Andorra – Sólrík perla Pýreneafjalla

26.08.2021

Sem einlægur aðdáandi skíðasvæðanna í Andorra er ég oft spurður hvað það sé eiginlega sem valdi því að ég nánast gríp hvert tækifæri sem gefst til að segja hvað mér finnst þessi þorp og fríin þar algjörlega mögnuð. Já, það er nefnilega þannig að ástríða mín og áhugi á vetrardvöl erlendis er mikill, eiginlega á lokastigi.

En hvað er það þá sem kveikir í manni og vekur upp hugsanir um að renna sér í brekkum þótt úti sé brakandi þurrkur og glampandi sól? Í fyrsta skipti sem ég var spurður rann bara svarið upp úr mér og það næstum því stuðlað: “veðrið, viðmót fólksins, þorpin, maturinn, möguleikarnir og fjölbreytnin.” Kynntu þér fjölbreytta möguleika varðandi gistingu, brottfarir og afþreyingu.

Veðrið
Já, tölum um veðrið! Sko, ég segi alltaf að það sé mest hætta á góðu veðri í Andorra á veturna af flestum skíðasvæðunum. 300 daga á ári er sól. En þetta er eiginlega þannig sýnist mér að sunnan megin í Ölpunum, t.d. á Ítalíu, er algengara að sólin láti sjá sig á meðan að kannski norðan megin er meiri úrkoma, þar með talinn snjór. Svo þegar komið er á landamæri Frakklands og Spánar sem ekki tilheyra Ölpunum er veðrið eiginlega bara alltaf gott. Án þess samt að hafa reiknað það út á einhvern hátt upplifi ég það þannig að hafa oftar verið í geggjuðu veðri á þessum slóðum. 2017 var síðan algjört metár í úrkomu í Andorra. Þá var skíðað fram á sumar. Hitinn á daginn yfir vetrarmánuðina í Andorra er svona frá þriggja stiga frosti upp í þriggja stiga hita.

Heimamenn
Viðmót fólks í Andorra er framúrskarandi. Ég hef vissulega velt því fyrir mér af hverju þetta er svona áberandi og ólíkt því sem ég hef upplifað á austurískum og frönskum skíðasvæðum. En þetta smáríki sem telur 78 þúsund manns gengur út á að taka á móti ferðamönnum. Þar er því mikil fagmennska og þjónustulund á háu stigi. Fólk er meðvitað um að þeir sem koma eru ekki bara á leið í gegn heldur hafa ákveðið að gera Andorra að sínum áfangastað.

Maturinn
Í Andorra ægir saman áhrifum frá Frakklandi, Katalóníu, Spáni og Ítalíu. Þeir eru stoltir af staðbundinni matargerðarlist, hefðum og hráefni. Þetta er merkjanlegt bæði í þorpunum og í fjallinu. Einfalt, ferskt, saðsamt og bragðmikið.Tökum þorpin fyrst. Flestir staðirnir bjóða strangheiðarlegan mat þar sem kennir ýmissa grasa. Geggjað tapas, pizzur, pasta og aðra sígilda rétti að sjálfsögðu en að auki er að víða að finna áhugaverða rétti sem byggja á staðbundinni framleiðslu, t.d. kanínu og dádýri. Hráefni, vín og ostar frá framleiðendum í héraðinu er í hávegum haft Einn staður í Soldau ber Michelin stjörnu og aðrir hafa fengið meðmæli sama aðila. Framúrskarandi japanskur staður er í Soldeu og einn kóreanskur. Höfuðborgin, Andorra de Vella er í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð frá Soldeu/Tarter og þar kennir ýmissa grasa..

Maturinn í fjallinu er að mínu mati stórbrotinn þegar maður líka hugsar um að öll aðföng eru með kláfunum. Á hverjum degi þurfa rekstraraðilar að koma vörum upp í fjall, en í því liggur smá tækifæri fyrir þá sem vakna snemma því stundum er hægt að lauma sér í fjallið á undan öðrum. Að skíða í nýtroðinni brekku fyrstur… Vá! En já að matnum! Gúllassúpan, grænmetis lasagna, og ýmiskonar brauðmeti er sígilt en þar fyrir utan er hægt að fara í A la Carte vegferð í Lacc Dels Pessons í Grau Roig, heiðarlegan hamborgara eða vandaðri mat á þeim stöðum sem hann bjóða. Síðan er alltaf hægt að stökkva niður í bæði Pas De La Casa eða Soldeu og svo bara í fjallið aftur.

Þorpin
Hvert um sig hafa þorpin ákveðin einkenni og hvert um sig eru þau einstök. Fjöldi gesta er grundvöllur fyrir umtalsverðri þjónustu þótt auðvitað séu takmörk fyrir þvi hvað hægt er að gera. Þar sem það er áratuga hefð fyrir þjónustu við gesti eru ýmiss hótel með svokallaða fulla þjónustu þar sem fólk kaupir fullt fæði og borðar bæði morgunmat og kvöldmat á hótelinu. Eitthvað sem ég er persónulega ekki mikið fyrir því ég vil fara út á kvöldin og upplifa ólíka stemmingu. Í þorpunum er svo líka einhvernveginn passlega mikið af verslunum með frábæran búnað, sælkeramat, framleiðslu úr héraði og svo eitthvað af hátískuvöru.

Fjölbreytt skíðasvæði
Grandvalira og nærliggjandi þorp er mjög fjölbreytt. Ég veit að sumir hafa komið sér upp ákveðnu kerfi, aðrir bara láta hendingu ráða hvert er farið og svo eru þeir sem bara elta sólina, eða forðast hana. Samtals eru 210 kílómetrar af samtengdum brekkum og 90 kílómetrar af ótengdum sem Grandvalira lyftukortið veitir aðgang að. Já þið lásuð rétt! Rétt um þriðjungur af brekkum eru svokallaðar bláar, sem sagt auðveldustu brekkurnar. Rauðar eru svo tæpur helmingur og þær svörtu tæp 20%. Það finna því flestir eitthvað við sitt hæfi. Þegar opnar í lok nóvember er búið að framleiða snjó í undirlag í öllum brekkum. Allur nýr snjór festist því hratt. Ágætt gönguskíðaspor er á svæðinu og nokkuð um fjallaskíðafólk sem skinnar upp. Í bænum er svo líka skautasvell. Hægt er að setja saman allavega áætlun fyrir hvern dag eða bara renna sér endalaust hingað og þangað.

Fyrir blandaða hópa
Síðast en ekki síst finnst mér frábært hvað Grandvalira í Andorra hentar vel fyrir blandaða hópa, það er hópa þar sem fólk er misjafnlega langt komið í íþróttinni, hvort sem það er á bretti eða skíðum. Þannig geta allir fundið sinn takt en aldrei er það langt á milli fólks að ekki sé hægt að hittast í morgunhressingu, hádegisverð, eftirmiðdagsstund, eða Aprés Ski. Skiptir þá litlu hvort að fólk sé að eltast við mjög krefjandi skíðun í kolsvörtum brekkum eða bara hjá yndislegum kennurum að ná tækninni og auka sjálfstraustið.

Ef þú ert á leið til Andorra eða hefur áhuga á að vita meira um þessa einstöku paradís getur þú alltaf haft samband. daddi hjá tripical.com, 6910000

Daddi Guðbergsson er annar tveggja gestgjafa í ferðum til Andorra.