15.09.2025
Keflavík – Zürich 07:20 – 13:05
22.09.2025
Zürich – Keflavík 14:00 – 16:00
Rúta frá fluvellinum í Zürich til Colmar er innifalin og tekur rúmar 3 klukkustundir
Rútur til og frá ráðstefnustað í Saint-Marie-Aux-Mines taka um 40 mínútur frá hóteli.
1 í herbergi: 239.990 kr. á mann með morgunmat
2 saman í herbergi: 179.990 kr. á mann með morgunmat
Þegar 1 er í herbergi er gist í tveggja manna herbergi fyrir einstaklingsnotkun með tveimur aðskildum rúmum.
Þegar 2 eru saman í herbergi er gist í tveggja manna herbergi með hjónarúmi eða tveimur aðskildum rúmum.
Alsace héraðið er staðsett í norð-austur hluta Frakklands, austur af Rínarfljóti við landamæri Þýskalands og vestur af Vosges fjallgarðinum. Í gegnum aldirnar hafa Frakkar og Þjóðverjar til skiptis slegið eign sinni á svæðið, sem sést vel á þeirri sérstöku germansk/frönsku menningarblöndu sem þar er að finna. Langflestir íbúar Alsace líta þó á sig sem Frakka, á fáum stöðum er franski fáninn jafn áberandi og frönsk tunga er í hávegum höfð.
Alsace er heimsþekkt víngerðarsvæði, og víðfeðmar vínekrur teygja sig og sveigja framhjá gömlum kastalabyggingum sem standa hér og þar um héraðið, Haut-Koenigsbourg er einna frægastur. Hér færðu því gæða vín, þar á meðal Riesling, Gewurztraminer og Pinot Gris, sem drekka má með fjölbreyttum og þjóðlegum úrvalsmatseðli Alsacebúa.
Vegna lögunar sinnar er Frakkland stundum kallað ,,l’Hexagone“, sem þýðir sexhyrningur. Það er þriðja stærsta ríki Evrópu, á eftir Rússlandi og Úkraínu, og á landamæri að 8 nágrannaríkjum. Ekki þarf að hafa mörg orð um þá staðreynd að Frakkland er einn af Evrópurisunum í menningarlegum skilningi. Áhrif þess á heimssöguna eru gríðarleg, Frakkland er ásamt Bandaríkjunum réttilega nefnt sem helsti brautryðjandi nútíma lýðræðis, og enn í dag skipar ríkið stóran sess í hinni vestrænu heimsmynd. Landið er auk þess vinsælasta ferðamannaland heims, og þangað koma um 90 milljónir gesta ár hvert.
Almennar upplýsingar:
Meginland Frakklands er fjölbreytt í landslagi. Norður- og vesturströndin einkennist meira af flatlendi, í suð-austur og suð-vestur hlutanum rísa fjallgarðar Alpanna og Pýrennafjalla í öllu sínu veldi, þar á meðal einn af hæstu tindum Evrópu, Mont Blanc (4810 m.) Hinar frönsku sveitir búa yfir segulmagnaðri fegurð, má þar sem dæmi nefna lavenderakra Provence héraðsins, og ekrur og víngarða Bordeaux. Syðsti hlutinn einkennist af hlýrra loftslagi, Franska Rívíeran teygir sig meðfram Miðjarðarhafinu og býður upp á dásamlegar strendur og skínandi sól, gróðursæla náttúru og ekta Miðjarðarhafs stemmingu.
Frönsk matarmenning er auðvitað sér á parti og hefur lengi haft yfirburði yfir aðra. Um allan heim keppast matreiðslumeistarar við að hljóta viðurkenningu með hinni frönsku Michelin stjörnugjöf. Frönsku vínin eru þekkt fyrir gæði sín, og svo þykir mörgum landið bera af í eftirréttum, brauð- og kökugerð.
Höfuðborgin París hefur í gegnum tíðina verið kölluð ýmsum nöfnum sem öll eiga að grípa sérstöðu hennar. Hún er borg ástarinnar, borg ljósadýrðar, borg tísku og lista. París er stórfengleg menningarborg, hlaðin glæstri sögu og sögufrægum byggingum. Það er ógleymanleg upplifun að sjá útsýnið frá Eiffelturninum, ganga um hellulögð og sjarmerandi stræti Montmarte, njóta birtunnar sem streymir í gegnum um steind gler Notre Dame eða horfa í átt til sigurbogans eftir Champs-Élysées.
Þær eru ófáar andans hetjurnar frönsku sem glatt hafa okkur með listsköpun sinni, fólk á borð við listmálarann Monet, rithöfundar eins og Victor Hugo, Voltaire og Marcel Proust, og söngdívan sígilda, elskað og dáða Edith Piaf.