Ég viðurkenni fúslega að ég er fyrir löngu orðinn háður því að ferðast á veturna. Það svo sem ræðst af ýmsu bæði persónulegu og svona bara almennri skynsemi. Auðvitað ferðumst við öll á mismunandi forsendum og áherslurnar eru ekki eins hjá öllum en þegar ég áttaði mig á því að ég var farinn að ferðast meira erlendis á veturna en á sumrin fór ég að velta fyrir mér af hverju það var. Byrjum á skynseminni.
Framboð og eftirspurn
Eftir að Ísland komst á kortið sem heitur reitur og varð eftirsóknarverður áfangastaður ferðamanna, jókst framboð flugsæta um heilan helling og um leið möguleikum Íslendinga til að ferðast viðar. Flugbransinn er síðan þannig að eftirspurn er misjöfn og ennþá gætir umfram eftirspurnar yfir sumarmánuðina sem hefur bein áhrif á farmiðaverð. Líkurnar á því að finna hagstætt verð í flug á veturna eru því nokkuð meiri.
Sumarið er jú tíminn
Það er ekki að ástæðulausu að fólk kýs að koma til Íslands yfir sumartímann enda flestir sem hingað ferðast mæla með þeirri upplifun. Stuttar nætur, sólríkir dagar, hitinn þolanlegur og jafnvel hægt að vera í stuttbuxum yfir hádaginn!. Birtan er svo heillandi og allt er í blóma. Garðar, torg og fólk skartar sínu fegursta. Andinn lyftist og allt lifnar við. Sumarið er tíminn er fullyrðing úr ranni Bubba Morthens sem, þrátt fyrir að vera klisja, er bara svo sönn. Hvers vegna þá að rjúka upp til handa og fóta og yfirgefa landið, einmitt þegar þar er best að vera?
Þyngstu mánuðir ársins
Svo er það myrkrið. Án þess að vilja hljóma eins og einhver dragadrottning, þá er ég einn af þeim sem með aldrinum finn bara nokkuð mikið fyrir myrkrinu. Jú jú, ég er alveg víkingur og allt það. Kalla ekki allt ömmu mína og tek áskorunum opnum örmum eins og við öll sem erum alin upp hér á hjara veraldrar. Ég viðurkenni samt fúslega að mér finnst það dýrmætara en flest að ferðast, að komast í burtu úr myrkrinu. Upplifunin við það Bara að skipta um umhverfi verður ekki verðlagt. Í það minnsta, ferðalög að vetri gera mér persónulega miklu betra en eitthvað sumarhopp.
D-vítamin hleðslan
Vítamínin eru mikilvæg. Nauðsynleg segja sumir. Ég skal alveg vera duglegur að borða allskonar stöff sem færir mér dagskammtinn af D-vítamini en inntaka í gegnum andlitið allt beint frá heiðgulu uppsprettunni þar sem hún býr á heiðum himni hljómar bara miklu betur. Liggjandi á sólarströnd, við sundlaugarbakkann eða bara þú veist, að standa í fleiri hundruð metra hæð með lokuð augun um hávetur, baðaður í geislum sólarinnar og finna hitann. Orð fá bara ekki lýst áhrifunum á sinnið.
Sjáðu muninn
Eitt sem ég tók eftir fyrir nokkrum árum var munurinn á öllu þegar ég kom heim eftir viku erlendis um hávetur. Ég fór frá Íslandi í slagveðurs rigningu, áttavilltum vindi og vosbúð. Kom heim eftir sæla sjö daga og fannst veðrið hafa batnað, hitinn hækkað, birtan aukist og allt bara miklu betra. Man að síðan voru bara komnir páskar og stuttu síðar sumar. Það er stór munur þegar daginn er að lengja og það munar svo um þessar dýrmætu mínútur og sekúndur sem vanda sig við að bætast við þann tíma sem birtunnar gætir.
Ekkert að frétta í byrjun árs
Jólin að baki og hvað næst? Hefur þú einhvern tímann hugleitt hvað það er grátlega lítið í gangi í upphafi árs? Þjóðfélagið er í hálfgerðri jólaþynnku eftir geðveiki desembermánaðar og stressi jólahaldsins. Aðdragandi jólanna helgast af spennu og eftirvæntingu en sjálf jólin eins frábær og þau eru standa ekki alltaf undir öllum okkar væntingum. Síðan kemur þessi eyða þar sem lítið er að frétta, engar veislur, ekkert til að hlakka til. Þá er dýrmætt að hlakka til vetrarferðar, ég tala nú ekki um viðburðaríka heimsókn í snjó, gleði og glens sólarmegin í Pýreneafjöllunum, ég tala nú ekki um á mínum uppáhaldsstað, Granvalira í Andorra.
Ef þú ert á leið til Andorra eða hefur áhuga á að vita meira um þessa einstöku paradís getur þú alltaf haft samband. daddi hjá tripical.com, 6910000
Daddi Guðbergsson er annar tveggja gestgjafa í ferðum til Andorra 2020.