, barnapössun og gjaldeyrisskipti.
Grande Hotel Do Porto er steinsnar frá Bolhão strætisvagna- og neðanjarðarlestarstöðinni og í 10 mínútna göngufjarlægð frá Serra do Pilar-klaustrinu. Francisco Sá Carneiro-flugvöllur er í 15 km fjarlægð frá hótelinu.
Hótelið fær heildareinkunn 8,9 og einkunn 9,7 fyrir staðsetningu á booking.com.
Í Porto er fjögurra stjörnu Eurostars Heroismo staðsett rétt fyrir framan Heroismo-metrarstöðina og þar eru einnig frábær bílastæði. Í miðborg Porto er Aliados-stræti í aðeins 1,5 km fjarlægð en í 15 mínútna göngufæri er árbakkasvæðið í Douro.
Í þægilegum herbergjum Heroismo er vinnuborð, loftræsting og flatskjár, auk WiFi aðgangs og minibars. Í hverju baðherbergi er bað- eða sturtuaðstaða og hárþurrka og frítt er í salernisaðstöðu.
Morgunverðarþjónusta er í boði á hverjum morgni á Eurostars veitingastaðnum þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval ferskra staðbundinna afurða. Gestir hótelsins geta fundið fjölbreytt úrval vinsælla veitingastaða og matsölustaða í hinni sögufrægu miðborg Porto sem er í stuttri neðanjarðarlest frá. Einnig er boðið upp á herbergisþjónustu gegn aukagjaldi.
Sögufrægur Clérigos turn og São Bento-lestarstöðin eru í 15 mínútna göngufæri. Í 20 mínútna göngufæri er hinn líflegi Galerias de Paris, aðalbarsvæði Porto, þar sem gestir geta fengið sér drykki innandyra eða á göngugötunni sem snýr að starfsstöðvunum. Campanhã-lestarstöðin er aðeins einni neðanjarðarlestarstöð frá Heroísmo. Eurostars Heroismo er í 19,5 km fjarlægð frá Francisco Sá Carneiro alþjóðaflugvellinum í Porto, sem er hægt að komast að í 35 mínútur með neðanjarðarlest.
Hótelið fær heildareinkunn 8,8 og einkunn 8,3 fyrir staðsetningu á booking.com.
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Portúgal liggur meðfram vesturströnd Íberíuskaga, og deilir suðvesturodda Evrópu með Spáni. Landið býr yfir einstakri menningu, flottum borgum, líflegum strandbæjum og fallegri sveit. Að flatarmáli er Portúgal ekki stór en landslagið býður samt sem áður upp á hin ýmsu tilbrigði. Hægt er að ferðast á einum degi frá grænum og gróðursælum fjöllum í norðri, um stórbrotnar klettahlíðar og fossa Mið-Portúgals, og suður á landsvæði Alentejo, sem minnir um margt á eyðimörk.
Portúgal á sér um 900 ára gamla sögu og hefur lagt sitt mark á heimssöguna. Þar er ofarlega á blaði aðild þeirra að hinum svokölluðu Landafundum, en Portúgalar lögðu grunninn að þeim í lok 14. aldar með því að stofna sjóleið til Indlands og nýlendusvæða Afríku, Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu. Aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið en Portúgal varð á þessum tíma áhrifamikið heimsveldi.
Í Portúgal þykir bæði loftslag og umhverfi vera kjörið fyrir golfíþróttina. Þetta hafa heimamenn nýtt sér og hannað marga af bestu golfvöllum álfunnar, en 14 þeirra eru á lista yfir 100 bestu brautir Evrópu, og landið hefur hampað titlinum ,,Besti golfáfangastaður heims“. En það er einnig annað sport, öllu æsilegra, sem tekið hefur ástfóstri við Portúgal. Við vesturströndina rísa nefnilega úr Atlantshafi einhverjar stærstu öldur sem brimbrettafólk kemst í tæri við, og svæðið oft nefnt sem eitt af þeim bestu í heimi til slíkrar iðkunar.
Portúgal hefur í áraraðir verið mjög vinsæll ferðamannastaður, ekki síst hjá Norður-Evrópu þjóðum, og gestir frá löndum eins og Englandi, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Svíþjóð flykkjast þangað til að njóta stórkostlegrar strandlengju, náttúrufegurðar og hins hlýja loftslags. Vinsælustu strendurnar eru í Algarve, en Miðjarðarhafið meðfram suðurströndinni hefur tilhneigingu til að vera hlýrra en hið opna Atlantshaf, og minna um hafrót og öldugang. Við vesturströndina er þó hiklaust hægt að mæla með frábærum stöðum að heimsækja, til dæmis hinum einstaklega sjarmerandi og fallega strandbæ Nazaré.
Höfuðborgin Lissabon er eina höfuðborg Evrópu sem staðsett er við strendur Atlantshafs, en hún er ein af elstu borgum heims og prýdd byggingum frá hinum ýmsu tímaskeiðum. Eitt af einkennum hennar eru hinar fjölmörgu hvítu kalksteinabyggingar sem setja fallegan svip á borgina, en hún hefur gengið í gegnum miklar endurbætur síðustu ár. Lissabon er líflegur og áhugaverður staður sem blómstrar nú sem aldrei fyrr og er að verða einn af vinsælustu áfangastöðum í Evrópu.
Porto er einstaklega flott og skemmtileg borg, byggð í bröttum fjallshlíðum meðfram ánni Duoro. Sum hverfi hennar standa hreinlega í miðju klettabelti, samsett af fornum miðaldarbyggingum og fínni nútímahíbýlum. Á milli borgarhæða eru stígar hamraðir í grýtta jörðina, og bjóða upp á hressandi gönguferðir með stórkostlegu útsýni. Ef einhvern tíma er tilefni til að kynna sér og smakka góð portvín, þá er það hér. Það liggur í orðanna hljóðan, en Porto er einmitt nefnd sem höfuðstaður portvína, og hiklaust hægt að mæla með heimsókn í hina einstöku portvínshella í Vila Nova de Gaia, eða aðra vínkjallara borgarinnar.
Um miðja strandlengu Portúgals stendur yndislegur bær sem ber sama heiti og heimastaður Jesú Krists, en í portúgalskri útfærslu, Nazaré. Nafnið tengist litlu trélíkneski af Maríu mey með frelsarann í fangi sér, sem kom með trúboðum frá Nazareth í kringum árið 700, og til eru fornar sögur af miklum kraftaverkum þeirrar styttu. Á seinni tímum er þar lítið um trúarleg undur og stórmerki, nema kannski sú staðreynd að bærinn Nazaré er bæði undursamlegur og stórkostlegur, og sannkallaður draumastaður fyrir alla sem þyrstir í sól og sælu. Þar er auk þess eitt eftirsóttasta brimbrettasvæði Evrópu. Hér hefði Jesú sko ekki látið sér nægja að ganga á vatninu, hann hefði pottþétt gripið með sér bretti og sörfað þær himinháu öldur sem þar rísa úr hafi.
Sjarmerandi fiskibær við fullkomna strönd
Í Nazaré búa um 10.000 manns og bærinn skiptist í þrjá hluta. Við ströndina liggur Praia hverfið, í klettum þar fyrir ofan rís gamla hverfið Sítío, og hægt er að ferðast milli þessara bæjarhluta með lestarkláfum. Enn ofar er svo að finna annað gamalt þorp, Pederneia.
Nazaré er gamall fiskibær og þrátt fyrir að ferðaiðnaðurinn hafi þar tekið völd, eru íbúar mjög stoltir af upprunanum og duglegir að kynna hann gestum sínum. Hér finnurðu gömul sjómannaheimili sem breytt hefur verið í fínustu hótel og sjávarréttastaðirnir eru margir og hver öðrum betri. Þá eiga bæjarbúar sína sérstöku ,,þjóðbúninga“ sem vísa í klæðnað sjómanna og fiskverkakvenna fyrri ára, en mesta athygli vekja hin sjölaga litskrúðugu pils sem konunar bera undir bróderuðum svuntum. Ekki er ólíklegt að sjá þessum búningum bregða fyrir.
Bærinn er einn vinsælasti áningarstaður við Silfurströndina svokölluðu (Costa de Prata), og þangað sækir fólk hvaðanæva úr Evrópu til að njóta hinnar afslöppuðu og þægilegu stemmingar sem þar ríkir. Staðurinn þykir henta öllum aldri – hér eru dásamlegar risastrandir til að leika sér á og liggja yfir daginn, og á kvöldin má velja úr fjölmörgum krám og skemmtistöðum til að sötra góðan drykk eða dansa inn í nóttina. Hér ríkir vinalegt andrúmsloft þar sem fólk frá ólíkum löndum blandar geði við hið hlýja og væna portúgalska heimafólk.
Brimbrettageggjun
Brimbrettafólk elskar Nazaré, enda öldurnar óvíða jafn tignarlegar, og aðstæður allar frábærar. Ýmis stórmót í brettasiglingum hafa verið haldin hér og heimsmet verið skráð. Árið 2017 sló brasilíski brimbrettakappinn Rodrigo Koxa heimsmet þegar hann sigldi öldu sem mældist 24,4 metrar! Við erum alltso ekki að tala um neitt smotterýsbrim!
Þá er rétt að nefna, fyrir þau sem ekki eru spennt fyrir að sigla slíkar öldur, að það getur verið dáleiðandi skemmtilegt að fylgjast með flínkum brimsiglurum leika listir sínar, og víða má finna sér stað, til dæmis í gamla bænum Sítío, með fyrirtaks útsýni yfir það sem fram fer á hafi úti. Ekki vitlaust að sötra á svalandi drykk á meðan.
Dagskrár hverrar fræðsluferðar er háð ferðadagsetningum hverju sinni. Dagskrá sem er innifalin í starfsferðum Tripical eru vinnustaðarheimsóknir/fræðsla sem er sniðin að þörfum hvers hóps.
Starfsferðir eru hálfgert dómínó og ekki alltaf ljóst hvað er hænan og hvað er eggið. Að því sögðu þá þekkjum við viðmið til að fá styrk og hvaða gögn þið þurfið. Það getur tekið okkur tíma að fá fullnægjandi gögn en við höfum fengið A+ í kladdann hjá sjóðunum og komið öllum út sem hafa tekið tilboði frá okkur. Við leggjum alltaf mikið upp úr fræðsluhlutanum og reynum að gera ferðina ykkar gefandi, áhugaverða sem og skemmtilega.
Áður en fræðslufúsir ferðalangar leggja í hann, fær forsvarsmanneskja hópsins nákvæma dagskrá og öll nauðsynlegum gögn sem tengjast ferðinni. Svo bara læra, lifa og njóta!