Flugáætlanir 2025
Ef engin af áætluðum ferðadagsetningum hentar þér skaltu ekki hika við að hafa samband við sölumenn Tripical: hallo@tripical.is svo við getum rætt aðra valkosti.
Það hafa kannski ekki margir heyrt um borgina Faro, en hún er þó höfuðstaður Algarve héraðsins í Portúgal og þangað hafa margir Íslendingar farið til að baða sig í sól og sælu. Faro er yndislegur staður, sem býður upp á frábæra blöndu af fornri sögu, menningu og dásamlegri náttúrufegurð.
Allt frá 2. öld fyrir Krist og fram á þá 8. eftir Krist var Faro hluti af ríki Rómverja, og eftir það tóku Múslimar þar völd um nokkurt skeið. Gamli bærinn er umkringdur fornum borgarveggjum sem er þekktur undir nafninu Cidade Velha. Þar eru þröngar steinlagðar götur sem afar gaman er að skoða. Gengið er inn í gamla bæinn gegnum bogahvelfd göng, hin svokölluðu Arco da Vila, sem leiða þig inn í þennan forna og nýja menningarheim. Dómkirkjan er einstaklega falleg blanda af gotneskum og barokk arkitektúr, og turn hennar býður upp á víðáttumikið útsýni. Hér er auðvelt að týna tímanum á sjarmerandi kaffihúsi og í litlum verslunum sem gaman er að glugga í.
Skammt frá Faro eru nokkrar af fallegustu ströndum Portúgals, og með nokkurra mínútna ferjusiglingu frá miðbænum er komið að óspilltum sandlengjum sem eru kjörnar fyrir gott sólbað eða sundsprett í hreinum sjó. Hinn fallegi náttúrugarður Ria Formosa tilheyrir borginni, en þetta er einstaklega fallegt friðað lón sem teygir sig meðfram strandlengjunni, og þar er að finna mikla náttúru- og dýraflóru, ekki síst fjölbreytt fuglalíf. Þar má til dæmis bæði koma auga á flamingóa, og vinkonu okkar Íslendinga, blessaða kríuna. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru um garðinn, með fallegum útsýnisstöðum, og boðið er upp á bátsferðir meðfram strandlengjunni sem hiklaust má mæla með.
Mikið úrval er af gæða veitingastöðum, kaffihúsum og krám. Matarsenan í Faro þykir afar fjölbreytt og góð, hér finnurðu til dæmis dásamlega sjávarréttastaði sem bjóða upp á ferskt hráefni, og fyrir þá sem langar að prófa eitthvað ekta portúgalskt má mæla með réttum eins og fiskpottréttinum cataplana.
Ferð til Faro er áhrifarík blanda af spennandi menningarupplifun, töfrandi landslagi, afslöppuðu og þægilegu andrúmslofti, girnilegum mat og góðum drykkjum. Fullkominn staður fyrir hópferðina þína!
Pure Formosa Concept Hotel er staðsett í Olhão, 18 km frá eyjunni Tavira, og býður upp á gistingu með sameiginlegri setustofu, einkabílastæði, verönd og bar. Þetta 3 stjörnu hótel var byggt árið 2021 og er í innan við 19 km fjarlægð frá kirkjunni í São Lourenço og 33 km frá Vilamoura-smábátahöfninni. Gististaðurinn er með sólarhringsmóttöku, flugrútu, alhliða móttökuþjónustu og ókeypis WiFi hvarvetna.
Hótelið býður gestum upp á loftkæld herbergi með skrifborði, katli, minibar, öryggishólfi, flatskjá og sérbaðherbergi með sturtu. Herbergin á Pure Formosa Concept Hotel eru með rúmföt og handklæði.
Morgunverðarhlaðborð og léttur morgunverður eru í boði á hverjum morgni á gististaðnum.
Hótelið fær heildareinkunn 8,9 og einkunn 9,3 fyrir staðsetningu á booking.com.
OZADI Tavira Hotel er staðsett í Tavira og býður upp á útisundlaug og líkamsrækt. Hótelið er með nútímalega hönnun og hvarvetna er ókeypis WiFi.
Loftkældu herbergin eru með blöndum af gamaldags og nútímalegum innréttingum og eru með hljóðeinangrun, flatskjá með kapalrásum, fataskáp, skrifborð, svalir með útsýni yfir nágrennið og minibar. Sérbaðherbergin eru með baðkari eða sturtu ásamt ókeypis snyrtivörum og hárþurrku.
OZADI Tavira Hotel er með 2 veitingastaði með 2 mismunandi andrúmsloftum. OZADI Terrace býður upp á víðáttumikið útsýni yfir saltslétturnar og sjóinn og framreiðir hlaðborð. OrangeTotal Bistro er með afslappað andrúmsloft og býður upp á úrval af tapas og víni sem og à la carte-kvöldverð. Einnig geta gestir slakað á á sundlaugarbarnum eða á 3. hæð og fengið sér kokteil og hlustað á lifandi tónlist. Morgunverðarhlaðborð með glútenlausum valkostum er í boði.
OZADI Tavira Hotel er með sólarhringsmóttöku, dagleg þrif, herbergisþjónustu, þvottaþjónustu, flugrútu, ókeypis skutlu til Tavira og ýmsa þjónustu fyrir börn. Gestir geta óskað eftir nuddi á herbergi en einnig er til staðar tyrkneskt bað. Einnig geta gestir lesið bók á bókasafninu og setustofunni eða farið í biljarð í leikherberginu.
Hótelið fær heildareinkunn 8,8 og einkunn 8,3 fyrir staðsetningu á booking.com
Við hjá Tripical leggjum okkur mikið fram við að gera ferðina þína sem eftirminnilegasta!
Við erum afar stolt og ánægð yfir þeim frábæru umsögnum sem viðskiptavinir hafa gefið okkur:
Portúgal liggur meðfram vesturströnd Íberíuskaga, og deilir suðvesturodda Evrópu með Spáni. Landið býr yfir einstakri menningu, flottum borgum, líflegum strandbæjum og fallegri sveit. Að flatarmáli er Portúgal ekki stór en landslagið býður samt sem áður upp á hin ýmsu tilbrigði. Hægt er að ferðast á einum degi frá grænum og gróðursælum fjöllum í norðri, um stórbrotnar klettahlíðar og fossa Mið-Portúgals, og suður á landsvæði Alentejo, sem minnir um margt á eyðimörk.
Portúgal á sér um 900 ára gamla sögu og hefur lagt sitt mark á heimssöguna. Þar er ofarlega á blaði aðild þeirra að hinum svokölluðu Landafundum, en Portúgalar lögðu grunninn að þeim í lok 14. aldar með því að stofna sjóleið til Indlands og nýlendusvæða Afríku, Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu. Aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið en Portúgal varð á þessum tíma áhrifamikið heimsveldi.
Í Portúgal þykir bæði loftslag og umhverfi vera kjörið fyrir golfíþróttina. Þetta hafa heimamenn nýtt sér og hannað marga af bestu golfvöllum álfunnar, en 14 þeirra eru á lista yfir 100 bestu brautir Evrópu, og landið hefur hampað titlinum ,,Besti golfáfangastaður heims“. En það er einnig annað sport, öllu æsilegra, sem tekið hefur ástfóstri við Portúgal. Við vesturströndina rísa nefnilega úr Atlantshafi einhverjar stærstu öldur sem brimbrettafólk kemst í tæri við, og svæðið oft nefnt sem eitt af þeim bestu í heimi til slíkrar iðkunar.
Portúgal hefur í áraraðir verið mjög vinsæll ferðamannastaður, ekki síst hjá Norður-Evrópu þjóðum, og gestir frá löndum eins og Englandi, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Svíþjóð flykkjast þangað til að njóta stórkostlegrar strandlengju, náttúrufegurðar og hins hlýja loftslags. Vinsælustu strendurnar eru í Algarve, en Miðjarðarhafið meðfram suðurströndinni hefur tilhneigingu til að vera hlýrra en hið opna Atlantshaf, og minna um hafrót og öldugang. Við vesturströndina er þó hiklaust hægt að mæla með frábærum stöðum að heimsækja, til dæmis hinum einstaklega sjarmerandi og fallega strandbæ Nazaré.
Höfuðborgin Lissabon er eina höfuðborg Evrópu sem staðsett er við strendur Atlantshafs, en hún er ein af elstu borgum heims og prýdd byggingum frá hinum ýmsu tímaskeiðum. Eitt af einkennum hennar eru hinar fjölmörgu hvítu kalksteinabyggingar sem setja fallegan svip á borgina, en hún hefur gengið í gegnum miklar endurbætur síðustu ár. Lissabon er líflegur og áhugaverður staður sem blómstrar nú sem aldrei fyrr og er að verða einn af vinsælustu áfangastöðum í Evrópu.
Porto er einstaklega flott og skemmtileg borg, byggð í bröttum fjallshlíðum meðfram ánni Duoro. Sum hverfi hennar standa hreinlega í miðju klettabelti, samsett af fornum miðaldarbyggingum og fínni nútímahíbýlum. Á milli borgarhæða eru stígar hamraðir í grýtta jörðina, og bjóða upp á hressandi gönguferðir með stórkostlegu útsýni. Ef einhvern tíma er tilefni til að kynna sér og smakka góð portvín, þá er það hér. Það liggur í orðanna hljóðan, en Porto er einmitt nefnd sem höfuðstaður portvína, og hiklaust hægt að mæla með heimsókn í hina einstöku portvínshella í Vila Nova de Gaia, eða aðra vínkjallara borgarinnar.
Um miðja strandlengu Portúgals stendur yndislegur bær sem ber sama heiti og heimastaður Jesú Krists, en í portúgalskri útfærslu, Nazaré. Nafnið tengist litlu trélíkneski af Maríu mey með frelsarann í fangi sér, sem kom með trúboðum frá Nazareth í kringum árið 700, og til eru fornar sögur af miklum kraftaverkum þeirrar styttu. Á seinni tímum er þar lítið um trúarleg undur og stórmerki, nema kannski sú staðreynd að bærinn Nazaré er bæði undursamlegur og stórkostlegur, og sannkallaður draumastaður fyrir alla sem þyrstir í sól og sælu. Þar er auk þess eitt eftirsóttasta brimbrettasvæði Evrópu. Hér hefði Jesú sko ekki látið sér nægja að ganga á vatninu, hann hefði pottþétt gripið með sér bretti og sörfað þær himinháu öldur sem þar rísa úr hafi.
Sjarmerandi fiskibær við fullkomna strönd
Í Nazaré búa um 10.000 manns og bærinn skiptist í þrjá hluta. Við ströndina liggur Praia hverfið, í klettum þar fyrir ofan rís gamla hverfið Sítío, og hægt er að ferðast milli þessara bæjarhluta með lestarkláfum. Enn ofar er svo að finna annað gamalt þorp, Pederneia.
Nazaré er gamall fiskibær og þrátt fyrir að ferðaiðnaðurinn hafi þar tekið völd, eru íbúar mjög stoltir af upprunanum og duglegir að kynna hann gestum sínum. Hér finnurðu gömul sjómannaheimili sem breytt hefur verið í fínustu hótel og sjávarréttastaðirnir eru margir og hver öðrum betri. Þá eiga bæjarbúar sína sérstöku ,,þjóðbúninga“ sem vísa í klæðnað sjómanna og fiskverkakvenna fyrri ára, en mesta athygli vekja hin sjölaga litskrúðugu pils sem konunar bera undir bróderuðum svuntum. Ekki er ólíklegt að sjá þessum búningum bregða fyrir.
Bærinn er einn vinsælasti áningarstaður við Silfurströndina svokölluðu (Costa de Prata), og þangað sækir fólk hvaðanæva úr Evrópu til að njóta hinnar afslöppuðu og þægilegu stemmingar sem þar ríkir. Staðurinn þykir henta öllum aldri – hér eru dásamlegar risastrandir til að leika sér á og liggja yfir daginn, og á kvöldin má velja úr fjölmörgum krám og skemmtistöðum til að sötra góðan drykk eða dansa inn í nóttina. Hér ríkir vinalegt andrúmsloft þar sem fólk frá ólíkum löndum blandar geði við hið hlýja og væna portúgalska heimafólk.
Brimbrettageggjun
Brimbrettafólk elskar Nazaré, enda öldurnar óvíða jafn tignarlegar, og aðstæður allar frábærar. Ýmis stórmót í brettasiglingum hafa verið haldin hér og heimsmet verið skráð. Árið 2017 sló brasilíski brimbrettakappinn Rodrigo Koxa heimsmet þegar hann sigldi öldu sem mældist 24,4 metrar! Við erum alltso ekki að tala um neitt smotterýsbrim!
Þá er rétt að nefna, fyrir þau sem ekki eru spennt fyrir að sigla slíkar öldur, að það getur verið dáleiðandi skemmtilegt að fylgjast með flínkum brimsiglurum leika listir sínar, og víða má finna sér stað, til dæmis í gamla bænum Sítío, með fyrirtaks útsýni yfir það sem fram fer á hafi úti. Ekki vitlaust að sötra á svalandi drykk á meðan.
Dagskrár hverrar fræðsluferðar er alltaf háð ferðadagsetningum hverju sinni. Dagskrá sem er innifalin í fræðsluferðum Tripical eru skólaheimsóknir/fræðsla sem er sniðin að þörfum hópsins.
Fræðsluferðir eru hálfgert dómínó og ekki alltaf ljóst hvað er hænan og hvað er eggið. Að því sögðu þá þekkjum við viðmið Kennarasambandsins og hvaða gögn þið þurfið. Það getur tekið okkur tíma að fá fullnægjandi gögn en við höfum fengið A+ í kladdann hjá sjóðunum og komið öllum út sem hafa tekið tilboði frá okkur. Við leggjum alltaf mikið upp úr fræðsluhlutanum og reynum að gera ferðina ykkar gefandi, áhugaverða sem og skemmtilega.
Áður en fræðslufúsir ferðalangar leggja í hann, fær forsvarsmanneskja hópsins frá okkur nákvæma dagskrá og öll nauðsynlegum gögn sem tengjast ferðinni. Svo bara læra, lifa og njóta!!!