19.05.2025
Keflavík – Barcelona 15:20- 21:40
25.05.2025
Barcelona – Keflavík 22:40- 01:20
Það tekur um 30-35 mínútur með rútu frá flugvellinum í borgina
1 í herbergi: 294.990kr á mann með morgunmat
2 saman í herbergi: 199.990kr á mann með morgunmat
Þegar 1 er í herbergi er gist í tveggja manna herbergi fyrir einstaklingsnotkun með tveimur aðskildum rúmum.
Þegar 2 eru saman í herbergi er gist í tveggja manna herbergi með hjónarúmi eða tveimur aðskildum rúmum.
Í aðeins 35 km fjarlægð, suð-vestur af Barcelona, stendur hin sólríka og sykursæta Sitges, með sínum girnilegu ströndum, eldheita næturlífi og frábæru festivölum. Yndislegur staður!
Í þessum dásemdar smábæ er fjölbreytileikanum fagnað með dansi og tónlist hvenær sem færi gefst. Íbúar leggja stolt sitt og metnað í að bjóða alla hjartanlega velkomna, hvaðan úr heiminum sem fólk kemur, hvers kyns eða kynhneigðar sem það er. Hér eru allir vinir, og öllum áhyggjum og óþarfa leiðindum er góðfúslega vísað frá.
Litlir götustígar skera bæjarkjarnann þvers og kruss. Alls staðar eru litlar verslanir, skemmtilegir veitingastaðir og krár, þar sem auðvelt er að finna eitthvað við sitt hæfi, milli þess sem lagst er í gott sólbað á einni af þeim 13 ströndum sem tilheyra svæðinu.
Sitges er stundum nefnd Festivalabærinn. Árið um kring standa yfir hátíðir af ýmsu tagi. Þekktust er líklega Sitges Carnival, þar sem dans, skrautlegir búningar og sjóðheit suðræn stemming yfirtaka bæinn. Hér er líka árlega haldin alþjóðleg kvikmyndahátíð, kappaksturskeppnir, stórtónleikar, leiklistarhátíðir, ásamt öðrum minni hátíðum og listasýningum. Næturlífið er einstaklega fjörugt og gleðin óstöðvandi allt fram undir morgun.
Saga bæjarins er aldargömul og margt áhugavert að skoða. Boðið er upp á skemmtilegar gönguferðir með leiðsögn. Við ströndina neðan við bæjarkjarnann stendur hin fallega Bartomeu kirkja frá 17. öld (Església de Sant Bartomeu i Santa Tecla) og setur tignarlegan svip á svæðið. Í næsta nágrenni við Sitges má finna þó nokkuð af vínræktendum, og rétt að nefna vinsæla hjólreiðatúra til vínbænda sem hróðugir bjóða upp á smakk af framleiðslu sinni. Þá er sjálf Barcelona skammt undan og auðvelt að taka sér dagsferð þangað með lest. Síðast en ekki síst, og það mikilvægasta: Hér er svo gott að liggja í leti og slaka á, tana og njóta, borða, drekka, versla, elska!
Spánn hefur um árabil verið eitt vinsælasta land Evrópu meðal ferðafólks og þangað drífur að mikill fjöldi gesta alls staðar úr heiminum allan ársins hring. Ástæðan er langt frá því að vera ,,af því bara“ – á Spáni er svo margt að sjá og upplifa, fjölbreytileiki landsins er gríðarlegur, auk þess sem þar er auðvitað nóg til af því sem allir elska og þrá, nefnilega sól og blíðu!
Konungsríkið Spánn telur um 46 milljónir íbúa. Það er um það bil 5 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og staðsett á Íberíuskaga (stundum nefndur Pýreneaskagi) syðst í Evrópu, með landamæri að Portúgal til vesturs og Frakklands og smáríkisins Andorra til norðurs. Löng austurströnd landsins snýr að Miðjarjarðahafi, og syðsti oddi Spánar er um leið syðsti oddi meginlands Evrópu.
Æðislegar strendur, eldhresst næturlíf, sprúðlandi fjölmenning og borgir með afar áhugaverðan bakgrunn og sögu, og stórbrotnar byggingar því til sönnunar – allt þetta hefurðu á Spáni. En landið býr einnig yfir miklum fjölbreytileika í landfræðilegum skilningi, enda æði stórt og mikið. Þar hefurðu fjöll og snjó í norðri, risavaxin mýrlendi og sandflæmi í suðri. Sumrin eru vissulega háannatími í ferðaiðnaði landsins, en þeir sem heldur kjósa minna fjölmenni eða vetrarferðir hafa sannarlega úr mörgu að moða.
Á Spáni eru margar fallegar og spennandi borgir. Fyrst má nefna þær þekktustu, höfuðborgina Madrid með sínum heillandi arkitektúr, fjölbreyttu söfnum og sýningum, og hina mögnuðu Barcelona með sín fjölmörgu ólíku hverfi, stórbrotnu byggingar, blómstrandi menningarlíf, iðandi næturlíf og fyrirtaks sólbaðsstrendur. En þá er langt í frá allt upptalið, því hér höfum við líka borgir eins og Sevilla, Valencia, Granada og Bilbao og fleiri, allt staðir með sína einstöku sérstöðu sem fyllilega má mæla með. Þess utan eru svo minni bæir og þorp, við ströndina eða uppi á landi, sem með sjarma sínum og fegurð draga til sín sólþyrsta gesti í leit að afslöppun og ánægju.